Mál á dagskrá

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:13:29 (757)

[14:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé að á dagskrá þessa fundar hefur verið tekið frv. sem dreift var síðdegis í gær og flutt er af ríkisstjórninni og snertir nýja skattlagningu. Hins vegar er ekki tekið á dagskrá frv. sem einnig var dreift í gær um greiðsluaðlögun sem við flytjum fjórir þingmenn jafnmargra þingflokka, frv. sem við flytjum til þess að koma til móts við þær óskir sem voru settar fram fyrir helgina að brýnt væri að greiða úr gífurlegum vanda þúsunda heimila í landinu vegna húsnæðisskulda, frv. sem við höfum ástæðu til að ætla að meiri hluti sé fyrir í þinginu.
    Við teljum þess vegna mjög brýnt, virðulegi forseti, að þetta frv. fái hér a.m.k. jafnræði á við önnur frumvörp til umfjöllunar og afgreiðslu í þinginu. Það á ekki bara að vera verkefni þessa sumarþings að auka skattlagninguna í landinu þvert ofan í yfirlýsingar stjórnarflokkanna um að auka ekki skattana, heldur á það einnig að vera verkefni þessa sumarþings að greiða úr fjárhagsvanda heimilanna í landinu.
    Ég vil þess vegna í fyrsta lagi mótmæla því að þetta frv. sé ekki á dagskrá líkt og önnur frumvörp sem dreift var hér í gær og tekin á dagskrá og leggja fram þá formlegu ósk að frv. um greiðsluaðlögun, sem ásamt mér er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur, fái framvegis jafnræði á dagskrá þingsins á við önnur frumvörp.