Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:43:16 (739)


[23:43]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki klókur í stjórnkerfisleikjum. Ég býst við að stjórnmálafræðingar séu mér klókari í því að fara í slíka leiki á Alþingi og ég get þess vegna sagt í stuttu máli að ég er efnislega sammála þeirri hugsun sem fram kom í andsvari hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Mig langar hins vegar í viðbót, ef ég má, án þess að það sé nokkur stjórnkerfisleikur að benda á að íslenskur landbúnaður er sennilega með lægri markaðshlutdeild en landbúnaður víðast hvar á Evrópumarkaðinum. Enda þótt við framleiðum kjöt og mjólkurafurðir erum við þrátt fyrir allt með mikið af innfluttum landbúnaðarafurðum. Það á ekki síst við í grænmetinu og græna geiranum, sem stundum hefur verið kallaður svo, og hv. þm. sumir hafa borið fyrir brjósti. Við flytjum einmitt inn mikið af grænmeti, auðvitað ávexti, korn og slíka hluti eins og allir hv. þm. þekkja og svo þennan 3,5% viðbótarmarkaðsaðgang.
    Ég vil líka minna á tilboð okkar einu sinni enn sem hljóðaði upp á að 3--5% markaðsaðgangurinn væri á 32% af hámarkstollabindingunni. Það er eins og tilboðið hljóðaði upp á. Ég segi aftur eins og ég sagði áðan, eigum við ekki að gefa þessu tíma, láta reynsluna skera úr um það hvernig þetta verður í framkvæmd?