Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:51:09 (691)


[15:51]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um 2. gr. frv. eins og stjórnarmeirihlutinn vill að greinin líti út. Það hefur komið fram af hálfu fjölmargra sjómanna í mörgum byggðarlögum, ekki síst í gær á sjómannadaginn, að eins og þessi grein er orðuð er verið að stefna lífi þeirra sem stunda smábátaútgerð í hættu ef þeir reyna að nýta sér þann rétt sem kveðið er á um í lagagreininni. Þá er jafnframt verið að leggja grunn að því að atvinnulíf í heilum byggðarlögum verði lagt í rúst. Þetta er sú lagagrein þar sem fulltrúar sjómanna hafa sagt að verið sé að stilla sjómönnum frammi fyrir tveimur valkostum, hvort þeir vilji heldur láta skjóta sig eða hengja.
    Það nær ekki nokkurri átt að ætla að lögfesta á Alþingi með slíkri atkvæðagreiðslu daginn eftir sjómannadaginn ákvæði af þessu tagi. Og ef þeim verður ekki breytt við 3. umr. er stjórnarmeirihlutinn að ganga götu sem getur leitt til slíkra atburða í sjávarbyggðunum kringum landið að enginn þingmaður vill bera ábyrgð á því að stofna lífi og limum sjómanna í hættu. Ég segi nei við þessari grein og skora á stjórnarþingmenn að breyta henni við 3. umr.