Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:35:41 (735)


[23:35]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. fyrir góð orð og það að vilja leyfa mér að njóta vafans og gefa mér tíma til þess að sýna hvað mögulegt er að gera. Þá vil ég segja við hv. þm. þegar hann minnir á frv. um frestun á ákvörðun greiðslumarks hinn 15. sept. í haust að fyrsta skilyrðið til þess að geta komið fram þessum breytingum er að fá fram þessa frestun á ákvörðun greiðslumarksins. Ef lögin gilda óbreytt sem eru fortakslaus um það að ráðherra skuli ákveða þetta greiðslumark samkvæmt gildandi lögum, samkvæmt búvörusamningi, þá gerir hann það eins og þau ákvæði hljóða í dag og það held ég að sé ekki góður kostur. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá frest til breytinga á þessu og til þess þurfum við tíma, vinnu fram á sumarið og e.t.v. fram á haustið og hugsanlega möguleika á að leggja fyrir þingið breytingar á búvörulögunum í tengslum við hugsanlegar breytingar á endurskoðuðum búvörusamningi þegar þing kemur saman í haust sem ekki liggur fyrir núna. Þess vegna er ósk um það að frv. um þessa frestun verði samþykkt á þessu þingi.
    Varðandi útflutningsbætur er mér ekki alveg ljóst hvað hv. þm. átti við. Ef hann er að velta fyrir sér hugmyndum í frv. um 10% verðmiðlunargjald sem geti verið jöfnun milli hærra og lægra verðs sem fæst fyrir útflutninginn þá eru engar útflutningsbætur í því fólgnar.
    Varðandi óbilgirni um samráð við neytendur eða hagsmunaaðila þá er hv. þm. alveg fullkunnugt um það hvernig staðið var að undirbúningi þessa frv. og átti aðild að því á sínum tíma sem hæstv. utanrrh. þá. Það það var embættismannanefnd fimm ráðuneyta sem vann að undirbúningi málsins og lagði það fyrir ríkisstjórn og þannig liggur það fyrir hér til umræðu.