Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 23:53:08 (744)


[23:53]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ekki vil ég draga úr trú hv. þm. Péturs Blöndals en mikil er hún því að meiri hlutinn lagði ekki til miklar breytingar á þessu frv. Einni viðbótarheimild var bætt inn að það væri hægt að fara niður í 50% hlutdeild úr 75% og það er gefin yfirlýsing um að það skuli hafa hliðsjón af lágmarksinnflutningi. Þetta eru allar þær breytingar sem gerðar voru á þessu frv.
    Hv. þm. veit ósköp vel að þegar við erum að tala um viðskipti og innflutning á vörum eru það hinar raunverulegu stærðir sem skipta máli eins og tolltaxtarnir. Hvaða tollar eru það sem gilda um innflutning vörunnar og það er engin breyting gerð á því máli. Ég er sannfærður um að ekki verður af þessum innflutningi og þær breytingar, sem meiri hlutinn gerði, eru alveg marklausar þótt einstakir þingmenn stjórnarliðsins kjósa nú að skjóta sér á bak við þær og segja að hér sé um einhverja efnisbreytingu að ræða. Það er það ekki.
    Hæstv. landbrh., velviljaður maður, gat um áðan að laga sig að breyttum aðstæðum, láta reynsluna tala, og þetta er mælt af sanngirni. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Ef kemur í ljós að ekki verður af lágmarksinnflutningi ætlar landbrh. að beita sér fyrir því á haustdögum að fram komi frv. sem lækki tollana?