Atvinnuleysistryggingar

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:44:30 (638)


[12:44]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég vil láta það koma fram við þessa umræðu að ég tel að það þurfi að skoða allt atvinnuleysistryggingakerfið upp á nýtt, hugsa málið upp á nýtt og ég hef í undirbúningi vinnu í því efni. Ég verð að játa það að hún hefur tafist vegna þess að ég hef verið að bíða eftir því að Alþingi kysi sína fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég vildi gjarnan vita hvernig stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs yrði skipuð þannig að ég gæti leitað til hennar líka í því efni.
    Ég lít svo á að markmiðið sem við eigum að stefna að sé það að þeir fái bætur sem vilja vinna, sem eru að leita sér að vinnu en fá ekki. Það eigi að vera markmiðið án tillits til fortíðarinnar, þ.e. félagsaðildar og aðildar að stéttarfélögum. Ég tel að fólk sem kemur úr námi t.d. eigi að geta haft rétt og einnig tel ég varðandi bændur og aðra einyrkja að það þurfi að sjá fyrir þeirra hlut.
    Ég tel líka að það þurfi að líta á það, nú er ég ekki að segja að um misnotkun sé að ræða í íslensku atvinnuleysisbótakerfi, en ég tel að það þurfi alltaf að vera vel á verði og koma í veg fyrir það að kerfið sé misnotað. Ég tel líka mikilvægt að eiga samstarf við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hafði þá ánægju að flytja þar ræðustúf núna í morgun á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem ég einmitt kom inn á þetta efni. Ég tel að það sé mikilvægt að þar sé samstarf á milli því að það þarf að skilgreina mörkin hverjir eiga að fá atvinnuleysisbætur og hverjir eiga að fá félagslega aðstoð. Það er sveitarfélaganna að veita þessa félagslegu aðstoð og það á ekki að vera að halda fólki á atvinnuleysisbótum sem

raunverulega er í þeirri stöðu að það þurfi félagslega aðstoð.
    Ég tel líka að það verði að leggja sérstaka áherslu á starfsmenntun og endurmenntun. Það sé mjög mikilvægur þáttur. Á ferð minni til Genfar í þessari viku átti ég fund með félagsmálaráðherra Ísraels, að hennar frumkvæði, og mér fannst það mjög fróðlegt að kynnast viðhorfum félagsmálaráðherra Ísraels og þeirri reynslu sem Ísraelsmenn hafa haft af baráttunni við atvinnuleysið. Þeim hefur tekist að slá töluvert mikið á atvinnuleysi og hún þakkaði það fyrst og fremst öflugri starfsmenntun og endurmenntun sem þar var í gangi. Það er reyndar hægt að afla sér fróðleiks víðar. Danir hafa sýslað við þetta vandamál í mörg ár og ýmislegt hefur þeim dottið í hug, eins Norðmenn, Svíar og fleiri. Ég tel að það þurfi að skoða vandlega átaksverkefnin og líka það að reyna að láta vinna gagnlega hluti, ef svo mætti segja, í átaksverkefnunum. Ég er að sýsla með hugmynd um breytingar á að opna nýjan lánaflokk til endurbóta á eldra húsnæði, endurbóta sem væru innan við 1 millj. og 80 þús. eins og eru neðri mörk á lánshæfum endurbótum núna. Þetta gæti verið hugsanlega 15 ára lán eða styttri bréf sem látin yrðu út á svona endurbætur. En ég tel að það væri mjög mikilvægt að koma því í gang og koma því í gang sem fyrst til þess að skapa vinnu. Það er mjög atvinnuskapandi starfsemi að gera við húsnæði.
    Ég fagna áhuga hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á málinu og ég tel einboðið að skoða þá vinnu sem lögð hefur verið í þessar athuganir í þeirri nefnd sem ég hyggst skipa. Varðandi vinnumiðlunarfrv., hvort það verði endurflutt. Ég hef ég ekki tekið endanlega ákvörðun um það, en það er til skoðunar hvort það verður flutt óbreytt eða ekki, en mér fyndist eðlilegt að vinnumiðlunarþátturinn yrði athugaður sérstaklega.
    Að endingu þetta. Ég held að við eigum ekki að ganga að þessari endurskoðun með því hugarfari að við séum að búa okkur undir langtímaatvinnuleysi. Ég held að við megum ekki sætta okkur við það að búa við atvinnuleysi á Ísland. Ég held að við verðum að leita allra leiða til að skapa störf og að fólk hafi atvinnu, að vinnufúsar hendur geti haft verk að vinna og ég tel að við megum aldrei sætta okkur við atvinnuleysisástand.