Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:53:43 (731)


[22:53]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta efh.- og viðskn. vil ég koma hér að athugasemdum vegna þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað og minnihlutaálitum og brtt. Ég vil byrja á að segja það að málflutningur hjá sumum hv. þm. finnst mér hafa verið nokkuð sérstakur. Þannig hefur því verið haldið fram að meginstefna frv. sé að koma í veg fyrir innflutning á landbúnaðarvörum og að brtt. meiri hlutans séu ófullnægjandi. Það er hnýtt í sjálfstæðismenn fyrir að nota ekki þetta tækifæri til breytinga í landbúnaðarframleiðslu og tryggja samkeppni.
    Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson benti m.a. á þessi atriði, en honum var reyndar einnig tíðrætt um nýafstaðna kosningabaráttu og kosningar og yfirlýsingar manna þar. En það var engum blekkingum beitt af hálfu sjálfstæðismanna í þessu máli. Það er alveg óþarfi að gera meðferð þessa máls tortryggilega og það er reyndar furðulegt þar sem Alþfl. kom fullkomlega að þessu máli um GATT-samninginn og allri meðferð þess. Og varðandi gagnrýni á forræði landbrh. að málinu þá var það samþykkt í þáltill. á síðasta þingi og allir flokkar stóðu að þeirri tillögugerð, eins og raunar hv. þm. Egill Jónsson gat um hér áðan. Það er því hæpið að koma með slíka gagnrýni eftir á þar sem um það hafði náðst pólitísk sátt á Alþingi.
    Hv. þm. hafa talað um tilefni til breytinga á starfsumhverfi landbúnaðar. GATT-samningurinn og þetta frv. gefur okkur einmitt tækifæri til þess, en það þarf aðlögunartíma. Það hafa allir viðurkennt í þessari umræðu að landbúnaðurinn á við gríðarleg vandamál að stríða, enda hafa ýmsir hv. þingmenn sérstaklega tekið fram sterka fyrirvara á því að þeir vilja ekki opna fyrir hömlulausan innflutning á landbúnaðarvörum. Þeir hafa heldur ekki haft þær væntingar að GATT eða þetta frv. mundi tryggja innflutning á lægra verði. Hitt er aftur annað mál að vera má að aðilar úti í þjóðfélaginu hafi haft aðrar væntingar í þessu máli og það er e.t.v. skiljanlegt. Þetta endurspeglast einna helst í þeim umsögnum sem bárust til efh.- og viðskn.
    Það er eins og ég sagði afar skiljanlegt að menn vilji lækka verð á matvælum hér á landi. Sem betur fer hefur matvælaverð lækkað, m.a. fyrir tilstuðlan síðustu ríkisstjórnar, en þetta frv. breytir því ekki í sjálfu sér hér og nú. Hins vegar gefst tækifæri til innflutnings sem mun væntanlega leiða til samkeppni og fjölbreyttara vöruúrvals. Með leyfi virðulegs forseta langar mig til þess að vitna til orða hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar við 1. umr. þessa máls er hann sagði:
    ,,Það þarf að koma fram í þessum umræðum, virðulegi forseti, að það hefur enginn haldið því fram eða byggt upp þær væntingar að stofnaðildin að GATT eða þetta frv. mundi tryggja innflutning á lægra verði. Því hefur enginn haldið fram og enginn byggt upp þær væntingar vegna þess að það er skuldbinding við bændur um að tryggja þeim vernd í upphafi. Deilan snýst ekkert um það. Hin stóra spurning er sú hvort það verður yfirleitt nokkuð af innflutningi.``
    Það er atriði sem við veltum einmitt fyrir okkur í hv. efh.- og viðskn. og því kom fram þessi brtt. frá meiri hlutanum.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði m.a. sérstaklega um þessa brtt. meiri hlutans varðandi heimildarákvæði landbrh. til að tryggja að af lágmarksaðgangi verði. Ég hygg að það hafi komið fram er ég mælti fyrir nál. meiri hlutans að þetta er skilningur okkar nefndarmanna og tilgangur með flutningi brtt., eins og raunar hv. þm. Pétur Blöndal gat um hér áðan.
    Það má vel vera að hv. þm. hefðu viljað sjá meiri breytingar í þessu frv. og að það hefði haft í för með sér meiri breytingar. Það má líka vera að það þurfi að endurskoða ýmis ákvæði í ljósi reynslunnar því að það er auðvitað ekki allt ljóst í þessu máli. Ég vil bara ítreka það fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar að við teljum að þetta frv. feli í sér málamiðlun og það hafi tekist að samræma með viðunandi hætti þau meginsjónarmið sem uppi eru í málinu.
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú að víkja nokkuð að þeim nál. minni hlutans og brtt. sem fyrir liggja. Aðalatriði þessa máls er það að með frv. er lagður grunnur að nýju viðskiptakerfi með landbúnaðarvörur. Sú mikla breyting er í raun miklu meira virði en það hvort einstaka tolltaxtar eru hærri eða lægri en einhverjum kann að þykja æskilegt. Það er því ánægjulegt að heyra í þessum umræðum að talsmenn allra flokka virðast sammála um þetta meginatriði. Engar raddir hafa heyrst þess efnis að óráðlegt sé eða rangt að stíga þetta skref eða að rétt hefði verið að gera breytingarnar þannig úr garði að jafngilt hefði innflutningsbanni og skömmtunarkerfi, eins og vissulega hafa heyrst raddir um og mögulegt hefði verið innan þess formlega ramma sem GATT-samningurinn setur.
    Ágreiningur sá sem birst hefur í þessum umræðum hefur ekki snúist um þetta meginatriði frv. og er það vel. Ágreiningurinn er hins vegar um það hversu langt skal farið. Enn fremur er nokkur ágreiningur um einstaka fyrirkomulags- og framkvæmdaratriði. Brtt. minni hluta efh.- og viðskn. draga mjög skýrt fram þann ágreining sem að framan getur og eðli hans. Megintillaga 1. minni hluta er sú að lækka almenna tolla um rúmlega 20% frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Tillaga 2. minni hluta er sú að ganga út frá tollum frv., en láta þá lækka um rúmlega 15% á næstu fimm árum. Hér er því ekki um að ræða grundvallarágreining við frv. sem miðar við að almennir tollar leiði til um 20% hærra verðs á innfluttri vöru. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir tollvernd fyrir hina innlendu framleiðslu, en tillögurnar greinir á um hversu mikil hún á að vera. Vissulega er það álitamál og reynslan ein fær úr því skorið hver áhrifin verða. Með tilliti til þess að með frv. er verið að taka upp hér á landi nýtt kerfi og gerbreytt frá því sem verið hefur, verður að teljast rétt að fara hóflega af stað en þrepa sig síðan áfram í ljósi þeirrar reynslu sem fæst. Á það skal bent að Alþingi hefur það í hendi sér á hverjum tíma að breyta þessum tollum eins og öðrum og tel ég rétt og eðlilegt að tollar þeir sem frv. fjallar um verði endurskoðaðir að nokkrum tíma liðnum þegar reynsla er fengin.
    Önnur megintillaga minni hluta efh.- og viðskn. er að lækka verulega tolla á svokallaðan lágmarksmarkaðsaðgang með þeim rökum að tillaga meiri hlutans sé ófullnægjandi til að mæta þeirri gagnrýni að ekki geti orðið af innflutningi þessum vegna hárra tolla. Þetta mat þeirra er ekki rétt. Brtt. meiri hlutans um lækkun tolla á lágmarksaðgang getur haft veruleg áhrif. Sýna má fram á það með dæmum að vara, svo sem ostur, sem að óbreyttu hefði verið dýrari innfluttur en innlendur, miðað við öll líkleg innflutningsverð, verður með brtt. ódýrari en innlend framleiðsla, jafnvel þótt innkaupsverðið sé allt að tvöfalt hærra en viðmiðunarverð frv. Vitað er að hægt er að kaupa ost bæði í Evrópu og Ameríku á lægra verði en hér um ræðir. Hið sama gildir um ýmsar aðrar vörutegundir. Þannig má benda á eftirfarandi dæmi:
    Dæmi 1. Osta má kaupa erlendis á um það bil 200 kr. kg. Innlent heildsöluverð er um 445 kr. kg, verð með lágmarksaðgangstolli yrði um 570 kr. kg, verð með 75% magntolli yrði um 522 kr. kg og verð með 50% magntolli yrði um 415 kr. á kg.
    Dæmi 2. Svínakjöt keypt og það er samanberdæmi Hagkaups, á um 160 kr. kg. Innlent heildsöluverð 364 kr. kg, verð með lágmarksaðgangstolli, þ.e. 32%-reglan, 440 kr. kg, verð með 75% magntolli 430 kr. kg og verð með 50% magntolli 340 kr. kg.

    Eins og þessi dæmi sýna er ekki rétt að ganga lengra í þessu efni að sinni. Ekki ætti að vera keppikefli fyrir talsmenn minni hlutans að hafa tolla á lágmarksaðgang lægri en svo að innflutningur náist.
    Önnur atriði í tillögum minni hlutanna snúa að formlegum atriðum, svo sem verkefnaskiptingu milli ráðherra og framkvæmdaratriðum. Í þessum efnum endurspeglar frv. fyrirkomulag sem sátt er um milli handhafa framkvæmdarvaldsins og hefur ekki verið með nægjanlegum rökum sýnt fram á nauðsyn þess að breyta því.
    Virðulegi forseti. Ég hef í máli mínu sýnt fram á að ekki standa rök til þess að fallast á brtt. minni hlutanna. Ég hef jafnframt bent á að talsmenn allra flokka eru sammála um meginatriði þessa frv., þ.e. að koma hér á tollstýrðu innflutningskerfi í stað hafta. Sá mikilsverði árangur má ekki gleymast eða glatast í ágreiningi um minni atriði. Ég ítreka því tillögur meiri hlutans um breytingar og legg til að frv. verði vísað til 3. umr. að þeim gerðum.