Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:45:51 (653)


[13:45]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í tilefni þess að hæstv. viðskrh. vék að fundi sem hann átti sem formaður þingflokks Framsfl. í húsakynnum BSRB skömmu fyrir kosningar með mér og nokkrum starfsmönnum ÁTVR um þau lagafrv. sem nú hafa verið til umræðu á Alþingi að undanförnu og gengið undir vinnuheitinu ,,brennivínsfrumvörpin`` þá vil ég upplýsa að hann tjáði okkur á þeim fundi að hann teldi að frv. yrðu ekki samþykkt á fyrra þinginu og hann mundi leggjast gegn því. Hvers vegna? Vegna þess að hann væri andvígur þessum frv. Hann væri andvígur þeim lagabreytingum sem hér væri um að ræða. Og nú finnst mér að hæstv. ráðherra sem hefur vélað um þessi frv. í ríkisstjórninni, því það mun vera hún sem stendur að þeim, skuldi okkur, ekki bara þeim sem sátu þennan litla fund, fulltrúum Starfsmannafélags ÁTVR, fulltrúum BSRB, heldur að sjálfsögðu þjóðinni allri skýringu á því hvers vegna hann hefur skipt um skoðun og hvers vegna hann er reiðubúinn að --- ég vil varla nota orðið --- þjóna hagsmunum Kaupmannasamtaka Íslands sem hafa lagt til við okkur að það verði gengið jafnvel enn lengra í einkavæðingu á brennivínssölunni, en alla vega Verslunarráðinu sem harðast hefur gengið fram til að fá þessar lagabreytingar í gegn. Nú skuldar hæstv. ráðherra þjóðinni skýringu á þessum sinnaskiptum.