Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 21:12:12 (716)


[21:12]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það líður að lokum þessa þings að því er við höldum en það eru afar stór mál sem við höfum til umræðu. Ég hygg að þegar til lengri tíma verður litið verði útfærslan á GATT-samningnum talin með stærri málum sem komið hafa hér til umræðu.
    Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að benda á eins og fleiri að afar skammur tími hefur gefist til þess að fara í gegnum þetta mál og að mínum dómi þyrfti efh.- og viðskn. að hittast á milli umræðna til þess að fara fara ofan í brtt. meiri hlutans og einnig að gefa þeim minnihlutafulltrúum, sem lagt hafa fram breytingartillögur, tækifæri til þess að skýra þær og að fá á þeim nokkra útreikninga þannig að við hin værum nokkuð viss á því hvað þær þýða. Það er nú svo, hæstv. forseti, að hér er um býsna flókin mál að ræða og það þarf að liggja yfir því hvað einstakar tillögur þýða í krónum talið, hvað þær mundu þýða í útfærslu ef innflutningur ætti sér stað á viðkomandi vörum.
    Ég vil fyrst segja það, hæstv. forseti, að útfærsla ríkisstjórnarinnar á samningnum hefur valdið mér gífurlegum vonbrigðum og ég get ekki annað en lýst undrun minni á því að menn skuli fyrst ganga að því verki að gerast aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og vera búnir að eyða þessum gífurlega tíma í þennan samning, og ég minnist þá allra þeirra umræðna og deilna sem átt hafa sér stað á hinu háa Alþingi, og að leggja svo fram frv. eins og þetta sem öllum þeim sem koma á fund efh.- og viðskn. bar saman um að mundi ekki hafa nokkur einustu áhrif, hvorki á verðlag á almennum landbúnaðarvörum, né á innflutning né þá heldur á íslenskan landbúnað. Við megum ekki gleyma því að tilgangur samningsins, sem menn hafa verið að vinna að svo árum skiptir, er auðvitað sá í fyrsta lagi að auka og auðvelda viðskipti í heiminum, í öðru lagi að draga úr tollum og viðskiptahindrunum og í þriðja lagi að koma á viðskiptum með vörur sem hafa nánast eingöngu verið bundnar við heimamarkaði. Þetta var megintilgangur þessarar samningslotu, það var verið að taka á hlutaframleiðslu sem hafði áður verið utan við GATT-samninginn. Ég get ekki séð að það sé í anda þessa samkomulags að útfæra samninginn með svo háum tollum að það komi nánast ekki til greina að reyna neinn innflutning. Það ber öllum saman um það sem hafa spáð í frv., þeim sem eiga að fást við innflutninginn og jafnframt fulltrúum Þjóðhagsstofnunar og Hagfræðistofnunar háskólans, að áhrifin yrðu engin. Hæstv. landbrh., þarna er auðvitað verr af stað farið en heima setið og þetta er ekki í anda samningsins. Að vísu liggur fyrir brtt. frá meiri hlutanum. Þegar þeim varð ljóst hvað í þessu fólst var reynt að grípa til örþrifaráða eða til einhvers sem duga mætti til þess að auka innflutning og a.m.k. til að sjá til þess að innflutningurinn næði þeim 3--5% sem er þó lágmarksinnflutningurinn. Við megum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að samningurinn gengur í báðar áttir. Þetta eru samningar milli þjóða og hann snýr ekki bara að innflutningi til Íslands. Hann snýr líka að útflutningi. Við megum passa upp á þann orðstír sem við fáum ef við útfærum samninginn með þessum hætti, þ.e. að reisa hér endalausar girðingar og maður spyr sig: Hvers vegna erum við að gerast aðilar að alþjóðasamningum, hvort sem það er þessi GATT-samningur eða samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið ef menn ætla svo alltaf að reyna að finna einhverjar leiðir fram hjá? Ekki voru lítil rökin sem komu fram í EES-umræðunum um allar þær girðingar sem hægt væri að reisa. Menn ætluðu að gerast aðilar að samningnum, fá það besta út úr honum en láta ekkert af hendi sjálfir. Ég lýsi þeirri skoðun okkar kvennalistakvenna að við þurfum auðvitað að standa vörð um íslenskan landbúnað og íslenska landbúnaðarframleiðslu en það verður að vera skynsemi í þeirri stefnu og við erum búnir að gerast aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Samningurinn gerir ráð fyrir lágmarksinnflutningi og innflutningi umfram það á hærri tollum. Þá á auðvitað að útfæra þetta þannig að sá innflutningur geti átt sér stað og hann hafi þau áhrif sem til er ætlast. En þau áhrif eru auðvitað annars vegar aðhald að verðlagi hér, koma á örlítilli samkeppni við íslenskan landbúnað og jafnframt vonandi að ýta á nauðsynlegar breytingar sem verða að eiga sér stað á íslensku landbúnaðarstefnunni.
    Það sem frv. gengur í rauninni út á er að hér verða settir býsna háir tollar á innfluttar landbúnaðarvörur og útkoman á að sögn frumvarpshöfunda að þýða um það bil 30% hærra verð. Það er að vísu

mismunandi eftir vörum og þeir sem hafa farið ofan í þessa útfærslu sjá helst fyrir sér að hér verði innflutningur á ostum, smjöri og hugsanlega einhverjum kjöttegundum. Ég hef alltaf skilið þetta mál þannig, það er best að því koma að því strax, að innflutningur á hráu kjöti yrði ekki heimilaður. Það er auðvitað bundið því að hægt sé að sanna að slíkum innflutningi fylgi einhverjar sjúkdómshættur. En spurningin er sú: Er yfir höfuð hægt að sanna það?
    Við fengum yfirdýralækni til okkar í hv. efh.- og viðskn. og hann lýsti því fyrir okkur hvaða tækni er nú viðhöfð og hvernig menn geta fylgst með dýrasjúkdómum en ég get ekki áttað mig á því hvaða vörn er í þeim lögum sem við höfum t.d. gagnvart lambakjöti frá Nýja-Sjálandi. Mér vitanlega eru ekki þar á ferð neinir sjúkdómar sem eru ekki þekktir hér á landi. Þar af leiðandi er ekki gott að átta sig á því hver sá innflutningur yrði í raun og veru en að minnsta kosti hefur ekki nokkur maður nefnt nýsjálenskt lambakjöt í umræðunni og hafa yfirleitt ekki talið nokkrar líkur á því að til slíks innflutnings kæmi. Ég verð að segja það að ég hef nokkrar áhyggjur af þessari hlið málanna, þ.e. því sem snýr að hreinlæti og heilbrigði þeirrar vöru sem yrði hugsanlega flutt inn. Þar er ég ekki sammála hv. þm. Ágústi Einarssyni, sem gerir frekar lítið úr tillögu landbn. sem birtist í 4. lið brtt. meiri hlutans, því að ég er sammála því að við eigum að fara mjög varlega í þessum efnum vegna þess að íslenskir dýrastofnar eru mjög einangraðir og þar af leiðandi í mikilli hættu fyrir einstökum sjúkdómum sem hafa verið óþekktir hér á landi. Það sem skiptir ekki síður máli er það að kröfur til matvæla eru afar mismunandi eftir löndum og eftir heimsálfum og mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að verjast því að hér komist á neysla á matvælum sem innihalda mikið af aukefnum, rotvarnarefnum, hormónum, litarefnum og öðru slíku. Í því sambandi hef ég kynnt mér þetta töluvert og ég veit að það er allt aðrir staðlar í Evrópu varðandi matvæli en í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa reyndar gagnrýnt Evrópusambandið og talið að reglur þeirra væru duldar viðskiptahindranir en þá er að minnast þess að Danir áttu í málaferlum, fóru í mál til að reyna að verja matvælareglur sínar innan Evrópusambandsins en þeir töpuðu því máli og urðu að leyfa 90 aukefni í matvælum sem höfðu verið bönnuð í Danmörku.
    Þegar Svíar voru að ræða aðildina að Evrópusambandinu var eitt helsta gagnrýnisefni andstæðinga aðildar að Svíar urðu að samþykkja matvæli sem innihéldu miklu meiri aukefni en leyfð höfðu verið í Svíþjóð. Hér er því ekki einfalt mál á ferðinni. Talið er nokkuð víst að ýmsir ofnæmissjúkdómar sem fara mjög vaxandi og einnig krabbamein eigi rætur að rekja til þessara aukefna í matvælum en þessir ofnæmissjúkdómar og vaxandi krabbamein eru fyrst og fremst vestræn fyrirbæri og ber afar lítið á t.d. í þriðja heims löndum. Þetta er atriði sem mér finnst að við eigum að taka mjög alvarlega og reyna að verjast og einmitt að nýta okkur gæði íslenskrar framleiðslu og það hvað þau eru laus við aukefni til þess að sækja út á við því að þar eru möguleikar okkar. Hins vegar vil ég auðvitað taka fram að það skiptir miklu máli hvernig þessi grein og þetta atriði er framkvæmt. Það skiptir auðvitað máli að við séum ekki að beita atriðum eins og þessum sem raunverulegri viðskiptahindrun heldur fyrst og fremst til þess að verja fólk og heilsu fólks og ekki síst barna.
    Þegar þetta mál bar á góma niðri í kaffistofunni fyrr í dag fóru ýmsir að rifja upp erlendan barnamat sem hér var á markaði fyrir nokkrum árum en hefur nú verið bannaður einmitt vegna aukefna. Við stöndum frammi fyrir því að hin norræna hefð hefur verið miklu sterkari varðandi bann við slíkum aukefnum í matvælum og tengist því að Norðurlandaþjóðirnar hafa verið meðal fremstu þjóða í hvers konar umhverfisvernd. Síðan má segja að Evrópusambandið sé næst á eftir þó að það leyfi miklu meira en Norðurlöndin hafa gert. Síðan koma Bandaríkin sem eiga við mikil vandamál að stríða og það er ekki að ástæðulausu sem hvers kyns lífræn framleiðsla er gríðarlega vaxandi í Bandaríkjunum. Það er vegna þess að meðvitað fólk í Bandaríkjunum þorir ekki og vill ekki kaupa þau matvæli sem þar eru á boðstólum handa börnunum sínum vegna hormóna og aukefna. Mér finnst því ástæða til þess að við séum mjög vakandi fyrir þessu atriði en ég vil ítreka að það má ekki og á ekki að beita þessari reglu sem viðskiptahindrun.
    Þá vík ég að því atriði enn einu sinni sem snýr að meðferð og forræði þessara mála. Ég hef margsinnis gert þetta að umræðuefni og get gert það einu sinni enn. Enda þótt ég hafi mikið álit á hæstv. núv. landbrh. og hafi átt við hann gott samstarf þá er ég mjög ósátt við það að þessi mál skuli öll vera á forræði landbrh. Mér finnst þetta ekki eðlilegt og ekki í samræmi við íslenska stjórnsýslu og með 4. lið þeirrar brtt. sem ég var að gera hér að umræðuefni á hæstv. landbrh. meira að segja að fara að hafa eftirlit með matvælaiðnaði og matvælainnflutningi. ( Gripið fram í: Hann er umhvrh. líka.) Já, nú vill svo til að hæstv. landbrh. er líka umhvrh. og málið heyrir undir umhvrh. Það er verkefni Hollustuverndar ríkisins að hafa eftirlit með matvælum og þetta er í hæsta máta óeðlilegt. Ég veit ekki hvers konar rugli er eiginlega verið að koma á í íslenskri stjórnsýslu og menn mega ekki láta svona, að treysta ekki öðrum ráðuneytum fyrir sínum verkefnum bara af því að landbúnaður og innflutningur á landbúnaðarvörum á í hlut. Þetta er algerlega út í hött og ég skora á þann meiri hluta, sem flutt hefur þessar tillögur, að breyta þessu. Það segir hér í þessari tillögu, með leyfi forseta:
    ,,Landbrh. ákveður með reglugerð á hvern hátt haga skuli eftirliti með innflutningi afurðanna, sýnatöku og rannsóknum.``
    Það er ekki yfirdýralæknir, sem heyrir undir hæstv. landbrh., sem á að sjá um þetta matvælaeftirlit. Það hlýtur að vera Hollustuvernd ríkisins sem fer með matvælaeftirlit og við erum einmitt með til meðferðar í hv. umhvn. frv. um matvæli sem tengist einmitt þessu. Ég minni enn á hvers konar stjórnsýslurugl þetta er. Það er í hæsta máta óeðlilegt að landbrh. sé farinn að sýsla með innflutning, tolla, matvælaeftirlit og ég veit ekki hvað ekki heyrir orðið undir hann og þetta gildir ekki þegar innflutningur á öðrum vörum á í hlut.
    Hæstv. forseti. Mjög margar breytingartillögur liggja fyrir við þetta frv. og eins og ég nefndi teldi ég fulla ástæðu til þess að hv. efh.- og viðskn. gæfist tími til þess að fara nánar ofan í þær. Mér hefur ekki gefist tími sjálfri til þess að smíða tillögur við þetta frv. eins og ég vildi sjá það. Við kvennalistakonur eigum eftir að fara ofan í þessar breytingartillögur og taka afstöðu til þeirra. Ég get tekið undir margt sem hér kemur fram og mér finnst að menn eigi að ganga nokkru lengra en hér er gert í því efni að lækka þessa tolla og að sjá til þess að lágmarksinnflutningur eigi sér stað og jafnframt að það verði staðið eðlilega að honum. Ég tek undir það sem hefur komið fram að úthlutun á þessum umframtollkvótum með hlutkesti þegar umsækjendur verða fleiri en einn eða tveir sem eru að slást um tollkvótana, þetta finnst mér afar sérkennileg aðferð sem þarna á sér stað, en það verður þó að nefna að þeir sem koma á fund efh.- og viðskn. gerðu ekki allir athugasemdir við aðferðina þannig að kannski er réttast að láta á það reyna hvernig þetta gefst. En ég get í sjálfu sér líka tekið undir að ekki væri óeðlilegt að fara útboðsleiðina eins og minni hlutinn hefur lagt til og a.m.k. hefði mátt kanna betur hvað það hefur í för með sér.
    Hæstv. forseti. Maður hlýtur að velta því fyrir sér við skoðun á þessu máli hverra hagsmuna er verið að gæta, hverjum er verið að þjóna með þessari útfærslu á samningnum og ég held að við getum fullyrt að ekki er verið að þjóna hagsmunum neytenda með útfærslunni. Ef það er rétt mat sem fram kemur hjá þeim sem hafa lagt mat á samninginn að þessi aðferð muni hafa sáralítil áhrif á verðlag og innflutning er ekki verið að ýta undir viðskipti og það er ekki verið að hafa áhrif á verðlag. En forstjóri Þjóðhagsstofnunar sagði einmitt á fundi efh.- og viðskn. að hann gæti ekki séð að þessi útfærsla mundi setja neinn þrýsting á verðlag. Þegar hann bar saman þá útfærslu sem Þjóðhagsstofnun gerði 1992 eins og þeir bjuggust við að málið yrði útfært þá og svo þessa aðferð hér er alveg ljóst að áhrifin eins og menn reiknuðu þau fyrir þremur árum verða miklu minni.
    Er verið að þjóna hagsmunum íslensks landbúnaðar? Ég dreg það stórlega í efa. Ég dreg stórlega í efa að það þjóni hagsmunum íslensks landbúnaðar að reisa í kringum hann þessa virkisveggi sem hér er enn einu sinni verið að reisa þegar við vitum öll að það þarf að fara út í uppstokkun á landbúnaðinum. Það þarf að fara í rækilega skoðun á stöðu hans, ekki bara stöðu sauðfjárbænda heldur líka mjólkurframleiðslunnar og garðyrkjunnar. Afar athyglisverðar upplýsingar komu fram í máli Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, um framleiðni í íslenskum landbúnaði en hún hefur dregist mjög mikið saman á undanförnum árum og dregist aftur úr öðrum greinum. Þær upplýsingar komu fram hjá honum að framleiðni í mjólkurframleiðslu og -vinnslu hefur lækkað um 30--35% á undanförnum 20 árum og framleiðni í sláturiðnaði hefur staðið í stað í 20 ár en var þó lág fyrir. Þetta finnst mér vera afar athyglisverðar tölur og segja okkur að við þurfum virkilega að fara ofan í ástandið í íslenskum landbúnaði. Við vitum að þar hefur auðvitað verið fjárfest um of. Sláturhúsum hefur ekki fækkað. Það er rétt núna sem mjólkurbúum er að fækka og kostar mikil átök. Auðvitað kostar þetta allt mikil átök þegar er verið að skera niður og stokka upp en ef svo heldur fram sem horfir endar þetta með ósköpum. Ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. um þetta mál og reyndar í umræðum um breytingar á búvörulögunum að það verður að finna leið til þess að skapa vinnu fyrir bændur þannig að þeir geti hætt framleiðslu og hægt sé að reka búskap hér af einhverju viti. Ég held að sé ekki af hinu góða að nýta ekki þetta tækifæri til þess að skapa aukinn þrýsting á breytingar í íslenskum landbúnaði sem bændur verða auðvitað að stýra sjálfir.
    Hæstv. forseti. Ég lýsti því hér áðan að útfræsla ríkisstjórnarinnar á GATT-samningnum hefði valdið mér miklum vonbrigðum. Mér finnst hún ekki vera í anda samningsins þó að meiri hlutinn hafi aðeins reynt að draga úr því. Ég get tekið undir einstakar breytingartillögur meiri hlutans og eins minni hlutans. Ég ætla að sleppa því tímans vegna að fara ofan í einstaka tillögur. Mér finnst að meginatriðið og það sem skiptir mestu sé að standa við gerða samninga og að við útfærum okkar hlið með þeim hætti að við getum haft af því sóma og að við stöndum við samninginn og við nýtum okkur þá möguleika sem hann gefur. Við skulum ekki gleyma því að við erum ekki bara að tala um innflutning á landbúnaðarvörum Við erum líka að tala um kost á útflutningi og ég vil jafnframt beina því til ríkisstjórnarinnar að kanna fleiri hliðar á þessum samningi, m.a. það sem snýr að vefnaði eins og vefnaðarvöru. Eins og ég nefndi við 1. umr. eru Íslendingar algerlega utan þess hluta samningsins og ég kann reyndar ekki skýringu á því hvers vegna svo er en ég skora á hæstv. landbrh. að kanna hvort ekki felast möguleikar t.d. fyrir íslenskan ullariðnað í þeirri hlið samningsins. Ráðuneytisstjóri forsrn. upplýsti mig um það að menn hefðu á sínum tíma talið að þessi hluti samningsins sem er reynar mjög stór og viðamikill þáttur í Úrúgvæ-lotunni eða þeim samningi sem þar var til. Það er mjög stór hluti samningsins sem fjallar um vefnaðarvöru og mér kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir að sá hluti samningsins skuli ekkert koma okkur við og ég spyr: Er þar ekki hluti sem við getum nýtt okkur?
    Hæstv. forseti. Það er ljóst að þessi samningur og Alþjóðaviðskiptastofnunin og hennar hlutverk er allt að skríða af stað og það liggur á því að við komum okkar útfærslu í lög. En það er ekki sama hvernig það er gert og eins og ég hef nefnt þá treysti ég mér og við kvennalistakonur, til þess að styðja ákveðna hluta þessa frv., en þegar á heildina er litið þá er ég afar ósátt við þessa útfærslu.