Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 19:01:52 (712)


[19:01]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil fara varlega í innflutningi á landbúnaðarafurðum. Allur minn málflutningur byggist á því að fara varlega í þennan innflutning. Hæstv. ráðherra verður að hafa í huga að málið snýst um það að tollarnir í frv. eru það háir að það bendir allt til þess að ekki verði um neinn innflutning að ræða. Þetta heitir ekki að fara varlega. Þetta heitir að misnota raunverulega þá möguleika sem GATT-samningurinn býður upp á. Þess vegna hef ég lagt hér fram tillögur um helmingslækkun á þessum tollum fyrir lágmarksaðganginn. Það er varlega farið og það er engum manni gerður greiði með því að hafa tolla frv. þannig að það kalli í reynd ekki á neinar breytingar.