Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:16:13 (646)

[13:16]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka mikilvægi þess að teknar verði upp mánaðarlegar greiðslur til námsmanna eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. þó að ég hafi þegar gert það við upphaf umræðunnar fyrir nokkrum dögum. Þær eftirágreiðslur sem nú tíðkast eru kostnaðarauki fyrir námsmenn sem bankakerfið nýtur góðs af. Það getur ekki verið tilgangur lánasjóðsins að auka lántökukostnað að óþörfu.
    Þá vil ég ítreka fyrirspurn mína til hv. flm. um það hvort það sé ætlun hans að eina námsframvindan sem krafist verði sé árangur á fyrsta missiri náms. Ef svo er ekki þá þarf að breyta frv. sem menntmn. getur auðvitað auðveldlega gert að lokinni 1. umr.
    Þetta frv. er um afmarkað atriði laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég vonast svo sannarlega til að það verði afgreitt strax þó að vissulega styttist tíminn á vorþinginu. Ef svo verður ekki verður vonandi tekið á þessu málefni við endurskoðun á lögunum sem hæstv. menntmrh. hefur boðað. Í þeirri endurskoðun þarf einnig að taka á því gífurlega vandamáli sem hefur hlotist af því að endurgreiðslur lánanna eru allt of brattar samkvæmt núgildandi lögum eins og Gunnar Birgisson, þáv. stjórnarmaður Lánasjóðs ísl. námsmanna, viðurkenndi á fundi með háskólanemum á sl. ári þegar hann lýsti því yfir að námsmenn þyrftu ekki að láta sig dreyma um það að geta bæði tekið námslán og húsnæðislán fljótlega að loknu námi. Greiðslubyrðin yrði óviðráðanleg. Þetta er að mínu mati brot á mannréttindum og því verður að breyta þessu kerfi sem allra fyrst auk þess að breyta húsnæðiskerfinu sem var til umræðu rétt áðan. Þessi mál, þ.e. húsnæðismálin og lánamál íslenskra námsmanna, virðast mega bíða á meðan áfengismálin og það að veita fé til áfengisheildsala eru talin brýnni mál á vorþinginu.
    Ég kom inn á það í minni fyrri ræðu um þetta mál að auðvitað sé hægt að skilgreina eðlilega námsframvindu á mismunandi hátt. Í því sambandi vil ég ítreka mikilvægi þess að auka svigrúm í námi þannig að skilgreining á eðlilegri námsframvindu taki að einhverju leyti mið af aðstæðum fólks. Þar á ég ekki síst við aðstæður námsfólks með lítil börn og þar hef ég sérstaklegar áhyggjur af konum í námi. Þó að háskólamenntun kvenna sé nú aðeins metin 65% til launa miðað við háskólamenntun karla þá má það ekki gerast að konur hrekist enn frekar úr námi vegna barneigna. Það yrði alvarlegt bakslag, bæði í baráttunni fyrir jafnrétti til náms og einnig í baráttunni fyrir jafnstöðu kynjanna. Á meðan eðlileg námsframvinda er miðuð við 100% námsafköst er hætt við að námsfólk, sem t.d. fellur í einni námsgrein, þurfi að vinna með námi til þess að geta séð fyrir sér og náð endum saman og þar með minnka líkurnar á að þetta fólk geti stundað fullt nám næsta vetur.
    Að lokum skal á það minnt að Lánasjóður ísl. námsmanna veitir verðtryggð lán og nemar greiða þessi lán að fullu til baka í langflestum tilvikum og þannig vilja námsmenn hafa kerfið enda þarf að taka mið af því við áætlun á ævitekjum háskólamenntaðra manna að þeir hafa bæði styttri tíma til að afla tekna en þeir sem fara í störf strax að loknu framhaldsskólanámi eða grunnskólanámi og þeir hafa einnig þá viðbótargreiðslubyrði sem námslánin eru. Þetta er rétt að ríkið sem einn stærsti vinnuveitandi háskólamenntaðs fólks hafi skilning á.
    Að lokum vil ég íteka þá ósk að stjórnarandstaðan fái að fylgjast með þeirri vinnu sem fyrirhuguð er af núverandi stjórn varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna.