Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:20:59 (672)


[15:20]
     Sighvatur Björgvinsson :

    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að upplýsa okkur um það að hann standi að áliti nefndarinnar með fyrirvara og ég trúi því að það hafi verið mistök af hans hálfu sakir ókunnugleika að hafa ekki látið þess getið. Hins vegar er það ekki tæknilegt atriði að það liggi ekki fyrir fyrr en í lok umræðu að einn af nefndarmönnum meiri hluta standi að nál. með fyrirvara. Það er krafa sem aðrir þingmenn eiga til hans og til nefndarinnar að það liggi fyrir þegar í upphafi umræðunnar þegar þingskjalinu er dreift.
    Ég sé ekki annað, virðulegi forseti, heldur en það sé nauðsynlegt að fresta fundi og dreifa nýju þingskjali og vil þá beina þeim tilmælum til formanns sjútvn., því að það eru fleiri nýir þingmenn í nefndinni heldur en hv. þm. Hjálmar Árnason, að hann láti þá á það reyna á nefndarfundi sem hægt er að skjóta á með snöggum hætti hvort það séu fleiri þingmenn sem hafi formlega fyrirvara þannig að það komist til skila í þingtíðindum með hvaða hætti fulltrúar meiri hlutans í nefndinni standa að nál.