Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 17:52:37 (599)

[17:52]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að sá sem hér stendur þori að blanda sér í umræður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Ólafs Ragnars Grímssonar sem báðir eru í forustu í ákveðnum stjórnmálaflokki hér. Ég er satt að segja feginn að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill hvorki banna bjór né litasjónvarp. Og ég verð líka að taka það fram að ég er afskaplega stoltur af minni framgöngu í þessu máli, bæði utan þings og innan. Ég tel að það hafi orðið mér til mikils framdráttar meðal minna kjósenda sem hafi kunnað að meta það við mig. ( ÖJ: Hjá vinnuveitendum?) Ég vil vekja athygli hv. þm. Ögmundar Jónassonar á því að ég er þingmaður fyrir Norðurl. v. og þeir eru vinnuveitendur mínir hér á Alþingi en síðan nýt ég líka mikils trausts meðal ágætra samtaka í viðskiptalífinu og ég er jafnstoltur af því að sjálfsögðu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson er af að njóta trausts félagsmanna í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    En, virðulegur forseti, ég ætlaði ekki að standa í orðræðum við hv. þm. Ögmund Jónasson. Ég er að svara Steingrími J. Sigfússyni. Ég undrast mjög viðhorf sem kemur fram hjá hv. þm. í garð þeirra sem stunda atvinnurekstur á Íslandi. Ef menn eru sjálfstæðir atvinnurekendur, hvort sem það er í verslun eða viðskiptum, er verið að gera það tortryggilegt. Það er gert tortryggilegt að heiðarlegt fólk vilji stunda viðskipti með áfengi en kannski finnst mér þó einna skrýtnast að hv. þm. virðist ekki hafa tekið eftir því að það eru fjölmargir í þjóðfélaginu sem hafa haft hag af framleiðslu, sölu og dreifingu á áfengi. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja það að sú tillaga sem var gerð um breytingu á stjórn Áfengis- og tóbaksverslunarinnar var að frumkvæði meiri hluta efh.- og viðskn. sem hæstv. fjmrh. féllst á og hefur hjálpað okkur við að gera tillögur um en frumkvæðið kom frá efh.- og viðskn. eða umræðan þar.