Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 16:26:59 (593)


[16:26]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Ég geri grein fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. í tengslum við þetta mál og er nál. á þskj. 50 og hefur verið dreift.
    Málið er býsna umfangsmikið og tekur á mörgum þáttum. Það álit sem ég legg fram gengur út á að frv. verði fellt vegna þess að fjölmarga þætti vantaði sem þurfa að koma til skoðunar þegar verið er að afgreiða þetta mál. Málið fjallar um breytingu á fyrirkomulagi innflutnings á áfengi og í tengslum við það er jafnframt 4. dagskrármálið.
    Þess er sérstaklega að geta varðandi þetta mál að fjölmargir aðilar, sem hafa unnið að áfengismálum, hafa komið á fund hv. efh.- og viðskn. og tjáð okkur áhyggjur sínar af þessu frv. og telja að það geti stuðlað að aukinni áfengisneyslu og auknum kostnaði við eftirlit. Ýmsir aðilar hafa jafnframt bent á að leynivínsala, brugg og smygl geti aukist í kjölfar samþykktar frv. Sömuleiðis kom mjög skýrt fram hjá öllum þessum aðilum, sem komu á fund nefndarinnar, að það þyrfti að efla forvarnir í áfengismálum til mikilla muna. Þau mál voru skoðuð af hálfu nefndarinnar og tekinn saman í heilbr.- og trn. listi yfir það fé sem af opinberri hálfu er varið til forvarna Samkvæmt þeim lista er hægt að meta að varið sé um það bil 20 millj. til áfengisvarna og bindindismála, einkum í formi styrkja fyrir utan starfsemi áfengisvarnaráðs. Þetta er ekki mikið fé miðað við það umfang sem áfengisviðskipti hafa í þjóðfélagi okkar og miðað við þær tekjur sem ríkisvaldið hefur af sölu áfengis.
    Það er augljóst, þó svo að gert sé ráð fyrir í tengslum við þetta frv. að áfengisgjald muni nema um 4,3 milljörðum kr. sem tekjur í ríkissjóð, að útgjöld ríkisins vegna sölu áfengis eru mjög veruleg og endurspeglast m.a. í auknum heilbrigðiskostnaði, ýmiss konar kostnaði í tengslum við bæði slys og sjúkdóma og í eftirmeðferð í tengslum við áfengissjúkdóma. Samkvæmt því yfirliti, sem dreift var í nefndinni frá heilbr.- og trmrn., má draga þá ályktun að um það bil 470 millj. sé varið til reksturs áfengisstofnana hér á landi. Hér er vitaskuld ekki um nákvæma útreikninga að ræða en þetta gefur vissa vísbendingu um umfang efnisins.
    Ég lagði í starfi nefndarinnar mjög mikla áherslu á að í tengslum við frv. yrði gert átak í því að efla forvarnir í áfengismálum og vísa þar til bæði þess nefndarálits sem ég er að gera að umtalsefni, svo og til ýmissa ummæla sem komu fram í nefndinni svo og til álita sem hv. efh.- og viðskn. bárust frá heilbr.- og trn. Ýmislegt í þessu frv. er álitamál eins og það sem snýr að skuldbindingum okkar gagnvart EES-samningunum en það mál hlaut umfjöllun í eftirlitsstofnun og var ritað bréf til Íslands þar sem þeirri skoðun var komið á framfæri að núverandi fyrirkomulag bryti í bága við EES-samningana.
    Nú er það svo að íslensk stjórnvöld hafa ætíð talið að núverandi skipulag áfengismála rúmist innan EES-samningsins og ekki er vitað á þessari stundu ef þessi frv. verða ekki að lögum hvort málið fari yfirleitt til meðferðar fyrir dómstólnum sem kveður upp endanlegan dóm í málinu. Réttarstaða okkar virðist því vera traust en benda má á að dómur hefur gengið í sambærilegu máli gagnvart finnsku áfengiseinkasölunni. Það fyrirkomulag sem þar er viðhaft er svipað því fyrirkomulagi sem hér ríkir og féll sá dómur finnsku einkasölunni í óhag. Sá dómur styður því það sjónarmið að það gæti verið tryggara að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi í sölu áfengis til að koma í veg fyrir hugsanlega málssókn á hendur okkur fyrir EFTA-dómstólnum.
    Hins vegar hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því að þetta breytta fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frv. leiði til lægri kostnaðar og aukinnar hagkvæmni. Hér endurspeglast einkavæðing ríkisstjórnarinnar á innflutningi áfengis og ekki er að undra þó að fjölmargir aðilar sem tengjast innflutningi og verslun með áfengi sé umhugað um að þessi lagasetning nái fram að ganga. Hins vegar er líka athyglisvert varðandi málið sú tillaga meiri hlutans sem gerð var á síðustu stundu, þ.e. að setja stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslunina, tillaga sem kom forstjóra Áfengisverslunarinnar í opna skjöldu. Það hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því breytta fyrirkomulagi þótt svo benda megi á fjölmörg dæmi um ríkisstofnanir að þær hafi yfir sér sérstaka stjórn. Frv. var afgreitt frá efh.- og viðskn. og hafði ekki verið tekið tillit til sjónarmiðs míns varðandi auknar forvarnir og legg ég til í nefndaráliti 1. minni hluta að frv. verði fellt. Nú hefur hins vegar komið fram í máli hv. frsm. nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, að breyting sé ráðgerð á frv. milli 2. og 3. umr. sem gerir það að verkum að það verði varið verulega meiru fé til forvarna eða tvöfaldað það fjármagn sem nú er varið til forvarna hér á landi í áfengismálum. Ég tel mjög ánægjulegt að það skuli hafa vaknað góður skilningur á mikilvægi þessa máls sem endurspeglast í þeim tillöguflutningi sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson boðaði hér áðan. Ég tel að með þeirri aðferð og þeirri áherslu sem kemur fram við afgreiðslu málsins, þ.e. með tvöföldun fjármagns til forvarna um áfengismál að ástæða sé til þess að endurmeta afstöðu til frv. á þann hátt að miðað við að sú tillaga nái fram að ganga í því formi sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lýsti áðan og þar sem komið er til móts við það sjónarmið og óskir mínar sem fulltrúa í efh.- og viðskn. sé ekki ástæða til þess fyrir mig að leggjast gegn þessum frumvörpum á þann hátt að greiða atkvæði gegn þeim. Við þær aðstæður, ef sú viðbótartillaga um aukið fé til forvarna og sú breytta áhersla ríkisstjórnarinnar kæmi fram í tengslum við þetta mál, kýs ég að líta svo á að hér hafi verið komið verulega til móts við þau sjónarmið sem hafa endurspeglast í umræðunni og koma líka fram í þeim álitum og umsögnum sem bárust frv. og einnig í anda þeirrar umræðu sem átti sér stað í heilbrn. sem sést best í þeirri álitsgerð sem tveir hv. þm. skiluðu efh.- og viðskn., þ.e. hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur og hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Þar sem komið er það vel til móts við þau sjónarmið og þær áhyggjur okkar þingmanna, sem við lýstum ef frv. yrði lögfest í óbreyttri mynd, mun ég kjósa við þá afgreiðslu málsins að sitja hjá. Ég vænti þess að málið hafi fengið farsælan enda hvað viðvíkur þessum mikilvæga þætti áfengismála þótt vitaskuld séu fjölmörg önnur álitamál sem koma fram við lögfestingu þessara atriða.