Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 14:06:19 (577)


[14:06]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað þannig að þegar samningur er til sjö ára og hann felur í sér tiltekna efnislega hluti eins og t.d. stuðning í krónum eða milljónum eða hundruðum milljóna á þeim samningstíma, þá er túlkunaratriði hvort það beri að líta svo á að það sé ekki vanefnd á samningnum fyrr en það verður ljóst á síðustu mínútu samningstímans að ekki eigi að standa við þessa greiðslu. En ætli það liggi ekki nokkuð í hlutarins eðli að tortryggni vakni um að svo sé þegar samningstíminn er meira en hálfnaður og ekkert bólar á efndum á viðamiklum þáttum af þessu tagi. Er t.d. líklegt að ríkið verði svo rausnarlegt að leggja til 2 milljarða í átak í landgræðslu og skógrækt á síðasta ári samningstímans? Er það trúverðugt ef það leggur ekki eina einustu krónu fyrstu sex árin? Ætli það sé ekki þannig að þá megi fara að halda því fram með miklum rökum þegar samningstíminn er hálfnaður og ekkert bólar á efndum af þessu tagi að þar sé að stefna í stórfelldar vanefndir. Bændur sem annar viðsemjandinn eru hins vegar í þeirri vandasömu stöðu út af fyrir sig að meta hvort og þá hvenær það þjóni betur þeirra hagsmunum að leita til dómstóla eða til úrskurðar gerðardóms en að reyna að ná viðsemjanda sínum á sanngjörnum nótum til þess að standa við sitt. Út af fyrir sig er alveg hægt að skilja tregðu þeirra til þess eða hik að beita slíkum aðgerðum. En auðvitað eiga menn fyrst og fremst að leysa svona mál með viðræðum og þá samningum og samningsviðaukum ef svo ber undir.
    En varðandi til að mynda fjárveitingarnar til Byggðastofnunar er alveg ljóst að þar eru á ferðinni vanefndir. Það stefndi í stórfelldar vanefndir því samkvæmt öllum venjum mundu menn túlka það sem skuldbindingu um að leggja þeirri stofnun til fé með eðlilegum hætti á samningstímanum til þeirra verkefna sem henni var ætlað að sinna. Það liggur því alveg ljóst fyrir. Til viðbótar eru svo þeir hlutir sem ég hef nefnt um þá fjármuni sem ríkissjóður er að spara vegna breyttra forsendna og að mínu mati er alveg jafneðlilegt að samningsaðilarnir ræði um eins og hina beinu samningsbundnu þætti.