Framleiðsla og sala á búvörum

17. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 14:09:32 (579)


[14:09]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um frv. og reyndar ummæli þeirra hv. þm. sem tekið hafa til máls sem hafa lýst því yfir að við mikinn vanda sé að glíma sem nauðsynlegt sé að bregðast við og það kunni því að vera nauðsynlegt að samþykkja frv. eða a.m.k. 3. gr. þess sem fjallar um frestun á ákvörðun heildargreiðslumarks.
    Mig langar í upphafi að víkja aðeins að máli hv. 13. þm. Reykv. sem fjallaði einnig um 1. gr. og spurði um þýðingu hennar. Út af því sem hér hefur farið fram í umræðunni vil ég segja að kannski er 3. gr. í raun sú mikilvægasta. Það er sú grein sem ég legg megináherslu á að þingið samþykki ef nokkur kostur er til þess að skapa það svigrúm sem ég hef verið að gera grein fyrir og aðrir hv. þm. hafa tekið undir. En varðandi 1. gr. er hún líka til þess að bæta kjör bænda. Hún hefur ekki þau áhrif að hún þýði aukin útgjöld eða dragi úr þeim fjármunum sem bændur fá fyrir vöru sína heldur er fyrst og fremst um að ræða verðmiðlun eins og greinin kveður reyndar á um. Þó að ég hafi því miður ekki þá upphæð sem gæti verið um að ræða í heildina vegna þess að það er mjög erfitt að reikna hana út eða finna hana fyrir fram þá mætti auðvitað sjá hver hún hefði verið miðað við eitt eða tvö seinustu ár. Árið 1993 var útflutningurinn um 900 tonn og 1994 um 1.100. Síðan mætti sjá, sem ég hef því miður ekki gögn um hér, hve mikið var flutt út af þessu á ákveðnum verðum. Ég hef þó upplýsingar um að verðin sveifluðust frá um 110--120 kr. á kíló upp í 200, 300 eða jafnvel 400 kr., 416 kr., á örfáum tonnum sem flutt voru til Belgíu, reyndar því miður ekki nema 7 tonn. En t.d. voru flutt 200 tonn til Japans árið 1993 og fengust ekki nema 113 kr. fyrir kílóið og 1994 voru flutt þangað 124 tonn og fengust ekki nema 101 kr. fyrir kílóið.
    Þetta er vandinn sem við erum að tala um. Greinin raunverulega felur í sér að í fyrsta lagi þurfi ekki allar afurðastöðvar að vera útflutningsstöðvar. Það sé nóg að það séu, tvær, fjórar, fimm stöðvar þannig að hægt sé að miðla verðinu á milli þrátt fyrir það til að sú krafa komi ekki upp að hvert einasta sláturhús sé löggilt til þess að verða útflutningshús. Hins vegar það að sá sem flytur út úr sláturhúsi sínu 100 tonn til Japans fyrir 100 kr. og sá bóndi sem fær það skilagjald eigi möguleika á einhverri verðmiðlun frá þeim aðila sem flytur út fyrir 400 kr. vegna þess að annars er mjög mikill mismunur á því hvað hver og einn bóndi fær fyrir kjöt sitt.
    Þetta er hugsunin í greininni. Út af fyrir sig er talað um það að ráðherra setji nánari reglur um innheimtu og ráðstöfun og þetta er hámark sem talað er um hér, 10%, það gæti verið lægri tala eftir því hvernig málin þróast. Auðvitað á ég ekki von á því að menn nái nokkurn tímann fullkominni miðlun þannig að það verði eitt verð sem gengur til allra. Auðvitað getur þetta eftir sem áður verið eitthvað misjafnt en það sé möguleiki á miðlun þarna á milli. Ég vona að þetta hafi svarað fyrstu spurningunni um 1. gr.
    Varðandi 3. gr. koma miklu viðameiri spurningar. Þar er spurt um hvaða áhrif þetta kunni að hafa á greiðslumarkið. Hvert verði endanlegt greiðslumark? Í fyrsta lagi, ef ég skildi spurninguna, af því að nú á að taka tillit til neyslu síðasta árs og að hluta til yfirstandandi árs og það er einmitt það sem við erum að biðja um, að fá ofurlítið meira svigrúm til þess að ákveða hvernig á að taka þessa ákvörðun og hvernig hún eigi að hljóða. Á endilega að halda sig við þetta óbreytta kerfi? Ef við fáum frestun, þ.e. að þurfa ekki að taka þessa ákvörðun núna --- ég svara kannski að hluta til spurningum hv. 4. þm. Norðurl. e. líka --- ef við fáum frestun og þurfum ekki endilega að taka þessa ákvörðun fyrir 15. september þá gætum við hugsanlega verið að fara inn í eitthvert annað kerfi sem miðar ekki við það sem nú ríkir. Um það er of snemmt að segja vegna þess að við erum að hefja þessar viðræður um breytt form. Ég segi hugsanlega breytt form, e.t.v. óbreytt ef menn ná ekki samkomulagi um neitt þá hafa menn þó þennan samning og gætu staðið frammi fyrir því að ákveða greiðslumarkið þó síðar yrði með sömu aðferð og gildir í dag. En við erum að biðja um svigrúm og þá líka að geta teygt það fram á næsta þing.
    Ég vil þá líka grípa hér inn í og svara --- ég held að tveir hv. þm. hafi spurt: Þarf þetta að vera svona langur frestur, fram til 1. mars? Ég tel í rauninni að það sé ekki nauðsynlegt. Þetta gæti þess vegna verið um eða upp úr áramótum þegar fjárlagaforsendur liggja fyrir, þegar tími hefur unnist til þess að koma breytingum á búvörulögunum í gegn á haustþingi ef þörf verður á eins og hv. þm. hafa bent á. En 1. mars er kannski fundinn þannig að það eru auðvitað eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti á ákveðnir vendipunktar í framleiðslu sauðfjárræktarinnar. Það er sláturtíðin, það er t.d. áburðargjöfin, það er að sjálfsögðu heyskapur og nokkrir slíkir þættir sem ráða úrslitum og 1. mars er ákveðinn að hluta til fyrir það að þá eru menn e.t.v. að taka ákvarðanir um áburðargjöf, áburðarkaup, svo það var sá tími sem fundinn var en hann getur alveg eins verið 1. janúar eða 1. febrúar. Það er ekki aðalmálið. Þessi athugun hefði þurft að vera komin lengra, en svo er ekki og frammi fyrir þeim vanda stöndum við.
    Hv. 13. þm. Reykv. spurði einnig um áhrif á ríkissjóð. Eins og frv. lítur út eru í raun engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs fólgin í því. Ekki með svona ákvörðun einni sér og breytir engu um það að gefa þennan frest, gefa þetta svigrúm til nýrra samninga en nýir samningar geta síðan haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs til eða frá. Um það get ég ekki sagt og ætla ekki að segja á þessu stigi annað en að ég minni á að það er fyrirheit ríkisstjórnarinnar eins og reyndar fyrri ríkisstjórna að reyna að draga úr ríkisútgjöldum og reyna að ná hallalausum fjárlögum þannig að glíman verður vafalaust erfið.
    Að lokum spurði hv. þm. hverjir væru þátttakendur í endurskoðuninni. Á þessu stigi er það fyrst og fremst samninganefnd sem bændasamtökin hafa tilnefnt og fulltrúar þriggja ráðuneyta. Það eru ekki fulltrúar hinna pólitísku flokka, þ.e. ekki einu sinni stjórnarflokkanna, hvað þá stjórnarandstöðunnar, en ég get vel hugsað mér að taka til vinsamlegrar athugunar hugmyndir hv. þm. um að fulltrúar stjórnmálaflokkanna fái að fylgjast með þessu, hvernig þeirri vinnu vindur fram þegar meira er hægt um það að segja.
    Þá vil ég aðeins koma að spurningum hv. 14. þm. Reykv. sem spurði: Hvernig standa málin, hvað er í gangi? Við erum búin að halda þrjá fundi, held ég, það er því miður ekki meira en það þannig að þetta gengur auðvitað of hægt miðað við hvað tíminn flýgur áfram og nauðsynlegt er að taka nú þegar á málum sem varða haustið. Það þarf að liggja fyrir sem allra, allra fyrst en síðan er líka verið að reyna að móta stefnuna til lengri tíma. Auðvitað eru stjórnvöld ofurlítið treg að segja við skulum gera þetta eða við skulum gera hitt í bráðavanda haustsins ef í því felst ekki einhver stefnumótun til lengri tíma þannig að menn

standi ekki frammi fyrir því haust eftir haust að þurfa að leysa bráðavandann. Auðvitað þarf að líta lengra.
    Orsakir breytinganna og samdráttarins væri hægt að ræða líka í löngu máli en tímans vegna er það varla hægt en eins og hv. 14. þm. Reykv. benti á er þessi flati niðurskurður, sem gripið hefur verið til, ein ástæðan . Ég vil skoða aðrar leiðir í því, ég vil skoða möguleikann á því að beitt sé svæðisbundnum aðgerðum. Byggðastofnun hefur komið að þessu máli og er að vinna með samninganefndinni að hugmyndum sem lúta t.d. að því. Meginástæðan er þó kannski neyslubreytingarnar og það er ekki bara neyslubreyting á sauðfjárafurðum, það er líka samdráttur í heildarkjötneyslunni. Samdrátturinn er í neyslu allra kjöttegunda ef við lítum á það sem heild, að vísu misjafnt aðeins innbyrðis þó að kindakjötið hafi því miður dregist mest saman. Ég held nærri því að það sé að verða að einhverri grýlu sem hefur verið byggð upp í samfélaginu og í umræðunni vegna þess að ef við förum út í verslun sjáum við að það er oft hægt að gera góð kaup í kindakjötinu ekki síður en öðrum kjöttegundum og ég hygg að það sé ekki alltaf dýrasta kjötið. Það er eitthvað annað sem ræður neyslubreytingunni.
    Hvað er til ráða? Auðvitað er atvinnuástandið í þjóðfélaginu það sem þarf fyrst að takast á við, þ.e. menn eigi kost á atvinnu og geti breytt til. Það sem hefur valdið erfiðleikum að undanförnu er að menn hafa ekki átt kost á því að fara í aðrar atvinnugreinar. En ég hygg að það sem snýr beint að landbúnaðinum, ef menn eru að tala um innan landbúnaðargeirans sérstaklega, þá þurfi í viðbót við það sem hefur þó verið að þróast í ferðaþjónustunni og hefur verið mikilvæg aðstoð. Það leysir þó ekki allan vanda. Ekki geta allir bændur farið í ferðaþjónustuna. Enda þótt menn hafi talað um fiskeldi sem eitthvað algjörlega óalandi og óferjandi ættu allir Íslendingar að vita það eins og aðrar þjóðir að fiskeldi á framtíð fyrir sér og er mikilvægur atvinnuvegur nú þegar víða um lönd og hlýtur að verða það hér einnig þó það þurfi sinn tíma til þess að rétta úr kútnum aftur. En það sem snýr þó kannski beint að landbúnaðinum er gróðurverndarmálin, landvarslan, hvers konar landgæsla og skógrækt eins og berlega kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Varðandi ræðu hans vil ég kannski fyrst segja að ég hef ekki áhuga á því að brjóta lög eða svíkja samninga en það getur verið erfitt fyrir mig að standa við alla samninga sem aðrir hafa brotið. Þar er erfitt að eiga nú á skömmum tíma að rétta kúrsinn, ef það má nota það slæma orðalag, og bregðast við þeim vanefndum sem kunna að hafa verið en ég ætla ekki að tíunda hér á þessu stigi. Ég hef ekki farið yfir það eða skoðað það sérstaklega en það verður vafalaust eitt af því sem þarf að skoða í þessum samningum við bændastéttina.
    Ég vil árétta það með hv. þm. að líklega er engin starfsemi eða enginn þáttur í ríkisútgjöldum sem hefur dregist meira saman á undanförnum árum en stuðningurinn við landbúnaðinn og það eru fyrst og fremst útflutningsbæturnar og svo samdrátturinn í neyslunni sem hefur valdið því. Þess vegna er alveg óhætt að segja að landbúnaðurinn er a.m.k. búinn að leggja mikið af mörkum hvort sem það er komið að því að menn geti sagt að hann hafi lagt sitt af mörkum og eigi ekki að leggja meira af mörkum en hann hefur að minnsta kosti lagt mikið af mörkum og yfir það verður ekki strikað.
    Hv. þm. nefndi síðan nokkur atriði sem hann og flokkur hans hefði lagt til og sumt af því er þegar í athugun, við erum að hefja þessa stefnumótun. Ég er sammála honum um það að hún hefði þurft að vera farin í gang fyrr og þarf að gefa sem fyrst einhverja lýsingu á því hvert stefnir, hvernig menn sjá þennan landbúnað fyrir sér á næstu árum. Því miður er mikil óvissa fram undan m.a. vegna GATT-samninganna, sem við erum nú að ganga frá, og ýmislegt fleira sem inn í það spilar sem erfitt er að sjá fyrir. Við verðum að reyna að gera okkar besta til þess að móta stefnu sem menn geta búið við og þessi samkeppnisskilyrði og samkeppnisstaða greinarinnar kemur auðvitað þar sterklega til athugunar.
    Ég legg aftur áherslu á það sem ég nefndi áðan og kom fram í máli hv. þm. að stuðningur við landgræðslu og skógrækt er auðvitað líka stuðningur við landbúnaðinn í heild og því betur er það svo að þær stofnanir landbúnaðarins hafa á undanförnum árum gert samninga og átt gott samstarf við bændur og ég vona að framhald verði á slíku samstarfi báðum til gagns.
    Einhver hv. þm. spurði hvert stefndi í líklegu greiðslumarki á næsta ári að öllu óbreyttu --- það hefur líklega verið hv. 13. þm. Reykv. Því miður er útlit fyrir að það gæti farið niður fyrir 7.000 tonn. Það er sjálfsagt gott ef það verður eitthvað yfir því en það er a.m.k. eins og við sjáum komið langt frá þeim 8.150 tonnum sem samningurinn gekk út frá í upphafi.