Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:20:38 (610)


[18:20]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru hv. 4. þm. Norðurl. e. þá mæli ég hér fyrir nefndaráliti um frv. til laga um gjald af áfengi og er álitið á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og jafnframt um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi tóbak og lyf, sem lagt var fram samhliða þessu frv. Annar minni hluti leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Að öðrum kosti verði það fellt. Um rök fyrir því vísast til nefndarálits undirritaðs (þskj. 63) um 3. mál.
    Alþingi, 8. júní 1995. Steingrímur J. Sigfússon.``
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir nefndaráliti sínu fyrr í dag þannig að það er í sjálfu sér ástæðulaust að endurtaka það sem þar kom fram í greinargóðu yfirliti um stöðu þessara stóru mála sem hér eru uppi og það hefur komið í hlut hans og fleiri hv. þm. úr okkar þingflokki að fara nokkuð rækilega yfir þau mál.
    Nú vill hins vegar svo sérkennilega til að þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi þessi mál fyrr í dag var hæstv. fjmrh. í burtu og hæstv. heilbrrh. var að vísu ekki langt undan. Nú ber hins vegar svo vel í veiði að við höfum tvö sýnishorn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar í salnum og ber að fagna því, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrar skuli láta svo lítið við okkur óbreytta þingmenn að hlýða á mál okkar og svara kannski

einni og einni spurningu frá okkur ef okkur skyldi detta í hug að bera forvitni okkar á borð í þessum virðulega ræðustól.
    Það sem ég innti hæstv. fyrrv. heilbrrh. eftir í dag og mér finnst eiga heima í þessu máli út af fyrir sig alveg eins og öðru er þetta: Hver er afstaða heilbrrn. til þess að losa um sölureglur á áfengi eins og gert er ráð fyrir í þessum frumvörpum? Hvaða skoðun hefur heilbrrn. á því? Það er tilefni til að spyrja þessarar spurningar vegna þess að heilbrrn. neitaði að svara henni þegar málið var til meðferðar í nefndum og það er reyndar alveg nýtt í sögunni að heilbrrn. skili auðu þegar kemur að úrslitabreytingum á áfengislöggjöfinni eins og þeim sem hér eru á ferðinni. En heilbrrn. er, eins og kunnugt er, skylt að veita álit á málum af þessu tagi og hafa forustu um áfengisvarnastefnu enda heyrir áfengisvarnaráð undir heilbrrn.
    Ég vil sem sagt endurtaka þær spurningar sem ég flutti fyrr í dag undir öðru dagskrármáli við hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hver er stefna heilbrrn. í þessu máli? Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu í dag, þó að henni ljúki ekki að fullu í dag, þá er ekki hægt að ljúka henni í dag öðruvísi en fá um það upplýsingar hver sé skoðun hæstv. heilbrrh. á þessum málum. Það er nauðsynlegt að fá það fram, ekki síst vegna þess að vissar breytingar voru gerðar á því máli sem við ræddum fyrr í dag, þ.e. allsherjarnefndarmálinu, sem komu inn á þetta mál líka, sem ég hugsa að hæstv. heilbrrh. telji kannski einhvers virði. Ég veit það þó ekki en þar er gert ráð fyrir því að það þurfi sérstök skilyrði að uppfylla til þess að menn fái leyfi til þess að stunda þessa starfsemi, verslun með vín, sem hér er um að ræða án þess að það komi neitt fram hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Í öðru lagi kemur fyrir það ótrúlega orð í brtt. frá hv. allshn. --- ég sá það í dag sem ég hef aldrei séð áður í lagatextum að lögreglan, sem er yfirleitt árvökul og passar sitt starf mjög vel, á að hafa ,,sérstakar gætur`` --- ég endurtek ,,sérstakar gætur`` á þeim sem flytja inn áfengi og fá það verslunarfrelsi sem verið er að tala um hér og hv. 5. þm. Norðurl. v., leiðtogi verslunarfrelsisins í landinu eða jafnvel í heiminum, er að leggja til. Þannig að það eru sérstakar gætur. Væri fróðlegt að vita hvað þessar sérstöku gætur eru sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til í þessum efnum.
    Það tilheyrir út af fyrir sig ekki þessu dagskrármáli heldur kannski frekar það að hér er verið að fjalla um gjald af áfengi sérstaklega og þar með er um að ræða fylgifrv. með frv. til laga um verslun með áfengi, tóbak og lyf, svo að ég noti það heiti sem ætlunin er að nota á lögunum ef þessar tillögur verða samþykktar.
    Þá kemur upp spurning um það að fjmrh. á að fara að skipa stjórn fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem er náttúrlega alveg ótrúlegt að setja fram tillögur um slíka byltingu á lokastigi málsins. Það er merkilegt að hæstv. fjmrh. skuli beita sér í málinu með þeim hætti sem kemur fram í textanum vegna þess að auðvitað hlýtur þetta að vera runnið undan hans rifjum. Ég trúi ekki að hv. þm. Framsfl. hafi beitt sér í þessu máli, mér kæmi á óvart að þeir hefðu vaknað til vitundar í áfengismálum á einhverju sviði og í þetta skipti með því að gera tillögu um eina nefndina til. Hefði nú verið líkara þeim framsóknarmönnum að gera þá kröfu um það að þeir fengju a.m.k. mann í nefndina sem á að stjórna brennivíninu, ÁTVR. Nei, hæstv. fjmrh. á að skipa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stjórn og setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag hennar. Þetta er afskaplega frumlegt. Víða í lögum eru ákvæði um stjórnir stofnana eins og Húsnæðisstofnun ríkisins. Tryggingaráð hefur sérstöku stjórnarhlutverki að gegna í Tryggingastofnun ríkisins, útvarpsráð í útvarpinu o.s.frv. en hérna er allt í einu gert ráð fyrir að fjmrh. eigi að skipa ÁTVR stjórn og setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag hennar. Það stendur ekki hversu fjölmenn hún á að vera. Það stendur ekki hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla sem í henni eiga að vera og ekkert kemur fram um þessa stjórn. Auðvitað grunar mann að fyrst og fremst eigi að vera Heimdellingar í stjórninni. ( KÁ: Með vit á vínum.) Með vit á vínum. En hæstv. fjmrh. notaði Ríkisútvarpið til þess að mæra Heimdellinga í morgun og vaknaði margur landsmaðurinn upp með andfælum þegar hæstv. fjmrh. var að lofa Heimdellinga af öllum sortum mannkyns, honum datt það í hug í morgun í rauðabítið, fyrir kl. 8 held ég, og er ástæða til þess að víta hæstv. ráðherra fyrir að taka landsmenn í bólinu með þessum hætti ( Fjmrh.: Það hefur enginn bannað þingmanninum að sofa fram eftir.) og það er nákvæmlega það sem ég geri ráð fyrir að allir landsmenn taki upp héðan í frá úr því að hæstv. fjmrh. tók upp á því í morgun að rífa morgunsárið upp með þessum hætti. Ég geri ráð fyrir því að þjóðin sofi framvegis fram eftir. Að minnsta kosti opnar hún ekki fyrir Ríkisútvarpið.
    En hér ætlar sem sagt hæstv. fjmrh. að skipa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stjórn. Hún getur verið tveggja manna, þriggja manna, fjögurra manna, níu manna, 63 manna. Hversu fjölmenn á sú stjórn að vera sem hæstv. fjmrh. píndi meiri hlutann í hv. efh.- og viðskn. til að gera tillögu um? Hversu fjölmenn á hún að vera? Ætla stjórnarflokkarnir að skipta með sér stjórninni? Hvað fær Framsókn? Er það helmingur? Fifty fifty, eitt fyrir mig og eitt fyrir þig? Hvernig er þetta? Það er venjan í þessum helmingaskiptastjórnum að það er kosið í part af þessu. (Gripið fram í.) Nú, tvíhöfða nefnd. Tveir formenn Það er góð reynsla af því. Hv. formaður efh.- og viðskn. hefur góða reynslu af því. Hann gæti kannski fengið einhvern annan en Þröst Ólafsson með sér í þetta skiptið. Það er satt að segja ákaflega athyglisvert. Svo stendur hérna: ,,Fjmrh. á að skipa stjórnina`` og svo: ,,setja með reglugerð nánari ákvæði um skipulag stjórnarinnar``, hvernig hún er skipulögð.
    Hvað er skipulag stjórnar, hæstv. forseti? Það er ástæða til þess að fara dálítið yfir það? Hvað er það eiginlega, skipulag stjórnar? Það er væntanlega formaður og varaformaður, ritari, gjaldkeri eða hvað? Það væri fróðlegt að vita hvaða reglur á að nota í þeim efnum og hver ætlar að vinna að þessu verki að

koma með tillögur um skipulag þessarar stjórnar? Ætlar fjmrh. að gera þetta eigin hendi? Og af hverju er hann að troða þessu inn í lög? Er þetta yfirlýsing um vantraust á forstjóra ÁTVR, Höskuld Jónsson, eða hvað er hann að gera hér? Hvaða voðaleg stjórn er þetta allt í einu hjá hæstv. fjmrh. sem í öðru orðinu þykist vera að einkavæða og gefa allt frjálst eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson yfirleitt orðaði það. En að hinu leytinu til er hann bara að búa til fleiri silkihúfur og stjórnir. Það er afskaplega sérkennilegt. Nema það sé ætlunin kannski að hæstv. heilbrrh. eigi að tilnefna mann í stjórnina til þess að sinna áfengisvörnum. Er það ætlunin? Og væri fróðlegt að vita hvað hæstv. heilbrrh. hefur um það að segja. Er það kannski meiningin? Það er athyglisvert, góð hugmynd og ástæða til þess að skoða hana. En alla vega er þetta hrein munkalatína eins og þetta lítur hér út og ekki nokkur leið að átta sig á þessu fyrir menn sem eru jafnvel með máladeildarpróf í latínu, hvað þá heldur hina.
    Ég held þess vegna, hæstv. forseti, að það sé nauðsynlegt að fara nokkuð rækilega yfir þetta og átta sig á því til hvers þessi stjórn er skipuð, hvert hennar hlutverk er. Hvað á hún að gera? Og ég held að það sé nauðsynlegt að hefja um það dálitlar umræður vegna þess að auðvitað er ekki hægt að breyta þessu fyrirtæki í grundvallaratriðum á einum síðdegisfundi á föstudegi. Það þarf að fara nokkuð rækilega yfir málið.
    Ég reikna með því að hv. efh.- og viðskn. og meiri hluti hennar hafi talið nauðsynlegt af einhverjum sérstökum ástæðum að setja inn það ákvæði að ÁTVR skuli starfa í tveimur deildum sem séu aðgreindar rekstrarlega og fjárhagslega. Það eru vafalaust einhver rök fyrir því. Ég hugsa að það séu einhver EES-rök og svo vill til að ég mætti á fundi í efh.- og viðskn. á dögunum og heyrði þar í verðlagsstjóra, Georg Ólafssyni, og mér heyrðist að þau rök gætu verið á bak við tillögu af þessu tagi að menn vildu koma í veg fyrir það að þarna yrði um árekstra af einhverju tagi að ræða. Ég skal ekkert um það segja. Það er hugsanlegt. En mér finnst að það vanti miklu ítarlegri rökstuðning fyrir þessu heldur en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði grein fyrir í framsögu sinni fyrr í dag og hæstv. fjmrh. hefur haft svo lítið við okkur að hann hefur aldrei fjallað um þessi mál í almennilegri ræðu hér. Hann hefur stokkið upp í andsvörum af og til og hreytt, með leyfi forseta, einu og öðru út úr sér í garð annarra þingmanna. En að hann hafi í heildstæðu máli gert grein fyrir því hvað þessi yfirfrakki á ÁTVR á að þýða og hvaða hugmyndafræði er á bak við reglugerðina um skipulag stjórnarinnar og hvernig á að skipta stofnuninni, hvaða hugsun er á bak við það, það er hlutur sem hæstv. ráðherra á alveg eftir að gera þinginu grein fyrir. Ég tel útilokað annað en hæstv. fjmrh. geri Alþingi grein fyrir þessu máli í almennilegri ræðu um leið og hæstv. ráðherrar svara þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram. Með þessum orðum mínum, hæstv. forseti, hef ég mælt fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um gjald af áfengi.