Áfengislög

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 12:03:57 (568)

[12:03]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. meiri hluta allshn. á þskj. 45 og 46, um frv. til laga um breyting á áfengislögum.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Ólaf W. Stefánsson og Högna S. Kristjánsson frá dómsmálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Snorra Olsen, ríkisskattstjóra og formann þeirrar nefndar sem samdi frumvarpið, og Jón Sigurðsson, Kristján Andrésson og Stefán Valdimarsson víneftirlitsmenn. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Verslunarráði Íslands, Kaupmannasamtökum Íslands, starfsmönnum ÁTVR, BSRB, Samtökum iðnaðarins, ÁTVR, ríkisskattstjóra, Kvenfélagasambandi Íslands og áfengisvarnaráði. Nefndin fékk einnig ítarlegar umsagnir frá meiri og minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um málið og eru þær umsagnir birtar sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Með lagafrumvarpi þessu, ásamt þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, er lagt til að einkaréttur ríkisins á innflutningi og heildsölu áfengis verði afnuminn. Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd liggur einnig frumvarp til laga um gjald af áfengi sem gerir ráð fyrir að tekjur ríkisins af áfengissölu verði framvegis í formi skatts af innflutningi og framleiðslu á áfengum drykkjum í stað þess að fá tekjurnar sem hagnað af starfsemi einkasöluaðila. Þá er í því frumvarpi, sem

hér er til umfjöllunar, gert ráð fyrir nokkrum breytingum á áfengislögunum sem ekki tengjast sérstaklega afnámi einkaréttarins. Má þar helst nefna breytingu á ákvæði um upptöku sérhæfðra eimingartækja, sem gerir ráð fyrir að hægt verði að gera slík tæki upptæk, jafnvel áður en þau hafa verið tekin til notkunar. Nauðsynlegt er að veita lögreglu aukinn rétt í þessu efni til að stemma stigu við síaukinni sölu á heimatilbúnu áfengi sem helst virðist beinast að unglingum í landinu.
    Með hliðsjón af því sem fram kemur í umsögn meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar telur nefndin ástæðu til að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skilið verði á milli annars vegar þeirra sem flytja inn áfengi og hins vegar þeirra sem leyfi hafa til að endurselja áfengi í heildsölu. Jafnframt er skýrt tekið fram að innflytjendur hafi leyfi til að selja áfengi til heildsala. Þá munu framleiðendur áfengis einnig geta selt framleiðslu sína beint til heildsala. Í frv. eins og það var lagt fram var slík heimild ekki fyrir hendi. Allir þessir aðilar munu einnig hafa heimild til að selja áfengi úr landi.
    Í öðru lagi kveða tillögurnar á um að bætt verði inn í áfengislögin ákvæði um að lögreglumenn skuli gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra sem hafa heimild til framleiðslu eða sölu áfengis og er ráðherra gert að kveða nánar á um það eftirlit í reglugerð. Með þessum hætti er reynt að tryggja að sambærilegt eftirlit verði haft með þeim nýju aðilum sem nú fá leyfi til að dreifa áfengi og hingað til hefur verið haft með veitingahúsum. Með þessu vill meiri hluti nefndarinnar einnig benda á að auknar fjárveitingar fáist til slíkra eftirlitsstarfa. Þá er skattstjórum gert skylt að láta lögreglustjórum í té skrá yfir aðila sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald af áfengi. Slík skrá hefur að geyma upplýsingar um alla aðila sem flytja áfengi til landsins og er því mikilvægt fyrir lögreglu að hafa aðgang að henni vegna eftirlits hennar bæði með vínveitingahúsum, sbr. 12. gr. laganna, og hinum nýju aðilum sem nú fá heimild til að dreifa áfengi, sbr. hina nýju 2. mgr. 15. gr. Aðgangur lögreglu að þessum skrám skiptir því sköpum fyrir framkvæmd alls eftirlits.
    Í þriðja lagi telur nefndin nauðsynlegt að setja inn í áfengislögin þau ákvæði reglugerðar sem gilt hafa um alllangt skeið um áfengisauglýsingar. Lögreglustjórar víðs vegar um landið hafa til þessa talið erfitt að hafa eftirlit með banni við áfengisauglýsingum. Þá hafa nýlega fallið bæði hæstaréttardómur og héraðsdómar sem túlka má svo að núgildandi reglugerð um áfengisauglýsingar þrengi um of framkvæmd þess áfengisauglýsingabanns sem kveðið er á um í 4. mgr. 16. gr. laganna. Meðal annars hefur verið gerð athugasemd um það í áðurnefndum dómum að lögin sjálf tilgreini ekki hvað sé áfengisauglýsing og á það bent að það skuli gert með lögum. Í þeim dómum hefur m.a. verið bent á nauðsyn þess að skilgreina í lögum hvað sé áfengisauglýsing. Meiri hluti nefndarinnar telur umrædda reglugerð þó ekki alveg nægilega skýra og leggur til að jafnframt því sem hún verði tekin inn í áfengislögin verði gerðar tvær breytingar á henni.
    Fyrri breytingin lýtur að því að skýra betur hvað er auglýsing og er breytingin gerð til þess að tryggja að almenn umfjöllun um áfengi í fjölmiðlum sé heimil, enda sé hún ekki í markaðssetningarskyni. Síðari breytingin lýtur að breytingum sem gerðar eru á orðalagi um bann við notkun vörumerkis og/eða firmamerkis og er það hér fært til þess vegar sem það var upphaflega í reglugerðinni um bann við áfengisauglýsingum, nr. 62/1989. Breytingin sem gerð var á ákvæði þessu með reglugerð nr. 317/1991 hefur síst gert framkvæmd eftirlits með áfengisauglýsingum auðveldari. Því er talið rétt að færa orðalag til eldri vegar, enda er eldra ákvæðið þá skýrara og þar með auðveldara fyrir lögregluyfirvöld að framfylgja ákvæðinu.
    Loks er lagt til að inn í 19. gr. laganna komi viðbótartilvísun til refsiákvæða þeirra. Í 1. mgr. 17. gr. laganna eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði gagnvart aðila sem finnst með áfengi sem er ekki merkt með innsigli ÁTVR. Þessi grein er felld niður í frv. í ljósi þess að ekki verður lengur skylt að merkja áfengi heldur er gert ráð fyrir því að ráðherra verði fengin reglugerðarheimild fyrir auðkenningu áfengis. Sömuleiðis eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði þungbær þeim sem þau er lögð á og æskilegt er að hafa sem fæst slík ákvæði í lögunum. Þess í stað er kjarni 1. mgr. 17. gr. færður þannig að regluna verði nú að finna í 2. mgr. 19. gr., þ.e. að refsa skuli samkvæmt áfengislögum vörsluaðila ólögmæts áfengis. Af þessu leiðir að breyting sem gerð er á 8. gr. frv. verður ónauðsynleg.
    Með þeim breytingartillögum sem hér hefur verið gerð grein fyrir er komið til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið bæði innan þings og utan. Í þessu sambandi er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á þeirri brtt. sem fram kemur frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak, þar sem fjmrh. er gert að setja með reglugerð nánari reglur um veitingu leyfis til innflutnings og heildsölu með áfengi og til framleiðslu á áfengi. Þar skal m.a. kveðið á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, gildistíma leyfis, afturköllun þess, um auðkenni á áfengi sem látið er af hendi og um eftirlit með starfsemi leyfishafa.
    Undir nefndarálitið rita eftirfarandi nefndarmenn nöfn sín: Sólveig Pétursdóttir, Hjálmar Jónsson, Árni R. Árnason, Magnús Stefánsson, Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson og Lúðvík Bergvinsson.