Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:20:21 (722)


[22:20]
     Hjálmar Jónsson :
    Herra forseti. Hér er fjallað um stórt mál, viðskipti milli landa og útfærslu okkar Íslendinga á GATT- samningnum. Útfærslu okkar á GATT-samningnum kallaði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson blett á þjóðinni í ræðu sinni og segir að ekki sé sæmandi íslenskri þjóð að stilla sig af í samningunum um Alþjóðaviðskiptastofnunina eins og við gerum á hinu háa Alþingi á þessu sumri. En við erum að gera nákvæmlega það sama og aðrar þjóðir. GATT-tilboð Íslendinga og fyrirkomulag er mjög svipað tilboði Norðmanna. Meginhluti máls fyrrnefnds hv. þm. og reyndar fleiri úr stjórnarandstöðu snerist um það að nú væri tækifæri til að gera breytingar í íslenskum landbúnaði, ná niður verði til hagsbóta fyrir neytendur. Samningurinn um GATT er ekki hugsaður til þess að vera stjórntæki hjá okkur í landbúnaði sérstaklega. Honum er ekki sérstaklega ætlað að valda röskun byggða í aðildarlöndum og þó er vissulega ljóst að hann dregur úr landbúnaðarframleiðslu á harðbýlli svæðum og þar með hjá okkur auðvitað. Vissulega verða breytingar vegna samningsins. Garðyrkjubændur hafa áhyggjur, blómaræktendur og bændur í hefðbundnum greinum einnig og tek ég þar undir orð hv. þm. Péturs Blöndals að við förum varlega og hvetjum þá til dáða að laga sig að því sem fram undan er.
    Herra forseti. Þess hefur lítt verið getið að Íslendingar flytja inn meira magn af landbúnaðarvöru en flestar aðrar þjóðir, nánast öll kornvara landsmanna er flutt inn. Það sem mér heyrist að fundið hér er einkum það að ekki skuli vera þjarmað að bændum landsins eins og þeir búi ekki við nógu rýran kost. Það er því miður rétt að ytri umgerð íslensks landbúnaðar hefur ekki breyst til batnaðar nema í fáu, því miður. Minnkandi markaður og minni sala hefur orsakað það að minna þarf að framleiða og með hinum flata niðurskurði hefur verið óhagrætt, ef svo má segja, á búunum sjálfum. Bústærðin verður óhagkvæmari, bændur geta ekki nýtt húsakost sinn, tækjakost, ræktarland og beitiland, framleiðnin sem sagt minnkar.
    Við höfum rætt á sumarþinginu töluvert mikið um sjávarútveg, einkum um krókaveiðar. Hér hafa hv. þm. komið og látið liggja að því að flatar kvótaskerðingar séu slæmar, þeir sem eigi styst á miðin eigi að njóta þess í hærri kvóta jafnvel. En hvað þá með þau héruð sem búa við einhæfni í atvinnulífi fyrir utan landbúnað? Á öðrum vettvangi, þ.e. við annað tækifæri er fyllilega orðin þörf á að endurskoða flatar skerðingar í íslenskum landbúnaði, byggðanna og landsins vegna.
    Hér hefur verið talað um ofverndun íslensks landbúnaðar. Hv. þm. Ágúst Einarsson vitnaði til orða forstjóra Þjóðhagsstofnunar að íslenskur landbúnaður hefði gott af meira aðhaldi. Vissulega heyrði ég nefndan mann segja þetta og hann sagði meira. Þórður Friðjónsson sagði að hann reiknaði með að við mitt tímabilið yrði markaðshlutdeild erlendrar búvöru á Íslandi 3--4% og yrði u.þ.b. 6% við lokin, þ.e. árið 2000, það voru hans orð á fundi landbn. Sem áður sagði ef stjórnvöld, Alþingi, vill þjarma að bændum og innlendri matvælaframleiðslu þá þarf að setja sérstök lög um það. Það er pólitísk ákvörðun að búa atvinnugreinum í landinu skilyrði. Og ég á erfitt með að trúa því, herra forseti, að ábyrgir aðilar í okkar nágrannalöndum vilji feigan landbúnað sinna þjóða. Íslenskir bændur hafa haft svo mikið aðhald á síðustu árum að þeir eru við það að drepast upp til hópa og nú vilja ýmsir nota tækifærið og eyðileggja möguleika íslenskrar matvælaframleiðslu með innflutningi á ríkisstyrktum, niðurgreiddum landbúnaðarvörum annarra þjóða, þ.e. þjóða sem eru ekki komnar eins langt og Íslendingar í að laga sig að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
    Við stöndum við okkar hlut og fyllilega það. Við höfum lagt niður útflutningsbætur, við höfum dregið úr innanlandsstuðningi, en af hálfu Neytendasamtaka, þeirra manna þar sem telja sig talsmenn landsmanna sem neytenda, finnst mér einhvern veginn að þeir hafi ekki alveg skilið GATT. Þannig talaði áðan hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir. Samningurinn hefði því miður ekki áhrif og mundi ekki þvinga okkur til að breyta landbúnaðarstefnunni.
    Herra forseti. Okkur hefur ekki tekist að selja lambakjöt sem skyldi og enn er samdráttur fyrirsjáanlegur og vissulega í fleiri greinum. Verð hefur lækkað og bændur hafa tekið á sig þær verðlækkanir. Ég skil ekki hvernig fólk getur talið landsmönnum til hagsbóta að ætla að rústa sauðfjárræktinni. Hvar eru atvinnutækifærin sem eiga þá að koma í staðinn og hver er sá iðnaður sem á að koma í staðinn fyrir úrvinnslugreinarnar? Því miður er atvinnuleysið þegar nokkurt í landinu.
    Hverra hagsmuna er verið að gæta, spurði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og svaraði sér sjálf: Ekki neytenda. Hún efast líka um það að tollmúrar séu til hagsbóta fyrir landbúnaðinn, sú sama tollavernd sem aðrar aðildarþjóðir að GATT setja. Hv. þm. taldi að markaðurinn gæti breytt landbúnaðarstefnunni ef ekki væru tollar. Þetta þætti nú hrein og ómenguð frjálshyggja á sumum öðrum bæjum er ég hræddur um. En hverra hagsmuna er verið að gæta með GATT? Mitt svar er að það er verið að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Þess vegna erum við að stilla okkur af í kerfinu. Með lagasetningu okkar á hinu háa Alþingi fer af stað þróun, aðlögun og árið 2000 lýkur þessum áfanga. Hver verður næsti áfangi? Við getum ekki svarað því núna. Við vitum það ekki. Það fer eftir aðstæðum. Fólki fjölgar í heiminum. Hefur e.t.v. orðið alvarlegur fæðuskortur árið 2000? Verður eftirspurn meiri eftir landbúnaðarvörum? Hvernig næsti áfangi GATT- samningsins lítur út fer eftir reynslunni af þessum, en við skulum fara varlega í breytingarnar eins og aðrar þær þjóðir sem eru aðilar að GATT. Hitt vil ég ræða við annað tækifæri hvernig við á næstu árum gerum íslenskan landbúnað hagkvæmari með aukinni framleiðni og með minni milliliðakostnaði, milliliða milli framleiðenda og neytenda.