Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 13:25:23 (573)


[13:25]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfáar spurningar sem vakna vegna þessa máls sem hæstv. landbrh. hefur hér flutt.
    Hæstv. ráðherra færði það sem rök fyrir því að flytja frv. að í gangi væru samningar og viðræður við bændasamtökin um breytingar á búvörusamningnum og sérstaklega þyrfti að fá fram frestun á ákvæði gagnvart heildargreiðslumarkinu til þess að koma til móts við hugsanlegar óskir um breytingar á samningnum.
    Ég velti nokkuð fyrir mér hvaða áhrif þetta hefur. Það er í fyrsta lagi varðandi 1. gr. en þar er verið að leggja til að heimilt sé að leggja á verðjöfnunargjald sem má nema allt að 10% af því sem kemur til skila við útflutning hjá hverri afurðastöð. Ég spyr um hvort fyrir liggi einhverjar áætlanir um það hvað þetta gjald þýði í fjármagni og hvaða áhrif það hefur þá á hag framleiðendanna þegar verið er að leggja á slíkt gjald. Mér finnst vanta allar tölulegar upplýsingar um það. Ráðherrann færði þau rök fyrir þessu að það þurfi að stýra afurðunum frá einstaka búvörustöð og það má vel vera. Maður veltir fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur hjá bændum og hverju verðjöfnunargjaldið gæti hugsanlega skilað.
    Eins spyr ég varðandi 3. gr. um frestun á greiðslumarki til 1. mars 1996 sem þýðir að hægt er að fresta ákvörðun um það hvert heildargreiðslumarkið yrði en samkvæmt búvörulögunum á að taka þá ákvörðun fyrir 15. september. Það eru eiginlega tvær spurningar sem ég spyr í þessu sambandi. Ef ákvörðunin hefði verið tekin eins og búvörusamningurinn gerir ráð fyrir 15. september á samkvæmt búvörusamningi að miða ákvörðun greiðslumarks við neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs, hvað má ætla miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um þessar viðmiðanir að þetta hefði breytt greiðslumarkinu? Ef greiðslumarkið yrði óbreytt 1. mars, hvaða áhrif hefur það á ríkissjóðs? Ég held að gott sé að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur ef greiðslumarkinu verður ekki breytt.
    Ég spyr ráðherrann líka að því hvort það hafi út af fyrir sig einhvern tilgang að draga þetta svo lengi eða fram til 1. mars vegna þess að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum þarf væntanlega að birtast í fjárlögum og ákvarðanir sem þessu tengjast hljóta að koma fram í fjárlagafrv. sem á að birtast í haust. Ég spyr því um það hvort það hafi nokkurn tilgang að draga þetta svo lengi eða að biðja um þessa frestun fram til 1. mars.
    Ég tek undir það sem fram hefur komið í máli ráðherra. Auðvitað vita allir að vandi sauðfjárbænda er mikill og það þarf að taka alveg sérstaklega á máli þeirra en maður veltir því fyrir sér hvort það sem hér er lagt til, sérstaklega varðandi 1. gr., sé til þess fallið að bæta stöðu sauðfjárræktarinnar.
    Ég tek fyllilega undir að það er vissulega tímabært að endurskoða búvörusamninginn, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem við eigum í vændum með innflutningi á landbúnaðarvörum ef af verður. Auðvitað þarf að gera allt sem hægt er til þess að auðvelda bændum aðlögunina og að þeir verði í stakk búnir til að taka þátt í þeirri samkeppni sem þeir mæta núna með þessum innflutningi. Það má kannski út af fyrir sig segja að það hefði mátt koma til fyrr að búa bændastéttina og landbúnaðinn undir samkeppni sem nú kemur af fullum þunga með aðild okkar að GATT-samningnum.
    En ég spyr hæstv. landbrh. í lokin, virðulegi forseti: Hverjir taka þátt í þessum viðræðum varðandi endurskoðun á búvörusamningnum og kæmi það til greina af hálfu landbrh. að stjórnarandstaðan ætti með einhverjum hætti aðgang að þeim viðræðum? Þá er ég að tala um sem beinn aðili þannig að stjórnarandstöðunni verði gert fært að fylgjast með viðræðunum áður en þeim lýkur og geti þannig haft áhrif á þá niðurstöðu sem þarna verður. Ég held að það sé mikilvægt að það náist breitt samkomulag um þetta mikilvæga mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ég hygg að sú leið að stjórnarandstaðan komi með einhverjum hætti að því máli sé til þess fallin.