Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:45:16 (651)


[13:45]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað heitir hún þessi vél uppi í Stjórnarráði? Þetta tölvuforrit sem er sett í menn? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Prýðilegir drengir Framsfl. umhverfast og umvendast á augnabliki af þessu forriti. Gangast upp í því að vera vinnumenn hjá íhaldinu og skammast sín ekki mjög mikið fyrir það, a.m.k. ekki þessi hæstv. ráðherra. Það sem verra er er að það er engu líkara en stundum verði þeir eins og kratar voru þegar verst var með Alþfl.
    Hver er niðurstaðan? Hún er sú að það er engum spurningum svarað. Hlutunum er velt á undan sér og sagt: Málin eru athugun. Málin eru í skoðun. Þó liggur það fyrir að framsóknarmenn sögðu fyrir kosningar í sínum framboðsræðum að þeir ætluðu að breyta hlutunum. Þeir ætluðu m.a. að breyta námslánunum. Nú er komið allt annað hljóð í strokkinn. Spurningin er, hæstv. forseti, eftir þessa umræðu í dag, bæði um þetta mál og um húsnæðismálin reyndar líka, um áfengismálin og um fiskveiðistjórnina: Eru grundvallarþættir lýðræðisins hjá okkur í hættu vegna þess að við höfum fengið til forustu menn sem horfa á völd og stóla fyrir sig en ekki hugsjónir og hugmyndir sem þeir vilja koma í veruleika?