Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 10:47:53 (623)


[10:47]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja með því að fagna þessari umræðu. Ég vænti þess að hér komi fram að það sé einhugur um það að vandinn sé mikill og að við verðum að hjálpast að við að leysa hann. Það er alveg rétt sem fram kom frá okkur framsóknarmönnum í kosningabaráttunni og hér hefur verið endurtekið af hv. málshefjanda að það hefur skapast neyðarástand á fjölmörgum heimilum. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á það í kosningabaráttunni að við vildum úrbætur í þessu efni og við erum ekkert af baki dottnir. Ef menn lesa stjórnarsáttmálann þá sést á honum að þar er fólk í fyrirrúmi og þar er bæði tekið á greiðsluvandanum og húsnæðismálunum. Vil ég, með leyfi forseta, lesa örstuttan kafla úr stjórnarsáttmálanum:
    ,,Að Lánstími húsnæðislána frá Húsnæðisstofnun verði breytilegur þannig að í stað 25 ára eins og nú er verði hann á bilinu 15--40 ár. Sérstök áhersla verður lögð á að hjálpa ungu fólki til þess að eignast sína fyrstu íbúð. Þeim sem greiða af eldri fasteignaveðbréfum Húsnæðisstofnunar verður gefinn kostur á lengingu lána. Stuðlað verður að því að einstaklingar, sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Stefnt verður að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið.``
    Þarna tel ég að komi fram meginlínur í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni.
    Í félmrn. er unnið að þessum málum og ég hef þegar skipað tvær nefndir sem ætlað er að koma með tillögur til úrbóta og úrræði handa fólki í verulegum greiðsluerfiðleikum. Annarri nefndinni er ætlað að koma með tillögur sem stuðla að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluvandræðum hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum, annaðhvort með samkomulagi við lánardrottna eða með aðstoð dómstólanna.
    Nefndin er undir forustu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar og hún á að semja frv. um greiðsluaðlögun. Aðrir nefndarmenn eru hv. þm. Kristján Pálsson, Elín S. Jónsdóttir í félmrn., Bragi Gunnarsson í fjmrn., frá Sambandi ísl. sveitarfélaga Garðar Jónsson og frá dómsmrn. Benedikt Bogason.
    Ég vænti þess að nefndin vinni sitt starf sem skjótast og unnt verði að koma lagafrv. fyrir þingið strax í haust, í upphafi þings. Hér er um töluvert flókið mál að ræða, m.a. réttarfarslegt, sem krefst úrlausnar.
    Verkefni hinnar nefndarinnar er að athuga hvort aðstoða megi fólk í greiðsluvanda með því að gera breytingar á lánafyrirkomulagi. Nefndinni hefur verið falið að athuga kosti þess að lánstími fasteignaveðbréfa verði breytilegur, á bilinu 15--40 ár, og að skuldarar eldri fasteignaveðbréfa sem eiga í verulegum greiðsluvandræðum eigi kost á lengingu lána.
    Formaður þessarar nefndar er hv. þm. Magnús Stefánsson og aðrir í nefndinni eru hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ingi Valur Jóhannsson frá félmrn., Steingrímur Ari Arason frá fjmrn. og Hákon Hákonarson sem á sæti í stjórn Húsnæðisstofnunar.
    Ég vænti þess að þessi nefnd komist að niðurstöðu sem allra fyrst því að hér er um mjög brýnt verkefni að ræða líka.
    Í desember sl. var sett á laggirnar samráðsnefnd um greiðsluvanda heimilanna og þátttakendur í því samstarfi eru fulltrúar frá Húsnæðisstofnun, Neytendasamtökunum, Sambandi ísl. sveitarfélaga, verkalýðshreyfingunni, Samtökum lífeyrissjóða, félmrn., Sambandi sparisjóða, frá Íslandsbanka, Búnaðarbanka og Landsbanka. Það er skemmst frá því að segja að ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta samráð sé haft og það sé líklegt til þess að leiða til góðs. Ég hef óskað eftir því að þetta samstarf haldi áfram og ég á von á áfangaskýrslu á næstunni með greinargerð og tillögum um úrbætur sem teknar verða til frekari úrvinnslu eftir því sem við á. Ég hef reyndar séð drög að þessari áfangaskýrslu og ég tel að þar séu margar hugmyndir sem séu skoðunar verðar og eðlilegt að vinna nánar úr.
    Þessi greiðsluvandi er náttúrlega mjög margþætt vandamál. Orsakir og afleiðingar eru mismunandi og eðli málsins samkvæmt er mjög mikilvægt að hafa þennan vettvang til að vinna að þessum málum. Ég mun einnig beita mér fyrir frekari viðræðum við lánastofnanir um framhald samkomulags um skuldbreytingar og lengingu lána.
    Það er umhugsunarvert að aðgerðir til að leysa greiðsluvanda heimilanna hafa verið viðvarandi í húsnæðiskerfinu frá 1985 að einu ári undanskildu. Því miður hafa þær ekki tekist allar sem skyldi, en ég tel að það sé full ástæða til að reyna að átta sig vel á orsökum vandans þannig að hægt sé að grípa til skilvirkra aðgerða og gera ráðstafanir til að fyrirbyggja vandann.
    Það er afar brýnt að grípa sem allra fyrst til úrræða handa þeim sem eru verst settir og það þarf einnig að rannsaka hvort úrræðin duga og vandamálin hafi breyst eða aðstæður. Ég tel að það geti vel komið til greina að koma upp einhvers konar bráðamóttöku á vegum félmrn. t.d. fyrir fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum og sér ekki út úr þeim. Ég verð mjög var við það í viðtölum við fólk sem kemur í ráðuneytið hve margir eru ákaflega illa settir. Það vekur athygli mína og kom mér reyndar nokkuð á óvart að það er ekki bundið við láglaunahópa. Það eru fjölmörg dæmi þess að fólk sem manni virðist vera í góðum tekjum sé komið í mjög mikinn vanda. Innan bankakerfisins í Danmörku er boðið upp á svona þjónustu og væri svona bráðamóttaka sett á stofn þá þyrfti sú vinna að fara fram í náinni samvinnu við lánastofnanir.
    Það er líka spurning hvort ekki þarf jafnframt að efla ábyrgð bankanna á þeim útlánum sem þeir veita almenningi. Mér finnst stundum að ef bankinn getur náð í veð þá sé hann fús að lána þó að fyrirsjáanlegt sé að hlutaðeigandi lántakandi ráði ekki við þær skuldbindingar sem hann er að taka á sig.
    Þess vegna held ég að ráðgjafarþátturinn sé líka mjög mikilvægur í þessu. Það þarf að aðstoða fólk við að koma böndum á fjármál sín. Það er mjög auðvelt að eignast skuldir ef svo má til orða taka. Það er stöðugt verið að bjóða fólki lán til kaupa á bílum og neysluvörum ýmiss konar og það geta verið þannig tilboð að það geti verið erfitt fyrir fólk að átta sig á þeim, hver greiðslubyrðin verður og hinn endanlegi fjármagnskostnaður. Þess vegna tel ég að ráðgjafarstarfið sé afar mikilvægt í þessu efni. Síðan þarf náttúrlega að samræma störf þeirra sem veita ráðgjöfina. Og það er nauðsynlegt að mínu mati að athuga möguleika á samstarfi lánastofnana, Húsnæðisstofnunar, Neytendasamtakanna o.s.frv., og Samtaka sveitarfélaga ekki síst, um þetta efni.
    Ég get fullvissað hv. málshefjanda um að það er fullur vilji hjá ríkisstjórninni að grípa til aðgerða. Við munum hraða því eftir því sem nokkur kostur er. Sumt af þessu er hægt að gera með reglugerðum, en sumt af þessu þarf lagabreytingar við og af skiljanlegum ástæðum hefur ekki unnist tími til þess að undirbúa frumvörp þar að lútandi. Ég hef hins vegar lagt á það megináherslu að koma málunum í gang og það er farið að vinna að þessum hlutum og ég vonast eftir því að það skili árangri áður en langt um líður og að í haust geti verið tilbúin þau frumvörp til breytinga á lögum sem nauðsynleg eru í þessu sambandi.