Áfengislög

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 13:00:51 (571)


[13:00]
     Svavar Gestsson :

    Herra forseti. Satt að segja hafði ég ekki hugsað mér það þegar 1. umr. um þetta mál fór hér fram að blanda mér í umræðuna úr þessum stól en mér finnst að ýmislegt hafi gerst í málinu sem hvetji til þess að farið farið sé nokkuð rækilega yfir það. Það sem ég tel að standi þar upp úr er það að heilbrrn. skilar auðu. Það er eiginlega alveg ótrúlegt. Heilbrrn. hefur enga skoðun í þessu máli. Í þeim gögnum sem hér hefur verið dreift sé ég að í hv. allshn. og heilbrn. var eftir því gengið að heilbrrn. hefði skoðun. Heilbrrn. hafði enga skoðun. Ég satt að segja fullyrði það, hæstv. forseti, að það hafi aldrei verið gerðar jafnveigamiklar breytingar á áfengislöggjöfinni og hér eru á ferðinni án þess að heilbrrn. hefði skoðun.
    Fyrir fáeinum árum þegar við vorum að tala hér um bjórinn og hæstv. núv. landbrh. var heilbrrh. þá var heilbrrn. með skoðun. Það að vísu gekk ekki alveg þrautalaust að fá hana en hún kom. Heilbrrn. gerði grein fyrir því hvernig það vildi taka á þessum málum sem hluta af almennri forvarnastefnu sinni í heilbrigðismálum. Það var farið yfir það og niðurstaða og stefna heilbrrn. var tengd ákvörðuninni um bjórinn á sínum tíma, t.d. með þeim hætti að það var ákveðið að verja tilteknum fjármunum í auglýsingar og kynningarstarf. Það var ákveðið að miða verðlagningu á bjórnum til að byrja með við heilbrigðisforsendur og að reyna þannig eins og kostur er að draga úr neyslu á bjór með því að hafa hann ekki allt of ódýran. Núna, árið 1995, er alveg ljóst að þessi stefna heilbrrn. á sínum tíma bar árangur. Hún bar árangur. Því þó að bjórinn hafi verið innleiddur þá hefur engu að síður tekist að halda verulega í við neysluna, t.d. miðað við það sem gerist með ýmsum öðrum þjóðum. Ég tel að fyrrv. hæstv. heilbrrh. og núv. hæstv. landbrh. eigi þakkir skildar fyrir hvernig hann tók á þeim málum.
    Nú er það hins vegar þannig að þegar á að opna fyrir það að svo að segja hver sem er --- ég segi hver sem er --- geti farið að stunda innflutning á áfengi þá skilar heilbrrn. auðu. Það hefur enga skoðun á því hvernig á að taka á þeim málum sem lúta sérstaklega að forvarnastarfinu í þeim efnum. Ég hef fullan skilning á því að hinn nýi hæstv. heilbrrh. hefur margt að gera, margt að sýsla í því ráðuneyti og ég verð að segja það alveg eins og er að ég kann stundum ekki við þær kröfur sem mér heyrist að séu gerðar til hennar að því er varðar embættisverk á tiltölulega skömmum tíma og ég óska henni alls góðs í starfi en heilbrrn. verður að hafa skoðun í þessu máli. Annað gengur ekki. Annað er í raun og veru brot á starfsskyldum heilbrrn. Þess vegna spyr ég sérstaklega um það og ég vil að hæstv. heilbrrh. geri grein fyrir því hér hvernig þessi afgreiðsla tengist þeirri áherslu á auknar forvarnir sem hæstv. heilbrrh. telur eiga að vera hornsteininn í sinni heilbrigðisstefnu, og ég fagna út af fyrir sig hennar áherslum í þeim efnum. Hvernig tengist það? Þetta er í raun og veru hennar fyrsta ganga sem birtist í þessum frv.
    Samkvæmt reglum um Stjórnarráð Íslands er það heilbrrn. sem á að hafa forustu um að móta áfengisstefnuna. Árið 1982 var skipuð mjög fjölmenn nefnd um stefnumótun hins opinbera í áfengismálum. Í henni voru fulltrúar frá þeim ráðuneytum sem þarna er um að ræða, þ.e. heilbrrn., félmrn., dómsmrn., sveitarfélögum og fleiri aðilum, þetta var mjög fjölmenn nefnd, og hún vandaði sig. Starfsmaður hennar var Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri og nefndin skilaði mjög myndarlegu áliti í formi skýrslu sem var lögð fyrir þáv. hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. reyndar sérstaklega líka á árinu 1985, Steingrím Hermannsson. Ég man eftir því að fjölmiðlar höfðu þá við orð að þessi skýrsla væri til fyrirmyndar vegna þess að þarna hefðu menn reynt að taka á stefnumótun í áfengismálum út frá veruleikanum eins og hann var en ekki út frá óskhyggjunni eins og hún birtist stundum í þessum efnum. Ég man eftir því að þeir sem fjölluðu um þetta mál á Alþingi á þeim tíma töldu að hér hefði verið mjög vel að verki staðið.
    Nú verður að segja eins og er að það er aldrei talað um mál af þessu tagi í samhengi við það sem verið er að gera. Það er sett einhver nefnd eða stofnun í að framleiða stefnu í áfengismálum og að birta hana en svo þegar verið er að gera eitthvað í áfengismálum eins og hér þá er aldrei talað um stefnu. Það er dálítið skrýtið. Og það er dálítið sérkennilegt að Alþingi Íslendinga skuli ekki getað komið sér upp þeim vinnuvana að taka ákvarðanir um mál eins og t.d. áfengismál á grundvelli einhverrar stefnu og taka ákvörðun um stefnu í tengslum við það sem verið er að ákveða að öðru leyti. Þess vegna hlýt ég jafnframt að spyrja hæstv. heilbrrh. að því hvort ekki er ætlunin í heilbrrn. að taka sérstaklega á þessum málum sem lúta að stefnumótun í heilbrigðismálum og áfengismálum vegna þess að það er óhjákvæmilegt að þeir þættir séu samtvinnaðir.
    Í nefndarumsögn hv. 15. þm. Reykv., formanns heilbr.- og trn., segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt er vert að geta eftirfarandi: Fulltrúi heilbrrh. upplýsti að þrátt fyrir að sátt hefði að lokum náðst innan ríkisstjórnarinnar um breytingartillögur við upphaflega gerð frumvarpsins hefði heilbrrh. ekki tekist að koma sjónarmiðum sínum um nauðsynlegar breytingar fram að öllu leyti. Það er því ljóst að frá sjónarhóli heilbrrh. má enn gera breytingar á frumvarpinu sem tryggja betur að frumvarpið hafi ekki neikvæð áhrif á heilbrigði landsmanna.``
    Í beinu framhaldi af þessu hlýt ég einnig að spyrja hæstv. heilbrrh. að því hverjar þessar tillögur eru. Hvaða breytingar hefði hún viljað sjá á frumvörpunum sem ekki eru á þeim? Og að hún leiti þannig bandalags við Alþingi við þær breytingar á þessum frumvörpum sem nauðsynlegt er að gera. Ég vona að það sé alveg skýrt að hér erum við að fjalla um breytingar á áfengislöggjöfinni og vona að það sé alveg skýrt að þar hafa flokkarnir oft skipst og haft mismunandi sjónarmið uppi. Ég vona að það sé ekki þannig að stjórnarflokkarnir séu reyrðir fastir í einhverja sérstaka stefnu stjórnarinnar í þessu máli, að það sé til einhver sérstök áfengismálastefna núv. ríkisstjórnar eða stjórnarflokka sem við höfum þá ekki séð. Hver er áfengisstefna ríkisstjórnarinnar? Hver er brennivínsstefna þessarar stjórnar? Það er nauðsynlegt að fá það

upp. Við eigum skilið að fá þá stefnu birta hér.
    Það er nokkuð sérkennilegt að það skuli gerast með stjórnaraðild Framsfl. sem reynt var að gera á síðasta kjörtímabili en tókst ekki. ,,Atburð sé ég anda mínum nær.`` Mér er sem ég sæi Jón Helgason staddan hér í salnum núna, hv. fyrrv. þingmann og hæstv. fyrrv. dóms- og kirkjumrh., framsóknarmann. Mér hefði þótt fróðlegt að mega nema orð hans við þær aðstæður sem nú eru uppi ef það rennur ekki blóðið í neinum manni hér í stjórnarliðinu nema hæstv. forsrh. Davíð Oddsson ákveði hvernig það rennur. Eða er kannski ekkert blóð lengur heldur bara tóbak og kaffi og brennivín eins og segir í ljóðinu eftir Jóhannes úr Kötlum. Hvað er? Blaktir hvergi á skari í þessu stjórnarliði, með leyfi að spyrja, hæstv. forseti? Er Framsókn sofnuð svefninum langa í fanginu á íhaldinu? Þurfti ekki nema þrjár til fjórar vikur? Hvar er nú gassagangurinn sem birtist hér í ræðustólnum endalaust á síðasta kjörtímabili? Í glæsilegum málflutningi þeirra sem neituðu að ganga í ,,Ódáðahrauni spillingarinnar`` svo ég vitni orðrétt í hv. þm. Guðna Ágústsson. Eru þeir allir lagðir inn á Ódáðahraun spillingarinnar þessir framsóknarforkólfar sem plötuðu út atkvæðin í síðustu kosningum og unnu kosningasigur út á málflutning gegn spillingu m.a.? En þegar þeir koma hingað setjast þeir makráðir í ráðherrastólana, búa um sig eins og heimiliskettir á púðunum hjá íhaldinu og kunna vel við sig. Og blaktir hvergi á skari. Ja, hérna, hæstv. forseti.
    Svo gerist það að hér birtast breytingartillögur frá meiri hluta allshn. Og þær eru satt að segja ákaflega merkilegar. Í fyrsta lagi er það sú tillaga að það skuli skrá sérstaklega þá sem fá leyfi til að selja áfengi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. Ég tel að þessi brtt. sé góð svo langt sem hún nær. Þar stendur, með leyfi forseta, eins og það er skýrt í umsögn heilbr.- og trn., ég hygg að það sé sami textinn sem tekinn var upp í hv. allshn.:
    ,,Hér er skerpt orðalag um þá sem framvegis munu hafa heimild til að selja áfengi innan lands. Þannig er í 2. tölul. skýrt tekið fram að um sé að ræða innflytjendur sem leyfi hafa til heildsölu með áfengi og er vísað í lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Jafnframt þykir nauðsynlegt að fram komi að þessir aðilar megi selja áfengi úr landi. Í 3. tölul. er gerður greinarmunur á framleiðendum áfengra drykkja og þeim sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu samkvæmt lögunum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Skýrt er tekið fram hverjum framleiðendur og þeir sem hafa leyfi til að endurselja megi selja og jafnframt er því bætt við að þessir aðilar geti selt áfengi úr landi. Þá er því einnig bætt við að framleiðandi áfengis hafi heimild til að selja áfengi til aðila sem hefur leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu. Í frumvarpinu eins og það var lagt fram var slík heimild ekki fyrir hendi.``
    Þegar hæstv. dómsmrh. mælti fyrir þessu frv. fyrir nokkrum dögum, þingdögum, þá kom það fram að hann taldi að þetta væri alveg fullkomið frv. og ekki mikil ástæða til að breyta því mikið og væri þess vegna hægt að gera það að lögum á einum degi svo að segja. Og hæstv. ríkisstjórn ætlaði reyndar að klára þetta þing á tíu dögum. Var það ekki? Eru menn búnir að gleyma því? Það átti að klára þetta þing á tíu dögum og rífa hér í gegn GATT-lög og sjávarútvegslög og þessi lög og síðan átti að klára þingið. Við erum í raun og veru í miðjum klíðum enn þá og hæstv. landbrh. ætlar að fara að mæla hér fyrir frv. um breytingar á framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða. Þannig að ríkisstjórnin er heppin að þingið sat þó lengur til að hjálpa henni í þessum málum.
    ( Forseti (RA) : Má ég spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af sinni ræðu?)
    Hæstv. forseti. Ég á eftir að fara yfir nokkur atriði þannig að ef það er ætlunin að taka fyrir önnur mál þá væri ég tilbúinn til að gera hlé á ræðu minni um sinn.
    ( Forseti (RA) : Það er vel þegið.)
    Takk.