Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 11:45:02 (627)


[11:45]
     Pétur H. Blöndal :
    Herra forseti. Ég fagna umræðu um húsnæðismál. Hún er alltaf nytsöm og sérstaklega þegar við blasir sá vandi sem við horfum á í dag. En hver er vandinn? Samkvæmt nýbirtri skýrslu Félagsvísindastofnunar frá því í apríl 1995 hafa 20--25% íbúðareigenda lent í vandræðum með skil á lánum. Þetta segir okkur líka að 75--80% hafa ekki lent í vandræðum með skil á lánum. Það segir mér að þessi vandi er ekki mjög almennur en engu að síður er hann nógu harður fyrir þá sem lenda í honum. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar kemur enn fremur fram að þessi vandi er nokkuð óháður launum. Það er sem sagt ekki endilega lægst launaða fólkið eins og maður kynni að halda sem hefur lent í þessum vanda heldur er það líka fólk með meðalháar og jafnvel mjög háar tekjur sem lendir í vandanum.
    En hverjar eru skýringar á þessum vanda? Það er fyrst og fremst, eins og fleiri hv. þm. hafa nefnt á undan, atvinnuleysið. Atvinnuleysið er mikið böl og ég vil engan veginn líta þannig á að atvinnuleysi sé eitthvert náttúrulögmál. Það er það ekki. Atvinnuleysi er skipulagsvandamál. Og ég vil sjá atvinnuleysið hverfa eins hratt og mögulegt er. Til þess þarf að grípa til nokkurra ráðstafana.
    Það er beint samhengi á milli nýrra atvinnutækifæra og fjárfestingar í atvinnulífinu. Þegar fyrirtæki eða einstaklingar fjárfesta, hvort sem þeir byggja hús, byggja vegi eða stunda rannsóknir eða eitthvað því um líkt, þá skapast störf og við þurfum að auka fjárfestingar. Fjárfestingar í íslensku atvinnulífi eru hættulega litlar, hafa sjaldan eða aldrei verið eins litlar og núna og ég treysti á það að hv. þm. muni vinna

að því að finna leiðir til þess að auka fjárfestingu í atvinnulífinu. Og ég ætla mér það sérstaka verkefni að auka fjárfestingu í atvinnulífinu. Þá minnkar atvinnuleysið og hverfur vonandi.
    Í tengslum við atvinnuleysið er annar vandi húseigenda sem er lág laun eða lækkun launa. Við sjáum núna á Íslandi jafnvel 50 þús. kr. laun sem eru skammarlega lág. Svona laun eigum við ekki að líða. En það er ekki við atvinnureksturinn að sakast að launin eru svona lág. Fyrirtækin mörg hver geta ekki borgað hærri laun. Við þurfum að kanna í sameiningu af hverju fyrirtækin geta ekki borgað hærri laun. Af hverju skila íslensk fyrirtæki svona lélegri afkomu eins og dæmin sýna? Við þurfum að finna út úr því hvaða viðjar hafa verið lagðar á íslenskt atvinnulíf sem gerir það að verkum að það getur ekki borgað hærri laun. Ég treysti hv. þm. til að vinna með mér að því að finna lausnir á þessu.
    En það er fleira sem hefur valdið vanda húseigenda. Það eru jaðarskattarnir. Menn hafa farið þá leið til þess að bæta og jafna kjörin að vera sífellt að hækka skatta og skatttengdar bætur. Það er orðið ótrúlega mikið og nánast ekki nokkur leið að finna út úr því hvað jaðarskattarnir eru orðnir miklir. Þessu þarf að linna. Það þarf að gera fólki kleift að ráðstafa sínum eigin peningum sjálft, en vera ekki alltaf að taka af því með skattheimtu og jaðarsköttum úr öðrum vasanum til að setja í hinn. ( ÓRG: Hver hefur hækkað skattana mest á síðustu árum?) Ég ætla ekki, hv. þm., að fara út í fortíðaruppgröft eins og menn tíðka hérna. Ég kem að því á eftir. ( ÓRG: Þetta er bara skattastefna Sjálfstfl.)
    ( Forseti (StB) : Forseti biður um hljóð.)
    En það er fleira sem hefur valdið vanda húseigenda. Það er verðlækkun á húsnæði, sérstaklega stóru húsnæði sem hefur kippt því út af markaðnum, fólk losnar ekki við stóru húsin, getur þar af leiðandi ekki minnkað við sig og þar af leiðandi stoppar fasteignamarkaðurinn og þetta kemur ungu fólki í koll. Af hverju hefur fasteignaverð lækkað á stórum eignum? Það er vegna ofsköttunar. Það eru fasteignagjöldin, það er nýja skolpræsagjaldið í Reykjavík sem hefur kostað gífurlega mikið og lækkað verð á fasteignum því að menn geta ekki ( ÓRG: Hvað með skolpræsagjald Sjálfstfl. í Kópavogi og Hafnarfirði?) Og það eru eignarskattarnir. ( ÓRG: Alls staðar þar sem Sjálfstfl . . .  )
    ( Forseti (StB) : Forseti biður hv. þm. um að veita ræðumanni frið til að tala.)
    Það eru eignarskattarnir sem einnig hafa lækkað verð á stórum fasteignum og þessu þarf að linna. Það þarf að minnka skattheimtu á húsnæði. Við það hækkar verð á húsnæði og þeir sem hafa lent í mesta vandanum sem er oft og tíðum út af lækkun fasteignaverðs og það er hátekjufólkið sem hefur lent í þeim vanda að íbúðirnar hafa lækkað í verði en lánin hafa haldið sér og þess vegna fer eigið fé undir núll.
    En það er fleira sem hefur valdið lækkun á fasteignaverði og sérstaklega úti á landi. Það er nefnilega stefna Íslendinga í húsnæðismálum, verkamanna, í félagslega húsnæðiskerfinu. Félagslega íbúðarkerfið er búið að byggja fullt af verkamannabústöðum úti á landi í samkeppni við eigendur húsa á þeim stöðum. Fólkið losnar ekki lengur við íbúðirnar sínar því að allir sem búa þar geta flutt í félagslegar íbúðir sem eru miklu ódýrari, þ.e. greiðslubyrðin af þeim. Svo er auk þess skuldbinding á sveitarfélagið að kaupa félagslegu íbúðirnar til baka af fólkinu en ekki af þessum venjulega íbúðareiganda á þessum stöðum. Þessi stefna í verkamannabústaðakerfinu og húsnæðiskerfinu hefur valdið gífurlegu verðfalli úti á landi og nánast átthagafjötrum á því fólki sem þar býr.
    En það er fleira sem hefur valdið vanda húseigenda. Það er verðtryggingin og háir vextir. Verðtryggingunni var skellt á á sínum tíma af mjög brýnni þörf. Innlendur sparnaður var hruninn 1980 og Íslendingar voru farnir að taka gífurleg lán erlendis sem gat ekki nema endað með ósköpum. Til þess að vinna bug á því var tekin upp verðtrygging. Ég átti minn þátt í því og skammast mín ekkert fyrir það því að lífeyrissjóðirnir væru hryllilega illa staddir í dag ef verðtryggingin hefði ekki verið tekin upp.
    En þegar verðtryggingin var tekin upp þá þurfti um leið að fara í stórfellt átak í því að kynna fólki hver er munurinn á verðtryggðu og óverðtryggðu láni. Það var ekki gert. Ég lagði til við fjóra fjármálaráðherra, þar á meðal hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem þá var fjmrh., að fara út í átak til að kynna fólki muninn á óverðtryggðum og verðtryggðum lánum. Það var ekki gert.
    Þegar Íslendingar skiptu úr vinstri umferð yfir í hægri umferð þá var það kynnt heilmikið til að varast slys. En þegar Íslendingar skiptu úr mínus vöxtum í plús vexti þá var ekkert gert til að varast slys og núna horfum við upp á slysin í stórum stíl og það eru þau slys sem við eigum við í dag, vandi húsbyggjenda sumra hverra.
    Hærri vextir sem komu í kjölfar verðtrygginganna og reyndar fyrir svona 10--15 árum stöfuðu af eilífum halla ríkissjóðs og ég treysti því að þingheimur muni vinna að því að minnka halla ríkissjóðs, minnka útgjöldin og helst auka tekjurnar, sem er reyndar mjög erfitt því að það þýðir aftur skattlagning á þetta sama fólk sem er í vanda í dag. Það dugar ekki að auka skattana, við verðum að minnka útgjöldin. Það er ekki annað hægt. Halli ríkissjóðs hefur hækkað vextina vegna þess að ríkissjóður er í samkeppni á fjármálamarkaðnum við þetta aumingja fólk sem hefur lent í þessum vandræðum. Þess vegna treysti ég því að þingmenn muni stuðla að því að halli ríkissjóðs verði minnkaður.
    En það er fleira sem hefur valdið vanda húsnæðiseigenda. Það kemur fram í þessari könnun Félagsvísindastofnunarinnar að skuldir Íslendinga í námslánakerfinu eru gífurlegar. 12% af öllum skuldum Íslendinga eru í námslánakerfinu. Ég hafði gert mér grein fyrir að þetta væri mikið en ekki svona mikið. Þetta eru 300 þús. kr. á hverja einustu fjölskyldu í landinu, kemur fram í þessari skýrslu. Þetta er mikill vandi og það er spurning hvort við þurfum ekki að huga að því að veita betri ráðgjöf til námsmanna að taka ekki

svona há lán. Menn lifa nefnilega í 4 eða 5 ár á námslánum og svo á ævin að duga til að borga það seinna meir. Þarna þarf að veita miklu meiri ráðgjöf um hvað það þýðir að taka námslán og ég vissi að til skamms tíma var fólki ekki einu sinni heimilt að taka hálft lán eða minna lán. Það varð að taka fullt lán þó það vildi það ekki. Það var alveg ótrúlegt. Það var neytt út í neysluna, enda hafa margir sagt mér að þeir hafi sjaldan haft jafnmikil fjárráð og þegar þeir voru í námi. Þegar svo fólk kemur út í atvinnulífið og fær háu launin og fer að borga af því háu skattana þá er nefnilega ráðstöfunarféð minna en áður var.
    En það er fleira sem hefur valdið þessum vanda húseigenda. Það er hreinlega vanþekking íslenskra ungmenna og ekki bara ungmenna, Íslendinga yfirleitt á því hvað það þýðir að taka lán. Menn vita ekki hvað það þýðir að taka lán. Þeir halda að lán sé sama og lán í meiningunni heppni. En það að taka lán er ekki það sama og heppni. Þegar maður tekur lán þá er maður að ráðstafa framtíðartekjum sínum og það þarf að upplýsa Íslendinga um að það geri þeir ekki oft. Þeir hafa nefnilega ekki nema ákveðið magn af framtíðartekjum og þeir geta ekki ráðstafað þeim tekjum aftur og aftur og þarna liggur vandinn. Það þarf að upplýsa menn um það að í hvert sinn sem tekið er lán þá ráðstafa þeir framtíðartekjum. Maður sem tekur milljón kr. hærra lán í húsbréfakerfinu er að ráðstafa 70 þús. kr. tekjum í næstu 25 ár eftir skatta. Það þarf að upplýsa lántakendur miklu meira um það hvernig maður rekur heimili o.s.frv. Það þarf hreinlega að upplýsa Íslendinga um fjármál hinnar hagsýnu húsmóður.
    En það er fleira sem hefur valdið vandanum og þá er ég að tala um vanda þeirra sem ekki eiga húsnæði. Það hefur nefnilega verið tekið af kerfi sem var ekki slæmt sem er skyldusparnaður. Hann hefur verið tekinn af og sú hjálp sem ungt fólk átti í eina tíð að eiga eitthvað upp á að hlaupa þegar það fór út í fasteignakaup er horfið, skyldusparnaðurinn er horfinn. Ég held að menn ættu að hugleiða að taka það kerfi upp aftur.
    En það er líka annar vandi í húsnæðiskerfinu sem menn hafa ekki talað mikið um og það er geigvænlegur vandi og þeir sem lenda í honum skammast sín fyrir hann. Það er vandi þeirra sem hafa lánað ættingjum, börnum sínum, vinum, jafnvel einhverum óskyldum, lán eða veð í húsinu sínu. Þarna hafa menn lent í óskaplegum vanda. Í bæklingi sem Landssamband lífeyrissjóða gaf út fyrir um það bil 15 árum benti ég á þessa hættu, að menn ættu aldrei að lána veð í húsinu sínu nema vita nákvæmlega hver staða skuldarans væri og reikna ekki með því að hann borgi, reikna með því að þeir þurfi að borga sjálfir lánið. Þessar upplýsingar hafa ekki farið langt.
    Ég var í Íslandsbanka og þar stóð ég fyrir því að þar var tekinn upp umboðsmaður skuldara fyrir eitthvað þremur mánuðum. Umboðsmaður skuldara, aðili sem upplýsir alla þá sem lenda í vanda í bankanum hver vandi þeirra er, tekur saman vandann og reynir að greiða úr honum. Það eru hagsmunir bankanna jafnt sem skuldaranna að skuldarinn geti staðið við sitt og jafnvel að minnka greiðslubyrðina á skuldarana og hjálpa þeim, jafnvel fella niður vexti eða dráttarvexti eða kostnað til þess að skuldarinn geti staðið við sitt. Fólk vill nefnilega yfirleitt standa í skilum. Það er nefnilega þannig.
    Nú er spurt að sjálfsögðu: Hvar sjáum við lausnir á þessum vanda? Þá vildi ég flokka lausnirnar í tvennt, þ.e. skammtímalausnir og langtímalausnir. Í skammtímalausnum held ég að númer eitt, tvö og þrjú sé ráðgjöf. Að taka saman vanda skuldaranna og finna út hver greiðslubyrðin er, gefa skuldurunum yfirsýn. Ég hef veitt nokkrum óskyldum einstaklingum ráðgjöf, ráðgjöf í fjármálum. Fólkið kemur með hálft kg af óopnuðum umslögum sem eru öll græn og svo tekur maður þetta upp og þegar maður er búinn að leysa vandann þá kemur í ljós að hann er sáraeinfaldur. Þetta er yfirleitt ekki mikill vandi til að leysa. Þegar búið er að ráðstafa tekjunum niður á mánuði og menn eru búnir að sjá hvernig vandinn liggur er það yfirleitt þannig að menn ganga út léttir í spori þegar búið er að kortleggja vandann og þeir sjá að svona tekur maður á honum og menn ráðast á vandann þegar þeir vita hver hann er. En það að fólk sé að vasast með óopnuð umslög og kröfur frá lögfræðingum og vita ekki neitt er slæmt. En það þarf líka að grípa til annarra aðgerða eins og t.d. að fella niður greiðslur. Ég er í þeirri nefnd sem á að fjalla um þetta og mun reyna að koma því að að fella niður greiðslur í eitt eða tvö ár.
    En það þarf líka að fara út í langtímalausnir og það er nýsköpun húsnæðiskerfisins sem ég vildi gjarnan að menn hjálpuðu mér við að finna lausnir á.