Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:35:35 (682)


[15:35]
     Gísli S. Einarsson :
    Herra forseti. Ég geri grein fyrir atkvæði mínu varðandi 1.--10. mgr. 6. gr., varðandi endurnýjun báta sem stunda veiðar með línu eða handfærum. Ég get engan veginn fallist á að teknar verði upp slíkar nauðaskerðingar sem felast í því að ef eigandi þriggja tonna báts ætlar að endurnýja þá verður hann að kaupa annan þriggja tonna bát á móti svo að hann hafi sömu afköst eða afkastagetu og áður. Ég get ekki fallist á það að ef fjögurra tonna bátur sekkur og eigandi ætlar að endurnýja eða kaupa nýjan bát í staðinn þá verður hann að kaupa fjögur tonn að auki til þess að geta haldið sinni afkastagetu. Ég segi, herra forseti: Þeir sem samþykkja þetta ákvæði um endurnýjun krókabáta ætla sér að leggja af 50% krókabátanna á nokkrum árum. Ég segi nei, herra forseti. --- [Lófatak á þingpöllum.]