Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:36:03 (612)


[18:36]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðurl. v. fyrir hlý orð um bók sem ég gaf út fyrir nokkrum dögum. Ég játa það að þar er ekki fjallað sérstaklega um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og heldur ekki um hugsanlega stjórn fyrir hana. Það kann að stafa af því að þingmaðurinn sem hér stendur hafi ekki sett sig nægilega vel inn í málin, m.a. afstöðu Verslunarráðsins til þessara mála því að það er dálítið merkilegt þegar maður fer að skoða þann ,,litteratúr``, svo ég noti þau orð sem hv. þm. notaði, sem er á bak við þessa brtt. sem hér kemur fram og hæstv. fjmrh. píndi meiri hlutann til að fylgja, hver hreyfði

fyrst þeirri hugmynd að það yrði sett stjórn yfir ÁTVR hér á Íslandi? Hver hreyfði henni fyrst núna að undanförnu, síðustu vikur? Hver var það? Verslunarráð Íslands. Í umsögn Verslunarráðs Íslands sem er dagsett 31. maí 1995 og er send hv. efh.- og viðskn. er beinlínis lagt til að það verði sett svona stjórn. Þar með er það alveg ljóst að það er bæði Verslunarráðið og Sjálfstfl. og fjmrh. hans sem sameinast í málinu að því er þetta varðar. Þess vegna vakna þessar spurningar sem ég rakti áðan um aðild Framsfl. að málinu sem er mjög sérkennilegt ef hann stendur að þessu. Alla vega er alveg ljóst, hæstv. forseti, að hér er verið að gera grundvallarbreytingar á stjórn ÁTVR frá því sem ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í upphafi. Hér er ekkert um það að ræða að sá þingmaður sem hér stendur hafi sérstakan áhuga á því að varðveita sama stjórnskipulag og gilt hefur frá alda öðli og ég skora á hv. þm. að tala ekki illa um Þjóðminjasafnið fyrir framan formann Þjóðminjaráðs, hæstv. forseta þingsins. En alla vega er augljóst mál, hæstv. forseti, að hér er um að ræða stórfellda breytingu sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur enga grein gert fyrir í þessari virðulegu stofnun.