Þróunarsjóður sjávarútvegsins

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 15:55:45 (584)


[15:55]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt að lög um Þróunarsjóðinn voru samþykkt á síðasta kjörtímabili og það er alkunna að það var mikið kappsmál Alþfl. að fá þau samþykkt. Efnisákvæðin eru flest hver tekin úr gömlum lögum frá þeirri ríkisstjórn sem sat þar áður, (Gripið fram í.) ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem hv. 4. þm. Norðurl. átti einnig sæti í. Ákvæðin um úreldingu eru sniðin þaðan. En varðandi spurningu hv. þm. þá leiðir það af sjálfu sér að það fer eftir lögunum um Þróunarsjóðinn að aflaheimildir skulu sameinast aflaheimildum á öðrum skipum, en það gildir ekki það sama um þorskaflahámarkið samkvæmt frv. sem nú liggur fyrir vegna þess að þar er ekki um að ræða framseljanlegan kvóta.