Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:16:24 (669)


[15:16]
     Hjálmar Árnason :
    Herra forseti. Fyrir skólamann er gaman að setjast á skólabekk og læra af reyndum þingmönnum. Ég sé ekki hvað blaðaútgáfa af Suðurnesjum kemur máli þessu við sem aðilar ótengdir þinginu standa að. Ég fagna auðvitað því að Suðurnesjamenn skuli hafa trú á sínum þingmanni en ég sé ekki að það komi þessu máli við.
    Hér spurði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson um formlega afstöðu. Ef ég man rétt þá var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ekki viðstaddur þá umræðu sem hér fór fram í þingsölum, en þar gerði ég formlega grein fyrir efasemdum mínum um róðrardagakerfið sem ég taldi vanta inn í frv. Það kom skýrt fram hér og hefði hv. þm. Ólafur Ragnar fylgst með þeirri umræðu og sama má segja um hv. þm. Sighvat Björgvinsson þá hefðu þeir mátt heyra í þessum sal hver mín afstaða var og er enn. Þar hafa sem sagt verið flutt efnisleg rök. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon veit hvernig í málinu liggur. Þetta eru tæknileg mistök. Ég tel hins vegar að það að hengja sig í formlegheit af þessum toga sé einungis tilraun til útúrsnúninga, en kunni það að valda mönnum sálarró þá er sjálfsagt að verða við því og ég hygg að forseti muni gera það, að prenta þingskjalið upp að nýju, en afstaða mín kom fram hér í umræðu. Aðalatriði málsins snýst ekki um þessi formsatriði.