Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:16:56 (609)


[18:16]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Ég geri grein fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn., áliti sem er undirritað af mér sem fulltrúa þingflokks Þjóðvaka í nefndinni.
    Þetta mál sem hér er til umræðu er hluti af fyrra dagskrármáli. Þau eiga saman, 3. og 4. þingmál. Hér er fjallað um gjald af áfengi, hvernig það skuli innheimt í tolli í kjölfar breytinga sem verða á fyrirkomulagi innflutningsverslunar. Í nefndarálitinu er lagt til að frv. verði fellt og það er vikið að nefndaráliti um 3. mál þingsins sem ég flutti áðan, en eins og ég gat um þar þá er mjög mikilvægur þáttur í tengslum við áfengismálin að huga að forvörnum og efla þau.
    Ég lagði fram í efh.- og viðskn. ítrekaðar óskir um að tekið yrði á þeim málum með sjóðsmyndun og veitt yrði aukið fé til þessara mikilvægu starfa og studdist þar m.a. við ábendingar sem höfðu komið frá ýmsum félagasamtökum sem vinna að þessum málum. Niðurstaða málsins er sú að meiri hluti nefndarinnar kýs að flytja brtt. við frv. sem kemur til móts við þessi sjónarmið en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði grein fyrir því máli hér áðan.
    Þannig er í þessari brtt. á þskj. 67, sem hefur verið dreift í þingslum, gert ráð fyrir að innheimta 1% gjald af áfengisgjaldi og það skal renna í forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að áfengisvörnum. Styrki skal veita úr sjóðnum til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli. Heilbrrh. skipar fjögurra manna sjóðstjórn en í hana tilnefna fjmrh., menntmrh. og dómsmrh. einn stjórnarmann hver en þann fjórða skipar heilbrrh. án tilefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Heilbrrh. setur nánari reglur um sjóðinn með reglugerð.
    Þetta 1% gjald gæti numið 45--50 millj. Með þessari sjóðsstofnun eru tvöfölduð framlög hins opinbera til áfengisvarna hér á landi og mun koma hinum fjölmörgu félagasamtökum sem náð hafa verulegum árangri á þessu sviði mjög til góða.
    Hér hefur verið komið til móts við þau sjónarmið og óskir sem ég lagði fram í nefndinni og endurspeglast í nefndarstarfinu og í áherslum annarra nefndarmanna, bæði í efh.- og viðskn. og í heilbr.- og trn. Þó svo að málið sé viðameira og snerti mun fleiri mál þá tel ég vera ástæðu til þess þar sem hér hefur verið gerð veigamikil breyting sem horfir mjög til bóta varðandi áfengismál hér á landi að leggjast ekki gegn afgreiðslu málsins og mun því sitja hjá við afgreiðslu frv.