Atvinnuleysistryggingar

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:56:05 (640)


[12:56]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil í örfáum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu sem hér liggur fyrir og hvetja til þess að hún komist til nefndar þannig að hægt verði að senda hana út til umsagnar þannig að við höfum þá í haust gögn í höndum til þess að vinna út frá þegar hæstv. félmrh., sem vonandi ætlar að taka á þessum málum, kemur með sínar tillögur.
    Það er að mínum dómi afar brýnt að fara í gegnum lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð og jafnframt að gera úttekt á orsökum þess atvinnuleysis sem því miður virðist vera orðið viðvarandi hér á landi. Það er því miður ekkert sem bendir til þess að draga muni verulega úr atvinnuleysinu. Það hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna mánuði og þó að eflaust minnki það eitthvað í sumar, þá er ég sannfærð um að sá vandi sem við erum að glíma við hér er af öðrum toga en eingöngu þeim efnahagslega samdrætti sem hér hefur átt sér stað á undanförnum 7--8 árum. Það hafa orðið miklar tæknibreytingar í sjávarútvegi, í landbúnaði, í bankakerfinu og víðar og víðar og þetta er einfaldlega að leiða til þess sama og hefur gerst í öðrum löndum að það þarf færri hendur til að vinna verkin og það hafa ekki orðið til ný störf að sama skapi. Þó að á það hafi verið bent að hér hafi vissulega orðið til ný störf á undanförnum árum, hæstv. ráðherrar núv. og fyrrv. ríkisstjórnar hafa nefnt allt að 2.000 störf á undanförnum árum eða jafnvel á ári, þá dugar það ekkert á móti því fólki sem er að missa vinnuna og á móti þeim fyrirtækjum sem hafa farið á hausinn, á móti þeirri fjölgun sem hefur orðið á vinnumarkaði og verður á næstu árum. Við vitum að það verður að skapa hér þúsundir starfa á næstu árum.
    Mín spurning til hæstv. félmrh., sem hér er staddur, er sú: Hvernig ætlar hann að beita sér fyrir atvinnusköpun, því að atvinnumálin heyra að vissu leyti undir hann, og fyrir hvaða aðgerðum hann ætlar að beita sér til þess að draga úr atvinnuleysi. Ég vil ekki vera ósanngjörn í garð hæstv. félmrh. en mér finnst að þegar fyrrv. ríkisstjórn fór að prédika um yfirvofandi efnahagsbata þá þýddi það um leið að þar með mætti fara að slaka á aðgerðum til sérstakrar atvinnusköpunar fyrir atvinnulaust fólk. Og mér hefur fundist afar lítil áhersla í umræðunni undanfarna mánuði á það að halda áfram ýmiss konar átaksverkefnum og annarri vinnu varðandi atvinnusköpun. Það hefur verið vísað til þess að það eigi að fara að byrja á Hvalfjarðargöngunum, hugsanlega verði álverið stækkað o.s.frv., en þetta eru mjög takmörkuð verkefni og eins og alltaf er þegar menn eru að horfa á aðgerðir gegn atvinnuleysi þá sjá þeir ekkert annað en vegalagnir og húsbyggingar, en það vill nú svo til, svo ég haldi því enn einu sinni til haga, að atvinnuleysi á landinu öllu er meira meðal kvenna en karla. Og það þarf sérstakar aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi kvenna.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu. Ég minnist þess ekki að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar sé yfirleitt minnst á slíkar aðgerðir og því vil ég spyrja um þær.
    Jafnframt vil ég minna á að það atvinnuleysisbótakerfi sem við búum við er því miður miðað við það að þeir sem eru atvinnulausir séu eiginlega fólk sem nennir ekki að vinna eða fólk sem af einhverjum ástæðum skráir sig atvinnulaust. Bæturnar eru mjög lágar og það eru miklar gloppur í kerfinu þannig að bæði falla ákveðnir hópar fyrir utan og fólk missir bæturnar í ákveðinn tíma nema það eigi kost á námskeiðum. Ég held að við þurfum einfaldlega að hugsa þetta kerfi upp á nýtt, en ég vil líka í því samhengi hvetja hæstv. félmrh. til þess að kynna sér umræðuna sem nú á sér stað á Norðurlöndum um svokallaðar meðborgaratekjur sem fela í sér mjög byltingarkenndar hugmyndir um allt tryggingakerfið og tengist því í hversu miklar ógöngur við erum komin með allt okkar trygginga- og bótakerfi. Ég veit að vísu að krötum í ýmsum flokkum er þetta bótakerfi afar heilagt en það er hins vegar staðreynd að tryggingakerfið er orðinn frumskógur, það er afar flókið kerfi sem erfitt er að rata um og þannig eiga kerfi ríkisins ekki að vera. Að dómi okkar kvennalistakvenna þarf að stokka þetta kerfi algerlega upp, einfalda það og einmitt að kanna hvort ekki séu til betri leiðir til jöfnunar lífskjara og til þess að tryggja fólki framfærslu en það kerfi sem hér hefur verið við lýði rétt eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og byggðist á hugmyndum Beveridge lávarðar. Sífellt er verið að bæta við og reyna að endurbæta, taka upp nýjar bætur og þær síðan skertar o.s.frv. Þetta er kerfi sem komið er í miklar ógöngur og atvinnuleysistryggingarnar eru hluti af því.
    Ég hvet því hæstv. félmrh. til að skoða þetta mál í stóru samhengi og kalla þar til liðs alla stjórnmálaflokka og aðra þá sem eiga hagsmuna að gæta vegna þess að bæði um atvinnuleysistryggingar og tryggingakerfið í heild þarf að ríkja ákveðin sátt. Við þurfum að vera nokkuð sammála um það hverjir eiga að njóta félagslegrar aðstoðar og hvernig.
    Hæstv. forseti. Ég ítreka stuðning minn við þáltill. sem hér er til umræðu og ítreka það að hér er um mjög brýnt mál að ræða.