Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:28:59 (677)


[15:28]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því um hvað er verið að greiða atkvæði hér. Það er verið að greiða atkvæði um 1. tölul. brtt. á þskj. sem meiri hluti sjútvn. flytur og um þá brtt. er alger samstaða í sjútvn. Allir nefndarmenn voru sammála um að leggja til þá breytingu á frv. sem þar er á ferðinni. Hér er ekki verið að greiða atkvæði um 1. gr. sem slíka og enn síður um róðrardagakerfi né heldur um málið eftir 3. umr., sem manni skildist nú jafnvel hér áðan. Það er eingöngu verið að greiða atkvæði um það að falla frá því að þrengja endurnýjunarmöguleika skipa eldri en frá árinu 1986. Um það eru allir sammála og stóð reyndar til að sjútvn. flytti sameiginlega þessa brtt., en svona af praktískum ástæðum var valið að hafa þetta 1. tölul. brtt. á þskj. meiri hlutans. Þannig að að því leyti til voru kannski þessar atkvæðaskýringar sem hér voru fluttar áðan ekki alveg í samhengi við þann þátt málsins sem nú á að fara að greiða atkvæði um.