Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:38:47 (736)


[23:38]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. landbrh. segir: Frestur er á illu bestur, frestur er nauðsynlegur fram í september. Hæstv. ráðherra er, eins og hann tók fram sjálfur, reyndur maður í stjórnmálum. Hann veit það að nú er júnímánuður og hann talar um september. Á þeim tíma sem fram undan er er t.d. unnt að setja fjárlögum ríkisins fjárlagafrv. sem kostar mikla vinnu, viðamesta frv. þingsins. Ég fullyrði af minni litlu reynslu í stjórnmálum að ef hæstv. landbrh. hefur einhverjar mótaðar hugmyndir um það hvernig hann hyggst breyta landbúnaðarkerfinu og hefur lagt það niður fyrir sér með rökstuddum hætti, þá er tíminn nægilegur til þess að bæði setja þær hugmyndir fram, láta vinna þær til framkvæmdar og vinna þeim fylgi ef vilji er fyrir hendi. Það er ekki nóg fyrir forustumenn Framsfl., hæstv. ráðherra, að hafa það að mottói á hverjum vinnudegi að fresta ákvörðunum sem hefur verið einkennandi fyrir þá hingað til.
    Að því er varðar forræði á þessum málum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar er rétt að það komi fram, af því að ég er margbúinn að svara þessu: Sú nefnd fimm ráðuneyta sem vann að þessu máli frá því snemma árs 1993, ef ég man rétt, var á forræði forsrh., pólitískri ábyrgð hans og þeir embættismenn sem þarna unnu að málinu sátu lon og don yfir þessu máli. Það kom ekki til ríkisstjórnar. Það var í pólitískri gíslingu og ekkert pólitískt samráð um þann undirbúning.