Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:41:08 (559)


[22:41]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Nú er kominn sá tími árs sem segir um í Konungsskuggsjá: ,,Nú skemmist nótt en tognar dagur``. Nóttin er ung, herra forseti, og ég tel að þegar menn ræða annað eins þjóðþrifamál og stjórn fiskveiða þá sé það minnsta sem við getum gert að leggja undir okkur nóttina fyrir þetta góða mál.
    Herra forseti. Ég ætla þó ekki að halda langa ræðu en það er ýmislegt sem mér finnst nauðsynlegt að fram komi. Ég segi það til að mynda, herra forseti, að ég sakna þess að hér skuli ekki vera staddir sumir þeirra hv. þm. sem mest hafa haft sig í frammi varðandi sjávarútvegsmál í nýliðinni kosningabaráttu. Til að mynda er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ekki hér en hins vegar virði ég það að hann hefur réttmæta afsökun vegna þess að hann hvarf af þingi af persónulegum ástæðum. Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, og vil láta það koma hér fram að ég sakna þess að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem fjöldi þingmanna í 1. umr. og við 2. umr. beindi orðum sínum til og vildi fá ákveðnar skýringar á afstöðu hv. þm., er ekki hér. Ég tel það vera afskaplega miður. Ég tel mikilvægt að hennar afstaða til þessara frv. komi fram í umræðunni og jafnframt þau rök sem sú afstaða byggir á vegna þess að enginn allra þeirra 63 hv. þm. sem hér hafa fastan dvalarstað á kristilegum tíma a.m.k. lofaði jafnmiklu gagnvart þeim hluta flotans sem hér er til umræðu og einmitt hún. En ég ætla þó ekki að fjölyrða um fjarveru, herra forseti.
    Ég vil hins vegar segja það að ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem skyggnu mannviti stýrir störfum sjútvn. Hann var í sinni ræðu áðan að reyna aðeins að skýra niðurstöður umræðunnar og þær eru ekki mjög flóknar. Það liggur fyrir að nánast allir þeir sem hafa talað hér hafa lýst fylgi við róðrardagakerfið. Menn greinir hins vegar á um hvort það sé hægt að taka það upp af tæknilegum forsendum. Ég taldi eftir umræður í sjútvn. að það væri afskaplega hægur vandi. Ég hegg eftir því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er á sama máli. Hann hefur hins vegar sýnt þá gæsku hjartans sem fáir aðrir hv. þm. búa yfir að hann er reiðubúinn að slá af sínum ýtrustu kröfum af stakri nærfærni við viðkvæmt sálarlíf hæstv. sjútvrh. Ég virði það. Ég þurfti líka stundum að gera það einmitt af nákvæmlega sömu ástæðum vegna þess að ég veit að það þarf að hafa aðgát í nærveru sálar og sérstaklega ef hún er viðkvæm. Ég ímynda mér að sálarfar hv. þm. Sjálfstfl. sé dálítið viðkvæmt um þessar mundir.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður sjútvn., leggur til að við reynum að leggjast á eitt um að skoða þessi mál milli 2. og 3. umr., býður það fyrir hönd minni hlutans að tillögur hans í málinu verði dregnar til baka. Mér finnst að það væri skynsamlegt og í þágu þess málstaðar sem við flest virðumst bera fyrir brjósti að það verði gert. Er það ekki svo, hv. þm., að það er gerlegt að ná samstöðu um þetta mál? Mér sýnist að ekki sé svo langt á milli manna. Það er eingöngu spurningin um eftirlitið og það hefur enginn sem hér hefur talað í kvöld mælt gegn því nema einn að það sé hægt að leysa þetta vandamál með handvirku eftirliti. Ef það er ekki heldur hægt að ganga frá því fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs þá segi ég fyrir mína parta að ég er reiðubúinn að ná einhverju samkomulagi ef það yrði gert fyrir lok ársins af þeirri einföldu ástæðu að það skiptir krókaveiðiflotann ekki svo mjög miklu eins og kom fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Hann dró einfaldlega hér upp plagg þar sem búið var að merkja inn á viðbótarbanndagana og það kemur í ljós að það eru sárafáir dagar sem menn fá að sækja á eftir að líður fram yfir 1. sept. Þannig að það eru fletir á þessu máli, það verð ég að segja.
    Síðan, herra forseti, vil ég aðeins ræða það sem kemur fram í frv. og brtt. við það varðandi hinar tæknilegu forsendur fyrir því að taka upp þetta fjareftirlit. Ég vil segja það strax að ég virði skoðanir hæstv. sjútvrh. Ég túlka hans mál núna og á fyrra kjörtímabili þannig að hann vilji miklu frekar sjá þennan krókabátaflota hverfa. Ég veit að hann mun e.t.v. koma hér á eftir og mótmæla þessu en öll hans stefna virðist mér hníga að því og það á að selja framtíð róðrardagakerfisins í hendur honum. Hann er sá sem á að meta fjárhagslegar og tæknilegar forsendur. Muna hv. þm. sem eru í sjútvn. eftir því hvað a.m.k. tveir þeirra sérfræðinga sem til okkar komu, annars vegar til að skýra svokallað landstöðvakerfi og hins vegar þess sem voru sérfræðingar um Inmarsat-gervihnöttinn, bentu á? Þeir bentu á að í báðum kerfunum eru ákveðnir tæknilegir annmarkar. Þeir töluðu um að í djúpum fjörðum vörpuðu há fjöll ákveðnum skuggum sem kæmu í veg fyrir að þessi kerfi virkuðu í öllum tilvikum. Mönnum er í lófa lagið að túlka það svo um langa hríð að það séu einfaldlega ekki tæknilegar forsendur fyrir hendi fyrr en búið er að vinna bug á þessu og það gæti kostað mikla fjármuni og það gæti kostað miklu lengri tíma. Þannig að ég segi einfaldlega: Hvers vegna að vera að setja málið í þá hættu? Hvers vegna ekki að byrja það með þessu handvirka eftirliti?
    Ég ítreka það, herra forseti, að það virðist vera samstaða og skilningur á því að það er hægt.
    Hv. þm. Árni Ragnar Árnason talaði áðan eins og góðum frjálslyndum sjálfstæðismanni ber að tala. Hann var að tala um valkosti. Hann sagði að hann vildi frekar gefa krókakörlunum kost á að velja á milli. Nú er það svo að ef krókakarlarnir velja veiðar með þorskaflahámarki og viðbótarbanndögum þá er þeirra vali lokið. Þeir komast ekki til baka inn í róðrardagakerfið þegar og ef því verður komið á. Finnst honum ekki skynsamlegt í anda þess valkvæðis sem hann jafnan stendur fyrir og er mjög í stíl við þær frjálslyndu stjórnmálastefnur sem hv. þm. hefur jafnan fylgt að breyta frv. þannig að slíkir menn gætu átt þess kost að fara inn í róðrardagakerfið?
    Ef menn líta á þá tillögu sem liggur fyrir af hendi meiri hluta og hæstv. sjútvrh. um róðrardagakerfið þá verð ég líka að segja að hún er stórkostlega löskuð ef maður lítur á hana frá þeim sjónarhóli sem a.m.k. sumir hv. þm. hafa viljað sjá hið ,,ídeala`` róðrardagakerfi. Þar er gert ráð fyrir tímabilum. Einfaldlega þau og þau ein gera það að verkum að sá kostur og ávinningur af róðrardagakerfinu sem hv. þm. Einar Oddur t.d. hefur rætt talsvert um í þessum sal, þ.e. að það dragi úr slysahættu, er varpað fyrir björg með þessu vegna þess að valið er svo takmarkað.
    Annað finnst mér líka merkilegt. Þessi tillaga sem liggur fyrir er næsta óljós. Ef ég mundi spyrja hæstv. sjútvrh. um það hvernig þessum róðrardögum á að vera fyrir komið, að ég tali nú ekki um hv. þm. Árna R. Árnason sem vill leyfa mönnum að velja, ef ég spyr hann á hverju val manna á að byggjast þá mun hann ekki geta svarað því af því að hann veit ekkert um það, ekki frekar en ég eða hæstv. sjútvrh. vegna þess að það liggur ekkert á borðinu um það. Það er einfaldlega hæstv. sjútvrh. sem á að setja reglugerð.
    Ég held að það væri hægt að vísa í einhver álit frá umboðsmanni Alþingis um það að slíkar reglur beri miklu frekar að setja í lög. Þá er engum vafa undirorpið hvað það er sem menn ganga að.
    Það er líka annað, herra forseti, sem ég vildi nefna hér. Sökum þess tímaskorts sem við bjuggum við í sjútvn. þá gafst ekki tóm til þess að skoða hvernig róðrardagakerfið kæmi almennilega út miðað við alla þá viðbótarbanndaga sem það á að taka mið af. Herra herra forseti. Eins og mér sýnist það koma út þá dreg ég í efa að það sé mikill akkur fyrir menn að vera á slíku róðrardagakerfi eða jafnvel á því viðbótarbanndagakerfi sem við búum við í dag. Ég er ekki viss um að ef menn ættu val þá mundu allir velja það. Ég dreg það í efa. Ég fullyrði hins vegar að um það hefur engin efnisleg umræða farið fram, a.m.k. ekki í sjútvn., og ég hef ekki orðið var við það að meiri hlutinn í nefndinni hafi einhverjar sérstakar skoðanir á þessu einfaldlega vegna þess að honum hefur ekki frekar en okkur gefist tóm til þess að skoða útfærsluna á þessu.
    Ég veit að hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni gengur einungis gott eitt til þegar hann heldur hér innblásnar ræður um kosti róðrardagakerfisins. Í hvert skipti fellur maður kylliflatur fyrir þeim rökum sem hann hefur fram að færa. En hann hefur ekki skoðað raunveruleikann sem birtist í þeim tillögum sem hann er aðili að af mikilli nærfærni við hæstv. sjútvrh. eins og fram hefur komið. Ég er því hræddur um að honum brygði talsvert í brún ef hann sæi útfærsluna. Ég er ekki viss um það að sú niðurstaða sem hann telur sig vera búinn að fá a.m.k. vilyrði fyrir í framtíðinni sé jafnhallkvæm þeim mönnum sem hann vill gera vel og hann telur sjálfur. Hv. þm. gat þess að vísu réttilega að hann brysti hæfileikann að sjá fyrir um óorðna hluti. Ég er seldur undir sömu sök en ég þykist samt sjá að það kerfi sem blasir við á pappírunum frá meiri hlutanum í dag boðar ekki smábátamönnum á krókaleyfum góða framtíð. Ef ég má bregða mér í gervi völvunnar og spá inn í framtíðina þá held ég að viðbrögð þeirra verði þannig, herra forseti, að það boði heldur ekki glæsta framtíð fyrir hinn ágæta hv. þm. Einar Odd Kristjánsson á Vestfjörðum.