Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:22:09 (647)


[13:22]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um Lánasjóð ísl. námsmanna og þetta frv. sem hér liggur fyrir. Tilgangur þess er sá, eins og fram hefur komið, fyrst og fremst að taka upp samtímagreiðslur lána á nýjan leik og hverfa frá þessu eftirágreiðslukerfi. Það er ekki ætlunin með frv. að breyta neinu öðru, segi ég í tilefni af ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, en þessu eina atriði. Ástæðan til þess að við höfum ákveðið að flytja þetta frv. núna er sú að Framsfl. er kominn í ríkisstjórn og gaf mikil fyrirheit um þetta mál í kosningabaráttunni. Þar fór í flokki fremstur hæstv. iðn.- og viðskrh., m.a. á þeim fundi í Háskólabíói sem hér hefur verið nefndur og hv. síðasti ræðumaður nefndi og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson nefndi á dögunum líka, þar sem það kom mjög greinilega fram að hæstv. iðn.- og viðskrh. vildi taka upp samtímagreiðslur námslána vegna þess að samtímagreiðslurnar eru lykillinn að því að breyta sjóðnum aftur og gera hann að því jöfnunartæki sem hann þarf að vera. Ég viðurkenni að breytingarnar að því er varðar vextina og að því er varðar endurgreiðslurnar eru mjög slæmar og mjög alvarlegt mál en þetta er alvarlegasta málið. Og þetta er málið sem hefur þegar skilað mestum breytingum vegna þess að það hefur komkð í ljós að lánþegum hefur fækkað mjög verulega þó að námsmönnum hafi fjölgað. Ég hef tekið eftir því að hæstv. núv. og fyrrv. menntmrh. hafa reynt að verja sig með því að námsmönnum hafi fjölgað. Af hverju hefur námsmönnum fjölgað? Þeim hefur fyrst og fremst fjölgað á skrá vegna þess að fólk er núna lengur í skólanum en það var áður af því að menn eru að reyna að vinna með námi. Það væri fróðlegt að láta fara fram allítarlega könnun, en ég hygg að þetta sé meginskýringin.
    Það hefur einnig komið í ljós að námsmönnum erlendis hefur fækkað mjög verulega. Það hefur komið í ljós að lánþegum úr hópi þeirra sem eru með börn á framfæri hefur fækkað. Einkum á það við um einstæðar mæður þannig að það hefur dregið mjög verulega úr þeim félagslegu jöfnunaráherslum sem lánasjóðurinn hafði. Allt síðasta kjörtímabil var deilt mikið um það mál og ég ætla ekkert að fara að endurtaka það, m.a. vegna þess að ég sé ekki að það sé í sjálfu sér neinn í salnum í fyrirsvari fyrir það mál þar sem hæstv. forseti er bundinn í öðrum verkum að baki mér.
    Varðandi hins vegar stöðu málsins núna þá er tilefni til að spyrja hvað ætla þeir hæstv. ráðherrar Framsfl. að gera í þessu máli? Talsmenn allra flokka sögðu: Við ætlum að taka upp samtímagreiðslur hjá LÍN. Og meira að segja er fullyrt að Sjálfstfl. hafi líka lýst því yfir á þessum margfræga fundi í Háskólabíói, að formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna hafi sagt sem svo að samtímagreiðslur yrðu teknar upp. Ég minnist þess ekki en það kann vel að vera. Alla vega held ég að ég telji rétt sanngirninnar vegna að votta það að talsmenn Sjálfstfl. að öðru leyti, eins og fyrrv. hæstv. menntmrh. og núv. hæstv. menntmrh., voru ekki með yfirlýsingar af því tagi fyrir kosningarnar en aftur á móti fulltrúar allra annarra flokka. Þannig að það er greinilegur meiri hluti fyrir þessu máli í þessari virðulegu stofnun. Þess vegna tel ég að það sé í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að afgreiða frv. það sem hér liggur fyrir eða a.m.k. efni þess í nýjum búningi ef mönnum sýnist svo.
    Undanfarna daga hefur dálítið verið rætt um, m.a. í þessari stofnun, kosningaloforð. Það hefur verið talað um það í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Það hefur verið talað um að Framsfl. hafi gefið þar mikil fyrirheit. Það hefur verið talað um það hér í dag í sambandi við húsnæðismál, m.a. vegna þess að Framsfl. flutti rétt fyrir kosningarnar frv. til laga um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Það hefur verið talað um það í sambandi við fiskveiðistjórnun vegna þes að framsóknarmenn t.d. á Reykjanesi leyfðu sér að hafa stefnu, jafnvel aðra stefnu en Halldór Ásgrímsson hæstv. utanrrh., í fiskveiðimálum og er það nýlunda í Framsfl., að ekki sé fastar að orði kveðið. Framsfl. hafði líka þá stefnu fyrir kosningar að það ætti ekki að einkavæða ÁTVR, brennivínsöluna í landinu. Það var alveg skýrt og kom mjög skýrt fram í ræðum t.d. hjá hv. þm. Jóni Helgasyni, forvera sessunautar míns, hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Nú hefur þetta allt saman einhvern veginn snúist við hjá Framsfl. Nú má selja brennivínið, einkavæða brennivínið, nú eru menn límdir á kvótann, fastir á kvótanum, nú eru menn hættir að hafa eins miklar áhyggjur af þessum greiðsluvandræðum í húsbyggingum og áður var og nú verður maður ekki mikið var við frumkvæði í þá átt að taka upp samtímagreiðslur námslána. Hæstv. félmrh. nefndi það áðan að hann hefði í huga að taka upp bráðamóttöku fyrir húsbyggjendur. Mér fyndist sniðugt að taka upp bráðamóttöku fyrir kjósendur Framsfl. úr síðustu kosningum. Taka upp sérstaka bráðamóttöku fyrir kjósendur Framsfl. þannig að þeir gætu hitt ráðherrana og spurt þá: Hvað með þetta sem þú lofaðir mér og hvað með hitt sem þú lofaðir mér? Það er spurning hvar þessi bráðamóttaka ætti að vera. Mér finnst hugsanlegt að hún verði í framsóknarhúsinu þar sem myndin var af hæstv. iðnrh. og hæstv. utanrrh., myndin sem gekk undir heitinu hér í borginni Kim Il Sung og sonur hans, og blasti við þeim sem tóku strætó á Lækjartorgi. ( GHelg: Okkur hefði verið nær að lofa meiru.)
    En spurningin er þessi hvort málið er þannig að stjórnmálamenn eigi að umgangast veruleikann með því að lofa og lofa og gefa skít í það við hvað þeir ætla að standa. Það held ég að menn eigi ekki að gera. Ég held að við stöndum frammi fyrir grafalvarlegum hlut. Og ég tel að málið liggi þannig að því miður séu þeir framsóknarmenn um það bil að falla á þessu prófi. En það verður séð um það að þeir verði teknir upp hér aftur og aftur á kjörtímatilinu eftir því sem þörf krefur. En spurningunni var sérstaklega beint til hæstv. iðn.- og viðskrh.: Mun hann beita sér fyrir því að teknar verði upp samtímagreiðslur námslána?