Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 18:20:32 (710)


[18:20]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mun hér gera grein fyrir nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. en minni hlutinn skilar þremur nál. og gerði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson grein fyrir áliti 1. minna hluta.

    Þetta mál sem ég tel vera stærsta málið sem Alþingi hefur til umfjöllunar á þessu vorþingi snýst um grundvallaratriði. GATT-samningurinn sem við erum að útfæra í frv. er einn merkilegasti áfangi í samstarfi þjóða og hann miðar að frjálsum viðskiptaháttum og aukinni samkeppni. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að frjálslynd verslunarstefna, eins og hún birtist m.a. í GATT-samningnum, er sú stefna sem hefur framar öðru fært bæði okkur og öðrum þjóðum meiri velmegun en nokkur önnur viðskiptastefna. Það er því mikilvægt þegar við tökum til við að útfæra þá hugsun sem felst í GATT-samningnum að við gerum það í anda samningsins en reynum ekki að líta á hann sem leiðinlega nauðsyn sem við þurfum að lögfesta vegna skyldu okkar við samfélag þjóðanna.
    Þegar mælt var fyrir þessu máli minnir mig að hæstv. forsrh. hafi lýst því í einföldum orðum þannig að það sem áður var bannað væri núna heimilt. Það er mikið til í þessari framsetningu. Hins vegar þarf að hafa það í huga að ef útfærsla frv. er með þeim hætti sem kemur fram hjá meiri hluta efh.- og viðskn. þá er í reynd ekkert heimilt.
    Það er ákvörðun okkar Íslendinga að útfæra þennan samning á þann hátt að heimila svokallaðan lágmarksinnflutning sem gæti numið 3--5% af markaðnum hér á landi. Síðan er hugsunin sú að umframinnflutningur sé þá tollaður með hærri tollum sem síðan lækka smátt og smátt og þannig skapist landbúnaði sérhvers lands tækifæri að laga sig að breyttum aðstæðum.
    Þetta er stefna sem er í sjálfu sér alveg hægt að fallast á, þ.e. að heimila innflutning á tiltölulega litlu magni, 3--5%, en hafa síðan nokkra vernd fyrir innlendan landbúnað að öðru leyti þannig að honum gefist tækifæri á að laga sig að breyttum aðstæðum. Nú er það hins vegar svo að í frv. vantar mikið á að þessi stefnumörkun komi þar fram. Meiri hluti efh.- og viðskn. kýs að gera frv. þannig úr garði að það verður sáralítill innflutningur á landbúnaðarvörum og aðferðin sem er beitt í þessu er einföld: Tollarnir eru hafðir það háir að það mun ekki freista neins að flytja inn vörur.
    Ég vil hins vegar taka skýrt fram að það er í okkar valdi að ákveða þessa tolla þannig að þó svo að við mundum lögfesta þetta frv. eins og það lítur út núna þá erum við ekki að brjóta alþjóðlega samninga en við erum að brjóta gegn anda GATT-samningsins. Við erum að brjóta gegn anda verslunarfrelsis.
    Það segir m.a. í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Reglur GATT eru jafnréttisreglur sem ætlað er að stuðla að frjálsari viðskiptaháttum og aukinni samkeppni en banna þó ekki vernd fyrir innanlandsframleiðslu.``
    Það vantar hins vegar á að frv. sé gert þannig úr garði að þessi stefnumörkun nái fram að ganga. Það er mjög mikilvægt við afgreiðslu þessa máls að það sé skoðað í víðara samhengi, að með því hefjist ferill endurbóta í landbúnaði sem miðar að því að bæta kjör bænda og lækka matarverð. Það er tafla í nál. sem ég er hér að mæla fyrir sem lýsir nokkuð vel þessum mikla verðmun á innlendum og erlendum landbúnaðarvörum og kem ég betur inn á þá töflu síðar.
    Það voru nær allir aðilar sem hv. efh.- og viðskn. fékk á fund sinn sem vöruðu við tollaákvæðum frv. Allir þessir aðilar sögðu: Frv. er þannig úr garði gert að það verður enginn innflutningur. Þetta voru ekki einungis aðilar eins og Neytendasamtökin og forsvarsmenn Hagkaupa og Bónus, aðilar sem þekkja vel til mála, heldur kom þetta sjónarmið líka fram hjá fulltrúum Íslenskrar verslunar, aðilum úr ferðaþjónustu og fulltrúum Alþýðusambandsins, svo fáeinir umsagnaraðilar séu nefndir. Og þá spyr maður: Þegar allir þessir aðilar, sem eiga að njóta þeirra kosta sem þetta frv. hefur í för með sér, eru sammála um að frv. hafi ekki neinar breytingar í för með sér til hvers er verið að samþykkja þetta frv.?
    Er ástæðan sú að það er verið að samþykkja þetta frv. til að uppfylla lagaskyldu en markmið ríkisstjórnarinnar er einfalt og það er að hrófla ekki í neinu við núverandi landbúnaðarstefnu? Þá eiga menn að segja það skýrt hér í ræðustól. Menn ætla að samþykkja frv. en ekki að breyta stafkrók í núverandi landbúnaðarstefnu og ekki heimila neinn innflutning á landbúnaðarafurðum. Þá er heiðarlegra að segja það hér skýrt því frv. er gert þannig úr garði.
    Það hefur verið vitnað í skýrslu nefndar, sem m.a. forstjóri Þjóðhagsstofnunar átti sæti í, frá 1992 þar sem verið var að meta áhrif GATT-samningsins. Þá lágu ekki fyrir drög að frv. sem nú er til umræðu en Þjóðhagsstofnun mat á sínum tíma að áhrif til matarverðslækkunar gætu verið um 1%. Þetta hefði 1% bata í för með sér fyrir neytendur. Í þeim útreikningum var gert ráð fyrir því að allur lágmarksinnflutningur mundi eiga sér stað en lítið af svokölluðum umframinnflutningi. En þá var líka miðað við að erlend vara, miðað við þetta fræga heimsmarkaðsverð, yrði u.þ.b. 5% dýrari hér komin. Að tollarnir yrðu settir þannig að varan yrði 5% dýrari.
    Nú er þetta frv. þannig að það segir í greinargerð þess, með leyfi hæstv. forseta, að ,,tolltaxtar miðast við að vara sem innflutt kann að vera á heimsmarkaðsverði verði 30% dýrari en sem nemur heildsöluverði samsvarandi innlendrar vöru.``
    Fyrir þremur árum reiknaði Þjóðhagsstofnun ekki mikil áhrif GATT-samningsins með 5% verðmun. Í þessu frv. er lagt upp með 30% verðmun á heimsmarkaðsverði og samsvarandi heildsöluverði innlendrar vöru. Gott og vel. Ef það væri nú stefna frv. að erlendar vörur væru hér í aðalatriðum u.þ.b. 30% dýrari, það er nokkuð mikið að vísu en þá gæti innlend framleiðsla keppt á grundvelli fjarlægðarverndar og á grundvelli gæða. En frv. fjallar ekki um þennan 30% verðmun. Vegna þess að hér er talað um heimsmarkaðsverð á landbúnaðarafurðum, heimsmarkaðsverð sem er villandi og rangt að því leyti til að það hefur ekkert með innkaupsverð vöru að gera. Þetta er verðlistaverð sem er notað í alþjóðlegum samningum en endurspeglar ekki raunverulegt innkaupsverð vöru.
    Til að skýra þetta aðeins nánar er hægt að taka dæmi. Það komu fram í starfi efh.- og viðskn. upplýsingar, m.a. frá Hagkaupum, um raunverulegt innkaupsverð á nokkrum vöruflokkum. Þar kom m.a. fram að innflutningsverð Hagkaupa á svínakjöti í skrokkum væri 162 kr. á kg. Heimsmarkaðsverð frv. er 86 kr. Hér er tvöfaldur munur og auðvitað sjá allir að það á að miða við raunveruleg verð þegar menn eru að tala um álagningu tolla en ekki tilbúið verð til að hafa verndina sem allra mesta og hindra að nokkur vara komi inn í landið. Til samanburðar má benda á að innlent heildsöluverð á svínakjöti í skrokkum er 364 kr., sem sagt tvöfalt það verð sem hægt væri að kaupa þessu vöru erlendis frá. Svo á eftir að koma á frakt, kostnaður og auðvitað tollar.
    Það er samanburður um fleiri svona atriði í nefndaráliti mínu. Ég vil nefna svínakótilettur og hryggi. Innkaupsverð Hagkaupa er þar 463 kr. en heimsmarkaðsverð frv. 195 kr. Þarna munar meira en tvöföldu. Eins er með svínalundir. Þar er fob-verð Hagkaups 637 kr., heimsmarkaðsverð frv. 328 kr. Eina varan sem virðist vera nokkuð nálægt er á heilum kjúklingum. Þar er innkaupsverð Hagkaupa 188 kr., heimsmarkaðsverð 81 kr. og lögmál líkindareikningsins mundi segja okkur að einhvers staðar gætu þessi verð meira að segja fallið saman.
    Hér ber allt að sama brunni. Það er ekki hægt að kaupa vöru á þessu svokallaða heimsmarkaðsverði í þeim gæðaflokki sem við óskum eftir ef af innflutningi verður. Þess vegna eru allir tolltaxtar frv. í reynd markleysa. Þess vegna eru allir þeir aðilar sem hafa kynnt sér þetta mál, bæði neytendur og fleiri sem vit hafa á þessum málum, sammála um það að tollana í frv. verður að lækka vegna þess að þeir eru byggðir á röngum forsendum. Og það þýðir ekkert að segja að þessir aðilar hafi ekkert vit á þessu. Við verðum að taka trúanlega alla þessa aðila, bæði neytendasamtök, verkalýðsfélög og aðilar sem hafa vit á viðskiptum og hafa atvinnu af viðskiptum. Við höfum enga ástæðu til að rengja þær tölur sem þeir gefa upp um raunverulegt innkaupsverð vöru erlendis frá.
    Það er merkilegt með þetta frv. að það var bent á mörg af þessum atriðum við 1. umr. hér á hinu háa Alþingi en það tók nær engum breytingum í umfjöllun nefndarinnar. Það voru ekki gerðar tillögur um tollalækkanir af hálfu meiri hlutans þó svo að ítrekað hafi verið beðið um að reyna að færa frv. til betra horfs af fjölmörgum viðmælendum nefndarinnar, svo og af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Það er satt best að segja alveg með ólíkindum að frjálslynd öfl í Sjálfstfl., og þau munu vera til þar, skuli ekki hafa haft meiri áhrif á gerð þessa frv. en raun ber vitni. Það er greinilegt að framsóknarmenn í báðum stjórnarflokkum, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., hafa ráðið gerð þessa frv. og það er miður. Það er miður að menn skyldu ekki grípa það tækifæri sem GATT-samningurinn opnar að hleypa inn lágmarksinnflutningi upp á 3--5% til að auka hér fjölbreytni í matarvali og ekki hvað síst að örva samkeppni í landbúnaðargeiranum.
    Það var eitt sem kom skýrt fram þegar við í nefndinni ræddum m.a. við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Þá kom það skýrt fram hjá fulltrúa Alþýðusambandsins að ofverndun fyrir landbúnað er ekki af hinu góða. Sú ofverndun sem er í þessu frv. gerir landbúnaðinum engan greiða nema síður sé. Nú er ég ekki að tala um að það eigi að heimila hömlulausan innflutning á erlendum matvörum, síður en svo. Ég er að tala um að það verði heimilaður lágmarksinnflutningur, 3--5%, á raunverulegum tollum, á tollum sem í reynd gera þennan innflutning mögulegan. Í brtt. 2. minni hluta eða brtt. mínum er ekki gert ráð fyrir að lækka tollana á umframinnflutningi. Mínar tillögur ganga út á það að lækka tollana á lágmarksinnflutningnum og að því leytinu gengur hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lengra í þeim efnum en ég geri vegna þess að í hans tillögum, sem hann gerði grein fyrir áðan, gerir hann ráð fyrir að lækka líka tollana á umframinnflutningnum.
    Ég er sannfærður um það og finnst það sanngjarnt að íslenskur landbúnaður búi við vissa vernd því að það eru miklir breytingatímar fram undan. En mér finnst líka sanngjarnt að þessi vernd sé ekki gerð þannig að við fáum ekki einu sinni þennan lágmarksinnflutning inn í landið því að þegar verið er að tala um 3--5% markaðshlutdeild þá skulu menn hafa í huga að íslenskur landbúnaður á áfram að vera með 95--97% markaðshlutdeild. Það er ekki verið að ganga langt í stefnumörkun í þessu frv. með því að heimila þennan smávægilega lágmarksinnflutning á raunhæfum tollum. En þegar menn ganga svo fram með tollana á þennan lágmarksinnflutning og hafa þá yfir 100%, í sumum tilfellum yfir 200%, þá eru menn að beita ákvæðum GATT-samningsins til að hindra öll innflutningsviðskipti.
    Þær brtt. sem eru lagðar fram í áliti mínu lúta í meginatriðum að átta efnisatriðum. Það er lagt til að tollarnir á lágmarksinnflutningnum verði lækkaðir um helming. Við þá aðgerð er samt enn þá nokkur vernd fyrir innlenda framleiðslu. Þetta þýðir ekki að erlend vara verði í öllum tilvikum ódýrari en sú innlenda. Það er mjög misjafnt eftir vöruflokkum en með þessu er þó gerð tilraun til að opna möguleika á innflutningi á landbúnaðarvörum en þó aðeins á hinum títtnefnda lágmarksinnflutningi sem nemur 3--5% af heildarneyslunni.
    Jafnframt er í tillögum mínum gert ráð fyrir að tollar á viðbótarinnflutningi lækki í þrepum um 15% á fimm árum. Þetta segir í GATT-samningnum að eigi að gera, það eigi að þrepa niður toll, reyndar úr 36% og niður í allt að 15% á einstökum vöruflokkum, á sex árum. Það er hins vegar svo að skuldbinding okkar gagnvart GATT gildir gagnvart tollabindingunum en ekki gagnvart hinum raunverulegu tollum þannig að ef hinir raunverulegu tollar eru lægri en tollabindingin þá þýðir þetta að ekki er víst að þessi lækkun tolla nái fram að ganga á aðlögunartímanum. Þess vegna legg ég til að hinir raunverulegu tollar sé ótvírætt þrepaðir niður um 3 prósentustig á ári næstu fimm árin.
    Hér er ekki heldur verið að ganga mjög langt til að létta af vernd fyrir íslenskan landbúnað. Allar þessar breytingartillögur sem ég er að gera grein fyrir miða að því að losa nokkuð um þau höft og hömlur sem eru í frv. en það er ekki gengið eins langt og ýmsir mundu sjálfsagt vilja. Hér er farið bil beggja vegna þess að það verður að þjóna bæði hagsmunum bænda og neytenda í þessu máli.
    Í þriðja lagi gert ráð fyrir í breytingartillögum mínum að þrepa niður heimild landbrh. sem hefur við tilteknar aðstæður heimild til að leggja á 0%, 25%, 50% og 75% toll. Brtt. miða að því að taka af efsta þrepið í þessum heimildum landbrh. Nægar heimildirnar hefur hann nú fyrir í frv.
    Það er einkennandi fyrir þetta frv. og hefur verið gert að umtalsefni, bæði við 1. umr. og líka af hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, svokallað forræðismál. Hver á að fara með forræðið varðandi tollamál sem eðlilega ætti að vera hjá fjmrh.? Það var gerð pólitísk sátt um það mál í tíð fyrri ríkisstjórnar að því er mér skilst og hún endurspeglast í þessu frv. eins og það er er lagt hér fram. Hins vegar er landbrh. veittar mjög miklar heimildir í frv. og ein af brtt. sem ég geri er að færa þetta aðeins til betri vegar og þá með þeim hætti að nefnd sem er starfandi samkvæmt frv. og er skipuð þremur aðilum, einum frá landbrn., einum frá fjmrn. og einum frá viðskrh. verði falin aukin verkefni. Í frv. er gert ráð fyrir að þessi nefnd gegni einungis samráðshlutverki. Ég legg til að nefndin eigi að gera tillögur um tiltekna málaflokka, til að mynda varðandi heimildir til innflutnings, úthlutun kvóta og nokkurra annarra atriða, að vald hennar verði ekki samráðsvald eða samráðshlutverk heldur hafi hún beinan tillögurétt. Síðan er landbrh. falið að beita heimildum sínum samkvæmt tillögum nefndarinnar.
    Hér er reynt að stíga það skref að tengja inn í þetta mikilvæga mál fleiri ráðuneyti en einungis landbrn. Ég veit ekki hvort landbrh. er mér sammála en ég held að honum væri hollara að fá aðra aðila að þessu máli eins og gert er ráð fyrir í tillögu minni en hann einn fari með allt það mikla vald eins og frv. gerir ráð fyrir. Sömuleiðis er eðlilegt að fjmrn. komi markvisst að álagningu tolla eða beitingu ákvæða í þessu frv. og auðvitað er eðlilegt að viðskrh. komi að þessum málaflokki líka, því að þessi mál snúast ekki eingöngu um verksvið landbrn. heldur verður hér að gæta hagsmuna bæði ríkissjóðs og viðskiptalífsins og því er eðlilegt að önnur ráðuneyti komi að þessu máli.
    Jafnframt er lagt til að nefndin skuli hafa samráð við Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin og aðra hagsmunaaðila við mótun tillagna sinna. Það er eðlilegt að í þessum málaflokk sé kveðið á um samráð við þá mikilvægu hagsmunaaðila en óhætt er að segja að þessi tvenn samtök, þ.e. Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin, endurspegli það stóran hluta af þjóðinni sem kemur að þessu máli að skylt væri að hafa samráð við þá. Þess vegna er þetta lagt til.
    Í fimmta lagi er lagt til að úthluta ekki kvótum með hlutkesti heldur að selja þá á opinberu uppboði. Málið er það að aðferð hlutkestis sem menn telja kannski í fljótu bragði vera sanngjarna leið er í reynd óframkvæmanleg. Ef einhver áhugi verður á innflutningi --- það verður náttúrlega ekki nema tollum í frv. verði breytt en göngum út frá því að áhugi verði á innflutningi á landbúnaðarvörum --- þá er mjög líklegt að allir aðilar, sem hefðu heildsöluleyfi hér á landi, mundu sækja um kvóta til að vera þátttakendur í því hlutkesti sem landbrh. stendur fyrir.
    Annað mun líka gerast í framhaldi af þessu. Það mun hver einasta verslun sækja um kvóta vegna þess að verið er að úthluta verðmætum. Menn þurfa ekki að borga neitt fyrir að taka þátt í þessu hlutkesti. Síðan er annað sem mun gerast í framhaldi af þessu að sá sem er heppinn í hlutkestinu og fær leyfi, að þessi leyfi munu ganga kaupum og sölum með einum eða öðrum hætti. Þetta er eins og aðrir hlutir sem eru af skornum skammti. Auðvitað öðlast þeir verðmæti og leyfið mun verða verslunarvara. Þá erum við fyrst búnir að taka upp efnahagsstefnu Framsfl. og það rétt fyrir aldamótin, efnahagsstefnu þessa flokks sem var hér um áratuga skeið fyrir 1960, leyfisveitingar, sala á leyfum og öll sú spilling sem því fylgir. Hlutkestið er vond aðferð og það kom skýrt fram í nefndinni að reyndir menn í viðskiptalífinu, sem eiga sæti í hv. efh.- og viðskn., sáu ýmsa meinbugi á þessu, eins og hv. þm. Pétur Blöndal. Hann hafði miklar efasemdir um þetta og lýsti ákveðnum hugmyndum um sölu sem hann gerir vafalítið grein fyrir í umræðunni. Að vísu stendur hann að áliti meiri hlutans sem hér er til umræðu en hugsanlega beitir hann sér fyrir breytingu á þessu ákvæði fyrir 3. umr. ( SJS: Það kemur kannski í ljós hvort hann setti fyrirvara.) Hann skrifaði ekki undir þetta með fyrirvara en það má vel vera að það komi fram í umræðunni að hann styðji þetta kannski ekki með jafnfúsum og frjálsum vilja og margir aðrir nefndarmenn meiri hlutans.
    Þess vegna er hér lagt til varðandi þessi leyfi að kvótarnir séu boðnir upp af hálfu ráðherra og að andvirðið renni þá eðlilega í ríkissjóð. Nú hefur verið nokkur umræða innan kerfisins, m.a. innan OECD hvort hægt sé að fara þá leið að bjóða upp þessa kvóta. Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni er það víðast hvar þannig að leyfin eru veitt í þeirri röð sem umsóknir berast. Það er matsatriði hvort slíkt uppboð sé heimilt samkvæmt reglum GATT- samningsins. Það hefur ekki reynt á það. Engin þjóð hefur farið þá leið að úthluta kvótum með þeim hætti. Hér þarf einfaldlega að kanna málið mun betur áður en lagt er upp með þessa vonlausu aðferð sem hér er gerð tillaga um í tillögum meiri hlutans, þ.e. þessa hlutkestisleið. Hvort heimilt sé samkvæmt samningnum að bjóða hana upp með þessum hætti eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni get ég ekki fullyrt algerlega um en það liggja ekki heldur neinar upplýsingar um að það sé beinlínis óheimilt.
    Jafnframt er í brtt. mínum kveðið skýrt á um að landbrh. úthluti kvóta til að tryggja að jafnan sé á markaði nægjanlegt framboð af vörum á hæfilegu verði og stuðla að lágmarksinnflutningi samkvæmt samningum GATT. Hér er ótvírætt kveðið á um það markmið að af lágmarksinnflutningi verður. Hér er sú kvöð lögð á landbrh. að hlutast til um að lágmarksinnflutningur nái fram að ganga. En orðalag meiri hlutans við þessa brtt. að hafa þetta til hliðsjónar er vitaskuld marklaust ákvæði og hefur enga þýðingu.
    Sjöunda efnisatriðið, sem er í brtt. mínum, lýtur að yfirdýralækni eða embætti yfirdýralæknis sem hefur mjög mikil völd samkvæmt frv. Ég legg til að haft verði samráð líka við aðrar sérfræðistofnanir, svo sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og rannsóknastofnanir Háskóla Íslands á viðkomandi fagsviði og ótvírætt sé kveðið á um í frv. að vísindalegt mat skuli vera lagt á þær vörur sem koma hugsanlega til innflutnings.
    Það er svo að ákvæðum um dýravernd og matvælaverndun er í fjölmörgum löndum beitt sem tæknilegri viðskiptahindrun. Það má ekki gerast vegna þess að það brýtur gegn GATT-samningnum. Þess vegna er nauðsynlegt að víkka út þessa möguleika að hafa samráð við alla þá aðila sem bærasta hafa þekkingu á þessum málum og það eru fleiri stofnanir en embætti yfirdýralæknis.
    Það má einnig benda á það að þá tillögu, sem meiri hlutinn leggur til, sem var skotið inn í frv. á síðasta fundi, að heimila landbrh. í reynd að banna allan innflutning á dýrum og plöntum ef í þeim finnast aðskotaefni ýmiss konar. Þessi heimild er býsna víðtæk og það er fullkomlega óeðlilegt, herra forseti, að ákvæðið sé hér sett inn í frv. Matvælalög eiga að ná yfir þennan þátt og það er tekið á þeim atriðum þar. Tilgangur meiri hlutans og þar með stjórnarinnar að setja þetta inn í frv. er einungis einn og það er að hafa allar þær heimildir, sem menn hafa getað látið sér detta í hug, til að geta komið í veg fyrir einhvern innflutning. Það á að beita öllum tiltækum ráðum og ekki er sanngjarnt gagnvart neytendum og reyndar ekki gagnvart bændum heldur.
    Að lokum er lagt til í breytingartillögum mínum að skipuð verði nefnd sem fylgist með framkvæmd þessara laga og endurskoði búvörusamninginn. Sú nefnd yrði skipuð fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila. Þessari nefnd væri falið að gera tillögur fyrir 1. jan. 1996 um að breyta greiðslum ríkisins til bænda þannig að þær verði óháðar framleiðslumagni, þ.e. að taka upp svokallaðar grænar greiðslur í landbúnaðarkerfinu. Líka að undirbúa tillögugerð sem miðar með markvisst að búháttarbreytingum. Jafnframt er lagt til að gerðar séu tillögur um afnám á framleiðslukvóta í sauðfjárrækt. Þetta eru allt mikilvægir þættir í nýrri landbúnaðarstefnu sem GATT-samningurinn átti að vera fyrsta skrefið í og að skattaleg skilyrði íslensks landbúnaðar verði sambærileg og í grannlöndum. Þessi nefnd á að gera tillögur um það, sömuleiðis að markaðsstarfsemi fyrir útflutning landbúnaðarafurða yrði samræmd og efld og að bændur eigi kost á viðunandi og eftirsóknarverðum starfslokasamningum. Þessir hlutir eru allir mjög mikilvægir í nýrri landbúnaðarstefnu og hefði verið betra ef hæstv. ríkisstjórn hefði skilið GATT-frv. þannig að það boðar breytingar í viðskiptum í heiminum en ekki taka það sem einhvers konar skyldu að þurfa að lögfesta hér þætti sem í reynd hafa engin áhrif. Það hefði verið betra ef stjórnin hefði skilið að breytingar á landbúnaðarstefnunni eru nauðsynlegar og ég rakti hér aðeins áðan, og notaði þetta tækifæri með samþykkt frv. að hefjast handa við nauðsynlegar endurbætur á þeirri stefnu.
    Með þeim breytingartillögum, sem ég hef hér gert grein fyrir, er frv. gert að markvissri löggjöf í anda GATT-samningsins. Tryggður er lágmarksinnflutningur á eðlilegum tollum en ekki er gerð tillaga um að breyta tollum frv. á viðbótarinnflutningi þótt svo þeir séu mjög háir. Í tillögunum er því tryggð veruleg vernd fyrir bændur en neytendum er jafnframt gert kleift að njóta takmarkaðs magns af erlendum vörum í eðlilegri samkeppni við innlenda framleiðslu. Allar þær breytingartillögur, sem ég hef gert grein fyrir, hefðu gefið þessu frv. líf. Ef það er ætlun hæstv. ríkisstjórnar að afgreiða frv. eins og það kemur fram í áliti meiri hluta nefndarinnar er þetta gagnslaus lagasetning og það er satt best að segja til skammar að við skulum ekki nýta okkur þá hugsun sem kemur ótvírætt fram í hinni breyttu heimsmynd GATT-viðræðnanna.