Mótmæli til breskra stjórnvalda gegn förgun olíupallsins Brent Spar

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 21:42:03 (717)


[21:42]
     Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um mótmæli til breskra stjórnvalda gegn förgun olíupallsins Brent Spar. Þetta er 32. mál þingsins á þskj. 36 og er flutt af umhvn. Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að mótmæla harðlega þeirri ákvörðun breskra stjórnvalda að veita Shell-olíufélaginu leyfi til að sökkva olíupallinum Brent Spar með margvíslegum eiturefnum í Atlantshaf og gerir kröfu til að leyfið verði afturkallað þegar í stað.``
    Í greinargerð með þáltill. kemur m.a. fram að í febrúar 1995 veittu bresk stjórnvöld Shell-olíufélaginu leyfi til að sökkva úreltum olíupalli, sem ber heitið Brent Spar, í hafið milli Skotlands og Íslands. Áætlað er að vinna verkið á næstu dögum. Þessi ákvörðun breskra stjórnvalda er í ósamræmi við nútímaviðhorf til umhverfisverndar. Einnig brýtur hún í bága við ákvæði um anda alþjóðasamninga. Um borð í olíuborpallinum er að finna umtalsvert magn eiturefna sem ljóst er að eru umhverfinu hættuleg. Þar á meðal eru PCB og þungmálmar fyrir utan olíuefni og lággeislavirk efni.
    Við skoðun þessa máls verður að hafa í huga að innan skamms þarf að úrelda fjölda olíupalla sem nú eru starfræktir í Norðursjó. Mundi áætluð förgun Brent Spar í hafið skapa viðsjárvert fordæmi. Jafnframt væri með því verið að gera að engu það starf sem farið hefur fram á alþjóðavettvangi til að koma í veg fyrir mengun sjávar. Í stað förgunar í sjó ber að draga úrelta olíupalla að landi og eyða þeim þar og endurvinna efni þeirra. Þannig hafa mörg hundruð olíupallar í Mexíkóflóa verið dregnir að landi til förgunar, þar af ekki færri en 20 í eigu Shell. Svipaðar hugmyndir eru uppi um förgun norskra olíupalla.
    Íslendingar sem byggja efnahag sinn á fiskveiðum gera kröfu til að ekkert verði aðhafst sem spillt geti vistkerfum Norður-Atlantshafs. Því hlýtur Alþingi að mótmæla harðlega áformum um förgun Brent Spar, sem og annarra olíupalla í hafið.
    Ég legg svo til, hæstv. forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.