Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:49:44 (729)


[22:49]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. vitnaði í bókun í ríkisstjórn frá 10. jan. 1992 um það að ríki sem afnæmi útflutningsbætur áskildi sér rétt til þess að beita magntakmörkunum í innflutningi á vörum sem útflutningsbætur hefðu verið afnumdar á. Mikið rétt. Menn áskildu sér rétt, lýstu þessu yfir, en niðurstaðan er einfaldlega sú að það er óheimilt samkvæmt GATT-samningnum. Það er óheimilt með öllu að beita magntakmörkunum.
    Sama máli gegnir um það sem hv. þm. nefndi að því er varðaði þá fjárhæð sem mundi sparast við afnám útflutningsbóta, að áskilja sér rétt til þess að leggja það sem álag á tollígildi. Tollígildi eru einfaldlega reikningsdæmi og skilgreind sem hámarksheimild til tollálaganna og þessar hugmyndir hv. þm. sem ganga nú aftur og hann hefur áður birt Alþingi með óskum um 50% álag ofan á t.d. verðjöfnunartolla fá einfaldlega ekki staðist. Það eina sem væri rétt eru hinar grænu greiðslur. Það er okkur í sjálfsvald sett og það er ein af tillögum sem fram koma af hálfu stjórnaandstæðinga að afnema beingreiðslur framleiðslutengdar og beina þeim í vaxandi mæli í græna boxið, þ.e. að hafa greiðslurnar óframleiðslutengdar.
    Hv. þm. sagði að enginn hefði minnst á verðlækkun á afurðum íslensks landbúnaðar og nefndi töluna 20%. Ég ætla hvorki að staðfesta né rengja þá tölu, en vek hins vegar athygli hv. þm. á eftirfarandi spurningum: Þrátt fyrir þessa lækkun, hvað er að gerast á íslenskum neytendamarkaði að því er varðar þessar vörur? Hvernig stendur á því, þrátt fyrir þessa lækkun, að það er samdráttur í sölu, það er minnkandi eftirspurn og aðrar staðkvæmdarvörur eru í vaxandi mæli að taka yfir? Hvernig stendur á því að hagur bænda fer stöðugt versnandi? Það er vegna þess að við því verði sem þessar vörur eru til sölu á þá seljast þær ekki og að kostnaðurinn í kvótakerfinu, sem hv. þm. ver alla daga, er allt of hár.