Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:04:52 (732)


[23:04]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. sagði: ,,Ekki beittu sjálfstæðismenn blekkingum í kosningabaráttunni út af þessu máli.`` Má ég minna hv. þm. á að hæstv. samgrh., hæstv. fyrrv. landbrh., vitnaði sérstaklega í kosningabaráttunni um það að ekki vekti það fyrir honum eða fyrir Sjálfstfl. að grípa til tolla sem samkvæmt skilgreiningu útiloka innflutning, þ.e. ofurtolla. Sei sei, nei. Þetta sagði hann gegn betri vitund, enda var það vitað að þetta var meginsjónarmið hæstv. fyrrv. landbrh. í þeirri nefnd fimm ráðuneyta sem að málinu vann. Enda er það svo að því er varðar frv. sjálft að meginstefna þess varðandi 97% markaðshlutdeild er að koma í veg fyrir innflutning. Það eru ekki mín orð, það eru orð allra þeirra sem hv. efh.- og viðskn. fékk umsagnir hjá eða gaf kost á að skýra sjónarmið sín.
    Forræði í málinu er að sjálfsögðu minni háttar mál, en það samkomulag sem gert var í tíð fyrrv. stjórnarflokka var byggt á ákveðnum forsendum og á rætur að rekja til ársins 1993 og var háð skilyrði um ráðgjafarnefnd og úrskurðarrétt ef upp kæmi ágreiningur til ríkisstjórnar. Þetta hefur verið þurrkað út. Það samkomulag er ekki fyrir hendi lengur. Við erum hér með nýja ríkisstjórn þar sem heldur er ekki flokkur í ríkisstjórn sem gætir hagsmuna neytenda, svo að málið er í allt, allt öðrum farvegi.
    Það er að sjálfsögðu alrangt mat að hér sé um að ræða minni háttar ágreiningsmál vegna þess að meginstefnan, sú að hindra innflutning með ofurtollum er aðalatriðið. Að því er varðar spurninguna um lágmarksmarkaðsaðganginn, þá leggja hv. stjórnarsinnar allt of mikið í þessa brtt. sína. Hún er skilyrt, hún er valkvæð, hún er heimildarákvæði og hún byggir á gömlu forsendu Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þ.e. það má kannski grípa til hennar ef ekki er nægilegt framboð á innlendum markaði fyrir osta. Hvenær verður það? Og hvenær var það að landbrh. Framsfl. nýtti sér slíkar heimildir?