Vandi húsbyggjenda og skuldastaða heimilanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:09:22 (630)


[12:09]

     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Mér hafa fundist þetta vera fróðlegar umræður og margar góðar hugmyndir hafa komið fram og ég er þakklátur fyrir það. Það hefur verið misjafn sauður í mörgu fé að vísu.
    Ég vil byrja á því að minnast á ræðu hv. 15. þm. Reykv., Össurar Skarphéðinssonar, en frásagnir hans af ferðalögum mínum erlendis eru stórlega ýktar. Ég hef verið fjóra daga erlendis síðan ég tók við starfi félmrh. Ég var við upphaf þings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf nú í vikunni og er kominn heim. Ég fer að vísu til Finnlands á morgun á stuttan fund og verð í tvo daga í burtu. Það er fundur félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra Norðurlanda. Frekari ferðir eru ekki á dagskrá á næstunni þannig að ég get verið til viðtals við hv. þm. Fráveita Alþfl., þ.e. Alþýðublaðið, lastaði mig ákaflega fyrir það að sækja ekki karlaráðstefnuna í Stokkhólmi daginn eftir að ég tók við embætti félmrh. svo að það er vandi að lifa.
    Mér fannst undarlegt að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsa því hvað allt hefði gengið einstaklega vel í skuldamálum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það var eins og þetta væri einhver framúrskarandi viðskilnaður. Það er eins og við værum að taka við einhverju sómabúi í félmrn. Ég get upplýst hv. þm. um það að það er vilji okkar framsóknarmanna að efna okkar kosningaloforð og stjórnarsáttmálinn er samkomulag stjórnarflokkanna og grundvöllur að efndum þessara loforða. Ég get líka upplýst hv. þm. um að það hefur engin rimma verið við Sjálfstfl. þannig að Framsfl. hefur ekkert getað látið undan Sjálfstfl. þó hann feginn hefði viljað vegna þess að við höfum ekki lent í neinni rimmu. Það hefur engin orrusta farið fram. ( ÓRG: Þetta var merkileg yfirlýsing. Páll er svo mikið í útlöndum. Hann má greinilega ekkert vera að þessu).
    Hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, býsnaðist yfir því í ræðustólnum að framsóknarmenn væru ekki viðstaddir þessar umræður. Ég held að hér hafi verið fleiri þingmenn Framsfl. hlutfallslega en þingmenn úr flokki hennar og jafnframt hærri prósenta framsóknarmanna viðstödd þessa umræðu en alþýðuflokksmanna. ( ÖS: Ég var ekki að kvarta undan þessu.) Og ég vil taka það fram af því að hér hefur þráfaldlega verið nefndur hv. 2. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, að hann hefur fjarvistarleyfi í dag og það var ekki von á honum til þessa fundar. En hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skilur bókstaflega allt eftir sig í rúst og skuldir heimilanna eru geigvænlegar. Og húsbréfakerfið var ekki sú lausn sem hún vildi vera láta á sínum tíma.
    Ég ætla að reyna að vanda mig í þessum málaflokki. Ég ætla að reyna að undirbúa sæmilega skynsamlega það sem gert verður, ekki þjösnast eins og hv. þm. gerði þegar hún var ráðherra. Ég nefni t.d. greiðsluerfiðleikalánin. 4 milljarðar fóru í greiðsluerfiðleikalán. 1 milljarður af því fór í afföll. Nú situr sama fólkið sem fékk greiðsluerfiðleikalánin fyrir tilstilli hv. þm. eftir í enn þá sárari neyð en það gerði með þennan extra milljarð sem fór í afföllin. Sannleikurinn er sá að húsbréfakerfið hefur reynst að vissu leyti svikamylla því að afföllin hafa farið upp úr öllu valdi stundum og þá hefur þetta orðið dýrasta lánsfé í heimi í mörgum tilfellum. Hæstv. ráðherra hefði betur hugsað sig um og reynt að ráðfæra sig við einhverja en ekki þjösnast áfram eins og hún gerði áður en hún greip til aðgerða. Það hefði verið betra fyrir fólkið í landinu og það væri betur sett núna ef hún hefði vandað sig meira og ekki verið að flýta sér svona eins og hún gerði.
    Ég hef í undirbúningi, vegna ítrekaðra fyrirspurna, að gefa út reglugerð nú í þessum mánuði um að hækka lánshlutfall upp í 70% til kaupa á fyrstu íbúð. Ég á von á því að geta undirritað reglugerð þar um á næstu dögum. Ég hef hins vegar ekki í undirbúningi að hækka lánshlutfall á stærri íbúðum. Ég vil að það komi skýrt fram.
    Það er búið að segja hér margt rétt um vaxtastigið. Auðvitað er vaxtastigið og verðtryggingin verulegur þáttur í því hvernig komið er og það er okkur ákaflega brýnt að reyna að stjórna þjóðfélaginu þannig að vextir fari lækkandi. Vextir eru of háir í dag og þeir þurfa að lækka og þeir verða að lækka, annars fer illa fyrir okkur. Þetta gerist með samræmdum aðgerðum og reyndar hugarfarsbreytingu líka. Það þarf að skoða skattkerfisbreytingar. Ég tel að það hafi verið mikið slys þegar vaxtabæturnar voru lækkaðar á sínum tíma og ég tel að það hafi verið gengið allt of langt í því efni.
    Herra forseti. Ég held að ég hafi svarað þeim beinu fyrirspurnum sem fram komu. Ég endurtek þakklæti mitt fyrir þessa umræðu. Það má segja að ég hefði getað haft frumkvæði að henni sjálfur, en ég átti ekki von á þinghaldi í mánuð. Þegar þing var kvatt saman voru menn að tala um örstutt þing og þar af leiðandi hafði ég ekki frumkvæði að þessu. En ég þakka fyrir þessa umræðu og ég treysti á góðan vilja þingmanna til þess að aðstoða mig og ríkisstjórnina við að kippa þessum málum í lag.