Mótmæli til breskra stjórnvalda gegn förgun olíupallsins Brent Spar

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 21:44:56 (718)


[21:44]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það vekur mikla undrun aftur og aftur hvernig bresk stjórnvöld nú hin síðari ár leyfa sér að umgangast alþjóðlegar samþykktir í sambandi við verndun umhverfis og brjóta a.m.k. gegn anda þeirra og í raun gegn ákvæðum þeirra einnig og storka nágrönnum sínum við Norður-Atlantshaf, eins og við höfðum allt of mörg dæmi um og Alþingi Íslendinga hefur vakið athygli á og gert ályktanir gegn. Hér er komið að máli sem er síst betra heldur en sitt hvað af því sem við höfum verið að fjalla um af þessum toga síðasta áratuginn. Ég minni á ályktun Alþingis, líklega 1987, varðandi endurvinnslustöðina í Dounreay, endurvinnslustöð á kjarnorkueldsneyti í Norður-Skotlandi, sem enn er í gangi. Síðan hefur bæst við endurvinnslustöðin nýja og stækkaða við Sellafield, kennd við THORP, sem Alþingi hefur einnig látið til sín taka eins og fjölmargar þjóðir við norðanvert Atlantshaf, ekki síst Norðurlöndin sem hafa ítrekað reynt að hafa áhrif á bresk stjórnvöld til þess að veita ekki starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnsluna, en þau mótmæli og þær óskir og viðræður við bresk yfirvöld báru því miður engan árangur.
    Hér erum við komin að máli sem sannarlega gæti dregið dilk á eftir sér ef það verður niðurstaðan, ef það verður framhald á af hálfu breskra stjórnvalda og aðrir kynnu að sækja í sama farið ef þeim líðst það sem nú er lagt upp með, að farga olíupöllum sem skipta hundruðum, eins og hér hefur verið rakið af framsögumanni tillögunnar, í Norðursjónum og með þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem slíkt hefur fyrir umhverfi sjávar og lífríki þar á meðal, vegna þeirra efna sem þarna er að finna, fyrir utan það að auðvitað ætti það að vera með öllu úr sögunni að farga skipsskrokkum, hvað þá stórtækum mannvirkjum af þessum toga, eins og þessir olíupallar eru.
    Ég tel það því mjög góðra gjalda vert að það tókst um það gott samkomulag í hv. umhvn. að flytja þessa tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir og er viss um það að hún mun hljóta góða afgreiðslu í þinginu. Hér er í raun verið að styðja við stefnu af hálfu Alþingis, stefnu sem hæstv. umhvrh. lét koma fram skriflega til starfsbróður síns í Bretlandi áður en þessi tillaga var flutt og ég tel sjálfsagt að geta þess vegna þess að það er mjög góðra gjalda vert hversu fljótt hæstv. umhvrh. brást þar við. En það breytir því ekki að samþykkt Alþingis í máli sem þessu hefur sérstakt gildi, eykur þungann og auðveldar íslenskum stjórnvöldum að flytja sitt mál og geta vísað í samþykktir þingsins að þessu leyti.

    Nýafstaðinn er fundur umhverfisráðherra Norðursjávarríkjanna sem hittust um helgina í Esbjerg í Danmörku og fjölluðu þar á meðal um umhverfi Norðursjávar og raunar fyrst og fremst um umhverfi Norðursjávar því að það voru umhverfisráðherrar þessara landa sem þarna voru saman komnir. Á þessum fundi sem er lokið náðist árangur á vissum sviðum þrátt fyrir andstöðu Breta og breskra stjórnvalda. Hvað varðar það mál sem hér er til umræðu þá sameinuðust langflestir í því að fordæma þetta framferði, gagnrýna það harðlega. Þar var ekki síst framarlega í flokki sænski umhvrh. Anna Lind, sem þótti kveða mjög fast að orði í þessum efnum, og þykir okkur vænt um það þegar Svíar beita sér með þeim hætti því að því miður er það ekki alltaf svo að þeir séu fremstir í flokki í sambandi við umhverfismál og einkum þegar kemur að kjarnorkunni og minni nú á það að hver virðist vera helst til sjálfum sér næstur í sambandi við málflutning af þessum toga. En sá sem leiddi þessa ráðstefnu, danski umhvrh. Sven Åken, sagði m.a. í sínum málflutningi, að þetta gæti með engum hætti fallið undir varúðarregluna sem reynt er að ýta fram á alþjóðlegum vettvangi, að menn gæti sín og hafi valið fyrir neðan sig í málum sem þessum.
    Það ætti ekki að vera ofætlan að gera þá kröfu til þeirra sem standa fyrir olíuvinnslu og þar á meðal velmegandi, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, olíurisa eins og Shell-olíufélagsins, að stunda nútímaleg vinnubrögð að þessu leyti með því að draga þessi mannvirki að landi, endurvinna þau og koma þeim fyrir með eðlilegum hætti. Það er margt sem styður þá stefnu, ekki aðeins umhverfissjónarmið heldur einnig atvinnusjónarmið í strandríkjum, nýting efnis og annars þess háttar og að koma í veg fyrir mengun.
    Á fundinum í Esbjerg um helgina tókst gott samkomulag um það að hætta innan einnar kynslóðar, það er nú reyndar ekki meiri hraði á málinu, innan 25 ára, að útiloka með öllu að varpa eða leiða þrávirk eiturefni og hættuleg efni af þeim toga í hafið frá landstöðvum. Þannig að þar náðist einnig góður árangur.
    Að því er snertir afstöðu Norðmanna þá voru þeir ekki alveg eins brattir á þessum fundi, t.d. Thorbjørn Berntsen, umhverfisráðherra Noregs, eins og menn hefðu kosið. Einnig horfandi eitthvað á sína hagsmuni, en gengu þó lengra eða voru með allt aðra stefnu uppi heldur en Bretarnir sem gengu þar lengst að segja að þeir mundu skoða málið frá einu tilviki til annars að því er varðar borpalla og lofuðu sem sagt engu í þessum efnum. Norðmenn nefndu aðallega að þeir áskildu sér rétt til þess að sökkva pöllum hugsanlega sem innihéldu steinsteypu og annað þess háttar.
    Við skulum vona að sú ályktun sem hér hefur verið mælt fyrir verði til þess að við leggjum myndarlegt orð í belg í gagnrýni á framferði Breta og að hegðun af þessu tagi verði fyrr en seinna úr sögunni á alþjóðavettvangi.