Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:55:01 (693)


[15:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það að annaðhvort verða menn að velja aflahámark sem nemur liðlega helmingi af þeim afla sem þeir hafa að meðaltali fengið tvö af bestu þremur árum að undanförnu eða taka á sig stóraukna fjölgun banndaga. Það er það sem valið stendur um og ekkert annað samkvæmt orðanna hljóðan í þessum texta þó að menn tali í allt aðrar áttir þegar þeir eru að réttlæta stuðning sinn við þetta ákvæði. Það stendur hér, með leyfi forseta:
    ,,Fiskistofa skal fyrir 1. júlí 1995 senda útgerðum tilkynningu um reiknað þorskaflahámark hvers báts og forsendur þess og hafa útgerðir mánaðarfrest til að tilkynna um val milli þorskaflahámarks og viðbótarbanndaga og sama frest til að koma athugasemdum að. Velji útgerð ekki fyrir tilskilinn tíma skal bátnum ákvarðað þorskaflahámark.``
    Það er alveg ljóst hver undirtónn þessa máls er. Það á að þrýsta sem flestum til þess að taka þetta þorskaflahámark og hótunin sem á móti kemur er stóraukinn fjöldi banndaga. Það eru neyðarkosti að þvinga menn til ákvarðantöku með þessum hætti. Ég segi nei herra forseti.