Áfengislög

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 12:48:59 (570)


[12:48]
     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Guðný Guðbjörnsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. 2. minni hluta allshn. sem er á þskj. 59. Nál. sýnir um leið afstöðu þingflokks Kvennalistans til þessa frv. sem hér er til umræðu.
    Í frv. er lagt til að afnuminn verði einkaréttur ríkisins á innflutningi og heildsölu áfengis. Frv. er flutt í kjölfar álits eftirlitsnefndar EFTA frá 22. febrúar 1995 í þá veru að núverandi fyrirkomulag á innflutningi og heildsölu hjá ÁTVR samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Sú niðurstaða er í ósamræmi við yfirlýsingar og álit fyrrverandi ríkisstjórnar um að ekki þurfi að breyta áfengislöggjöfinni þó að EES-samningurinn yrði samþykktur. Sú afstaða fjmrh. er formlega óbreytt og því er þetta frv. flutt í þeim tilgangi fyrst og fremst að taka upp frjálsari viðskiptahætti með dreifingu á áfengi og að einkavæða hluta af starfsemi ríkisfyrirtækisins ÁTVR þó að vissulega muni það í leiðinni taka á niðurstöðum eftirlitsstofnunar EFTA varðandi heildsölu og innflutning áfengis.
    Fjölmargir aðilar hafa látið í ljós álit sitt á frumvarpinu bæði á fundum í allshn., heilbr.- og trn. og efh.- og viðskn. svo og með skriflegum umsögnum, og er alveg ljóst að um þessar breytingar eru verulega skiptar skoðanir, svo sem vænta má í jafnviðkvæmu máli og áfengislöggjöfin er. Flest almannasamtök gegn áfengisneyslu vara við að aukin samkeppni og minna eftirlit með áfengisverslun muni leiða til aukinnar neyslu og vaxandi útgjalda í heilbrigðiskerfinu. Það vekur því athygli að SÁÁ gerir ekki athugasemdir við frv. Þingflokkur Kvennalistans lagði mikla áherslu á að frv. yrði sent Kvenfélagasambandi Íslands til umsagnar þar sem áfengisvarnir hafa sögulega verið mál sem konur hafa mikið látið til sín taka. Það vekur því sérstaka athygli að stjórn Kvenfélagasambands Íslands gerir engar athugasemdir við frv. Áfengiseftirlitsmenn og fleiri bentu á að mjög erfitt yrði að hafa eftirlit með áfengi í vínveitingahúsum þar sem fella á niður allar merkingar á áfengi til veitingahúsa, sbr. 6. gr. frv. Þá bendir áfengisvarnaráð á að í Svíþjóð er reynt að hefta aðgang að þeirri atvinnustarfsemi að flytja inn áfengi með því að hafa umsóknarkostnað upp á 30 þúsund sænskar krónur sem er óafturkræft fé jafnvel þótt umsókn sé synjað. Hér virðist ekki gert ráð fyrir að leyfin kosti neitt, en ríkið gerir þvert á móti ráð fyrir að verða af 50 millj. kr. tekjum sem væntanlega fara til einkaaðila. Þessi tala virðist varlega áætluð, ekki síst ef eftirlit með rekstri vínveitingahúsa verður erfiðara, og þar með væntanlega að virðisaukaskattur innheimtist verr, og heilbrigðisútgjöld aukast.
    Þingflokkur Kvennalistans er ánægður með 3. gr. frv. sem er nokkuð á skjön við annað efni þess. 2. minni hluti hugleiddi að flytja brtt. við 6. gr. frv. eða 17. gr. áfengislaganna þess efnis að skylda væri að dagstimpla allt áfengi sem áfengisgjald væri greitt af við tollafgreiðslu, en ekki var nægur tími til stefnu til að kanna allar hliðar þess máls.
    Það er niðurstaða 2. minni hlutans að sú bylting á innflutningi og heildsölu áfengis, sem hér er lögð til, sé alls ekki nauðsynleg til að fullnægja kröfum eftirlitsstofnunar EFTA. Þó að einhver breyting á núverandi áfengislöggjöf kunni að reynast nauðsynleg, þrátt fyrir álit fyrrverandi ríkisstjórnar, er alveg ljóst að hér er farið mun ógætilegar í sakirnar en æskilegt er miðað við viðkvæmni þessa málaflokks. Sú aðferð, sem hér er lögð til, mun ekki auka líkurnar á því að markmiði umræddra áfengislaga verði náð en þar segir í 1. gr., með leyfi forseta: ,,Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli, sem henni er samfara.`` Þá vill 2. minni hluti vekja athygli á því að í áðurnefndu áliti eftirlitsstofnunar EFTA er skýrt tekið fram að þó að fyrirliggjandi mat fjalli eingöngu um heildsölu og innflutning á áfengi sé ekki þar með sagt að skipan smásöluverslunarinnar hér á landi sé í lagi. Það mál verði athugað betur síðar. Af þessu dregur 2. minni hluti þá ályktun að skynsamlegast væri að gera mun smávægilegri breytingar á fyrirkomulagi heildverslunarinnar og að fá á hreint strax hvort nauðsynlegt muni reynast vegna EES-samningsins að breyta hér fyrirkomulagi á smásölu áfengis. Í framhaldi af því verði gerð heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Þá væri hægt að vinna málið í heild sinni á yfirvegaðan hátt í stað þess að viðhafa þá flýtimeðferð sem því miður hefur verið á þessu máli á yfirstandandi vorþingi. Annar minni hluti leggur því til að þetta mál verði endurskoðað í heild sinni og að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir álit 2. minni hluta ritar Guðný Guðbjörnsdóttir.
    Ég vil taka það fram að í 3. gr. frv. sem 2. minni hluti fagnar segir m.a., með leyfi forseta, að bannað sé að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi nema hafa til þess sérstakt leyfi.
    Um þetta frv. má hafa mjög langt mál sem ekki er þó ætlunin hér. Til stendur að gjörbreyta mjög viðkvæmri löggjöf án þess að tilefnið sé nægilega skýrt. Er verið að gera þetta fyrst og fremst vegna einkavæðingarhugsjóna fjmrh. og að færa fé frá ríkinu til einkaaðila? Er verið að þessu vegna álits eftirlitsstofnunar EFTA varðandi heildsölu og innflutning á áfengi? Ef það væri eingöngu hið síðarnefnda þyrftu ekki að koma til svo viðamiklar breytingar.
    Ég tel óskynsamlegt að bylta þessari löggjöf umfram það sem nauðsynlegt er á meðan ekki er ljóst hvort núv. smásöludreifing á áfengi í gegnum Áfengiseinkasölu ríkisins er heimil samkvæmt EES.
    Ég er einnig sannfærð um, eftir þá umræðu sem átt hefur sér stað í allshn. þingsins, að ýmislegt verður að laga varðandi framkvæmd á núverandi löggjöf. Eru nokkrar brtt. meiri hlutans við þetta frv. til bóta varðandi eftirlitsþáttinn að mínu mati. En þrátt fyrir þær brtt. eru of margir lausir endar og í of miklar breytingar ráðist í viðkvæmum málaflokki án nægilegs rökstuðnings eða tilefnis.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu um breytingu á áfengislögunum er aðeins eitt þriggja svipaðra frv. sem samtímis eru til umræðu í þinginu sem allar taka til þeirrar heildarbreytingar sem fyrirhuguð er á áfengisinnflutningi. Um hin frv. er einnig mikill ágreiningur og því er það von mín að þessum frv. verði öllum vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu og að einnig verði tekið betur á framkvæmd núgildandi laga, ekki síst hvað varðar eftirlit, smygl, brugg og forvarnir því augljóst er að víða er pottur brotinn í áfengismálum Íslendinga og vissulega þörf fyrir Alþingi að átta sig á hvaða leiðir eru bestar til að ná markmiði áfengislaganna.
    Það er sannfæring mín að þær breytingar, sem lagðar eru til í þessu frv. og hinum sem eru einnig til umræðu hér í þinginu, eru ekki til bóta miðað við núverandi áfengisstefnu. Ef breyta á áfengislöggjöfinni í þá veru sem hér er lagt til væri eðlilegra að breyta markmiðsgrein áfengislaganna og setja fram nýja áfengisstefnu um leið og ganga því hreint til verks. Það má vel vera að tímabært sé að endurskoða þessi mál í heild sinni miðað við núverandi ástand en þetta er ekki rétta leiðin.