Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:40:58 (615)


[18:40]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þann mikla áhuga sem menn hafa sýnt hér á áfengisvörnum. Það er góðs viti hvað margir hv. alþingismenn hafa mikinn áhuga á áfengisvörnum. Ég mun bara svara þeim spurningum sem að mér hefur verið beint og snúa að heilbrigðisþættinum. Ég hef verið beðin um skýrslu varðandi þátt heilbrigðismála um þessi þrjú frumvörp. Þau koma að sjálfsögðu fram í þeim tillögum sem hér liggja fyrir, tillögum um eftirlitsþáttinn, tillögur um eftirlit með leyfisveitingum, skráningarþáttinn og nú síðast sérstakt fjármagn til forvarna. Við erum að tala um 25--30 millj. sem sérstakt framlag til forvarna. Ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn gleðjist yfir þessu framlagi til forvarna. Og ég ætla að segja það að þó að hv. þm. Svavar Gestsson hafi flutt ræðuna fyrir nokkuð löngu síðan --- í morgun hélt hann langa og mjög ítarlega og góða ræðu og óskaði mér alls góðs í starfi og ég þakka honum fyrir það --- þá ætla ég að minna hann á það að þegar hann segir að heilbrrn. skili auðu þá er það alrangt. Það er ósatt og ósanngjarnt og þvílík ummæli eru ekki samboðin sönnum jafnaðarmanni.