Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:33:13 (734)


[23:33]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. hafði uppi góð orð um vilja sinn til þess að breyta landbúnaðarstefnunni sem er merkileg yfirlýsing út af fyrir sig og verður fylgst með efndum. Hann lýsti einnig yfir vilja sínum að reyna að stuðla að sátt milli bænda og neytenda, betri en verið hefur hingað til. Ég vil gjarnan að hæstv. landbrh. njóti velvildar vafans. Ég get hins vegar ekki að því gert að mér þykir byrjunin ekki lofa góðu þegar fyrsta frv. er um að fresta ákvörðun um greiðslumark í stað þess að gefa skilmerkilega til

kynna hvernig ráðherrann hyggst leiða bændur út úr fátæktargildru einokunarkerfisins. Í annan stað er hin tillagan að taka á ný upp útflutningsbætur sem er óskynsamlegasta form á stuðningi við landbúnað sem hugsast getur og vandfundin og reyndar ekki finnanleg rök fyrir því.
    Til þess að stuðla að sátt milli bænda og neytenda hefði hæstv. landbrh. gjarnan mátt gera það í undirbúningi þessa máls með því að hafa taumhald á þeirri sígildu óbilgirni landbúnaðarkerfisins í garð neytenda sem birtist í því að undirbúa svona frv. án alls samráðs við samtök neytenda, án nokkurs samráðs við viðskiptaaðila sem eiga við þetta að búa og með því að fara einhliða algerlega eftir málsvörum og hagsmunavörslumönnum þessa einokunarkerfis.
    Það er mikill misskilningur að það sé mótsögn í því fólgin að vilja gefa landbúnaðinum umsamda vernd í upphafi, en jafnframt stuðla að innflutningi. Það er engin mótsögn í því fólgin. Þvert á móti verða engin skref stigin í þá átt að auka framleiðni og lækka tilkostnað í þessu kerfi nema fyrir aðhald frá samkeppni. Þeim mun fyrr sem hæstv. landbrh. gerir sér grein fyrir því þeim mun fyrr verður honum eitthvað ágengt í því að rétta hlut bænda í þessu fátæktarkerfi sem þeir hafa verið hnepptir í.