Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:47:33 (742)


[23:47]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Það eru örfá atriði sem mig langar til að koma að í umræðunni. Ég vil í fyrsta lagi taka fram út af ummælum hæstv. landbrh. sem lét að því liggja að við, sem myndum minni hluta efh.- og viðskn., værum að tala um hömlulausan innflutning. Það er fráleit framsetning. Ég vil benda á að aðalbreytingartillaga mín byggir á því að lækka tollana fyrir lágmarksinnflutninginn. Hv. frsm. nefndarinnar, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, ræddi um að tollarnir væru eðlilegir hér og hv. þm. Pétur Blöndal ræddi um að hér hefði viss málamiðlun átt sér stað. Þetta er fjarri sanni. Tollar á þennan lágmarksinnflutning eru samkvæmt upplýsingum frá Neytendasamtökunum og þær hafa verið staðfestar líka af öðrum innkaupaaðilum eins og Hagkaup og Bónus, sem hafa góð tækifæri á að kaupa inn ódýra vöru, eru t.d. á svínaafurðum um 168%, á nautaafurðum 115%, á eggjum og kjúklingum 149%, 159% á kalkún, tæp 190% á osti, yfir 200% á smjöri. Auðvitað er þetta háð innkaupsverðinu þannig að við megum ekki taka þessar tölur allar bókstaflega. En aðalmálið er að við erum að tala um að tryggja lágmarksinnflutning upp á 3--5%. Ég styð það að íslenskur landbúnaður hafi vernd fyrir hin 95--97%. Ég lagði ekki til lækkun á þeim tollum. En mér finnst þessi uppsetning á frv. ósanngjörn eins og hér er sett fram. Hún er engin málamiðlun vegna þess að hver einasti aðili, sem kom á fund nefndarinnar, hvort sem voru neytendasamtök, forsvarsmenn verslana, forsvarsmenn atvinnulífsins eða verkalýðshreyfingarinnar sögðu allir það sama. Það verður enginn lágmarksinnflutningur á þessum tollum. Það er þetta sem er ámælisvert við frv. að þannig skuli gengið frá því að ekki sé einu sinni loftað aðeins út í þessu kerfi með því að heimila lágmarksinnflutninginn. Síðan er hin aðlögunin að viðbótarinnflutningi. Það er eðlilegt að það taki nokkurn tíma og verði endurmetið í ljósi reynslunnar.
    Hæstv. landbrh. gat reyndar um að þetta væri staðfesting á samningi, uppfylling á samningi, og það er alveg rétt. Þetta finnst mér vera meginatriðið í stefnu stjórnvalda gagnvart þessu máli. Það er verið að uppfylla formskröfuna um að staðfesta samninginn en það sem lagt er til er að í stað banns koma heimildir. En í staðinn fyrir bönnin, sem voru hér áður, halda bönnin áfram með of háum tollum. Það er það sem er ámælisvert við afgreiðslu málsins. Það ríkir ekki sátt og málamiðlun um slíka afgreiðslu. Það átti að tryggja lágmarksinnflutninginn inn á eðlilegu verði. Það var sanngirnin og hugsunin á bak við GATT-samninginn. Það var það sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn vill ekki framkvæma við afgreiðslu málsins.