Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:17:44 (721)


[22:17]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals og skýringar hans á því hvers vegna hann hefði þrátt fyrir allt ekki skrifað undir tillögur og nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara. Það gerði hann með þeim rökstuðningi að það væri hans mat að breytingartillögur meiri hlutans, sem fram komu undir lok umfjöllunarinnar, dygðu til þess að auka líkur á innflutningi undir lágmarksmarkaðsaðgangi. ( EgJ: Hann sagði nú meira en þetta.) Nefndi til sögunnar egg, sem trúlega verður ekki innflutningur á einfaldlega vegna þess að þar mun verða beitt heilbrigðisákvæðum, en síðan osta og svínakótilettur jafnvel þótt svínakótilettur yrðu samkvæmt hans eigin dæmi ögn yfir innanlandsverðinu eins og það er.
    Miðað við það sem ég þekki til skoðana og sjónarmiða hv. þm., og reyndar kom fram í hans ræðu, þykir mér hann heldur lítillátur og ekki gera miklar kröfur því á sama tíma sagði hv. þm. að hann vildi sérstaklega hvetja bændur til dáða til þess að búa sig undir samkeppni. En það er nákvæmlega það sem þeir geta ekki gert bundnir á höndum og fótum af gildandi kvótakerfi þar sem þeir eru annars vegar styrktir til að auka framleiðslu en hins vegar bannað að gera það með framleiðslutakmörkunum. Það er staðreynd að framleiðnin hefur farið minnkandi og að í óbreyttu kerfi mun það halda áfram. Það er einmitt nákvæmlega þetta sem vantar í tillögur stjórnarliða. Því það væru þó alla vega einhverjar málsbætur fyrir því viðhaldi á 97% markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu, sem hér er verið að gera ráð fyrir, ef fyrir lægju einhverjar tillögur, einhverjar yfirlýsingar, einhver stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem bindur bændur á höndum og fótum.