Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:38:21 (613)


[18:38]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það getur vel verið að það sé nokkuð löng leið frá sósíalismanum yfir í sósíaldemokratí. En þannig er að sú grundvallarbreyting sem er að verða núna á fyrirkomulagi þessara mála er að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er að fara úr því að verða stofnun yfir í það að verða fyrirtæki. Og ég vil hvetja hv. þm. Svavar Gestsson sérstaklega til þess að velta því fyrir sér hvaða eðlisbreytingu það hefur á starfsemi fyrirtækisins. Það er eðlilegt að fyrirtæki séu rekin eins og fyrirtæki en ekki eins og stofnanir vegna þess að fyrirtæki sem eru rekin eins og stofnanir verða sjaldnast langlíf nema með einhverjum sérstökum atbeina eða aðgerðum. En það er eðlilegt að þegar farið er að reka Áfengis- og tóbaksverslunina eins og fyrirtæki þá starfi hún með sambærilegum hætti og flest fyrirtæki gera og ég held að það þurfi ekkert sérstaklega flóknar útskýringar eða langar fyrir hv. þm. til þess að hann skilji þetta. En grundvallaratriðið er náttúrlega að hann skilji muninn á stofnun sem er skattheimtustofnun og fyrirtæki.