Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:24:13 (763)

[14:24]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. jan. sl., strax eftir snjóflóðið í Súðavík, segir m.a. að ríkisvaldið muni gera sitt ýtrasta til að bæta það tjón sem orðið er og í mannlegu valdi er að bæta. Í upphafi miðaði starf stjórnvalda í þessu máli aðallega að tvennu: Annars vegar aðstoð við þá sem urðu fyrir skaða eða eignatjóni og hvernig greiða skyldi kostnað við björgunarstarf og hins vegar undirbúningi að frv. til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Einnig var nefnt að síðan þyrfti að huga að tillögugerð varðandi framtíð byggðar og atvinnulífs í Súðavík.
    Fyrirsjáanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna snjóflóðsins í Súðavík er nú nær 54 millj. kr. og þar hafa þegar verið greiddar 34 millj. kr. Stærstu liðirnir eru vegna uppsetningar á bráðabirgðahúsnæði í Súðavík og ýmis kostnaður vegna björgunarstarfa.Í þessari tölu er ekki lagt mat á kostnað ríkissjóðs vegna sölutaps, sem væntanlega myndast þegar sumarhúsin verða seld, en ríkissjóður hefur ábyrgst að greiða sveitarsjóði það tap. Einnig er hugsanlegt að fleiri kröfur um greiðslur vegna kostnaðar tengdar björgunarstörfum eigi eftir að koma fram.
    Breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru afgreiddar á 118. þingi, 25. febrúar sl. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa húseignir í stað annarra varnaraðgerða . . .
``

    Ofanflóðasjóður greiðir 90% af kostnaði við slík kaup eins og vegna annarra varnaraðgerða. Félmrh. ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins. Að því er varðar framtíðaruppbyggingu í Súðavík þarf annars vegar að huga að því að nauðsynleg lög og reglugerðir vegna ákvarðanatöku séu fyrir hendi og þeim verði fylgt í hvívetna og jafnframt þarf að kanna kostnað og fjármögnun framkvæmda. Allar ákvarðanir varðandi Súðavík munu hafa fordæmisgildi fyrir aðra staði landsins. Nauðsynleg lög eru fyrir hendi með lögunum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Ofanflóðanefnd hefur samið drög að reglum um hættumat vegna snjóflóða og nýtingu hættusvæða. Þessar reglur verða væntanlega gefnar út af félmrh. nú alveg á næstunni.
    Nefnd nokkurra ráðuneyta, félmrn., umhvrn. og dómsmrn., og ofanflóðanefndar mun semja reglugerð um framkvæmd laganna um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Fyrsta verk nefndarinnar verður að gera tillögur að reglugerð um varnarvirki og/eða kaup húseigna á hættusvæðum vegna ofanflóða. Þar verður m.a. tekið á því hvernig ákvarða skuli greiðslu fyrir hús sem keypt verða. Skipulag fyrir ,,nýja Súðavík`` hefur ekki verið staðfest en það verður væntanlega í þessum mánuði. Til þess að unnt verði að taka ákvarðanir um flutning og/eða kaup húsa og uppbyggingu á nýju svæði þarf að liggja fyrir í fyrsta lagi nýtt hættumat fyrir núverandi byggð. Þetta getur væntanlega legið fyrir skömmu eftir að nýja reglugerðin um hættumat verður gefin út. Í annan stað: Tillögur sveitarstjórnar um flutning og kaup á húsum. Kostnaður við gatna- og lagnagerð í Súðavík er áætlaður allt að 150 millj. kr.
    Sveitarsjóður getur lítið greitt af þeim kostnaði. Sveitarstjórn hefur farið þess á leit við stjórn landssöfnunarinnar vegna Súðavíkur að eftirstöðvum sjóðsins verði ráðstafað til þessa verks. Hér er um að ræða nálægt 70 millj. kr. Sjóðstjórn hefur ekki tekið afstöðu til þessarar óskar. Sveitarstjórn hefur sótt um framlag úr Bjargráðasjóði vegna þessa kostnaðar. Stjórn sjóðsins mun fjalla um þetta erindi í næstu viku. Hér gæti verið um að ræða 15--20 millj. kr. í þessu tilfelli. Sveitarstjórn mun væntanlega leita til Viðlagatryggingar um að hún leggi fram fé til þessara framkvæmda sem bætur fyrir núverandi gatnakerfi sem ekki hefur verið unnt að nýta, en afstaða stjórnar Viðlagatryggingar til þessa máls liggur ekki fyrir.
    Um kostnað vegna flutnings og kaupa á húsum í Súðavík liggja engar beinar tölur fyrir. Á staðnum voru 69 íbúðir. Þar af eyðilögðust 14 í snjóflóðinu. Eftir standa 55 íbúðir. Þar af er e.t.v. unnt að flytja 16 hús. Eigendur flestra þeirra húsa sem þá eru eftir munu ætla að búa áfram á staðnum og vilja byggja ný hús. Við þetta bætast síðan hús í eigu opinberra aðila og fyrirtækja.
    Ofanflóðasjóður hefur nú til ráðstöfunar innan við 200 millj. kr. Árlegar tekjur hans næstu 5 árin eru um 80 millj kr., að meðtöldu sérstöku lögbundnu framlagi Viðlagatryggingar.
    Ljóst er að hörmungunum í Súðavík mun fylgja mun meiri kostnaður en ráð var fyrir gert er ákveðið var að leggja 10% álag á iðgjöld vegna viðlagatryggingar með lögum nr. 36/1995. Að auki hefur víðar orðið tjón þennan vetur eins og öllum er í fersku minni. Því er talið nauðsynlegt til þess að mæta þessum aukna kostnaði að leggja til við Alþingi að breytt verði lögum um Viðlagatryggingu Íslands og lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum á þann veg að næstu fimm árin verði lagt álag á viðlagatryggingariðgjald sem nemur 20% í stað 10% áður, auk þess sem hlutur Viðlagatryggingar Íslands í ofanflóðasjóði verði aukinn úr 5% af heildariðgjaldatekjum í 35%. Þarna tekur sem sagt viðlagatryggingarsjóður mikinn þátt í þessu átaki.
    Er gert ráð fyrir að fyrirkomulag verði með þeim hætti að næst þegar innheimt verður samkvæmt nýjum vátryggingarsamningum, sem eru andlag iðgjalda viðlagatryggingar eða eldri samningar komi til endurnýjunar, verði álag jafnframt lagt á. Standi iðgjaldaauki vegna álagsins í fimm iðgjaldaár. Er vonast til að þessar auknu álögur komi til með að skila rúmlega 500 millj. kr. á næstu fimm árum.
    Miðað við þá atburði sem áttu sér stað sl. vetur sýnist ekki óeðlilegt að Viðlagatrygging Íslands leggi aukið fé í ofanflóðasjóð. Bæði er sérstaklega kveðið á um það í 21. gr. um þá tryggingu að heimilt sé að styrkja framkvæmdir sem ætlað er að varna eða draga úr tjóni af völdum náttúruhamfara og eins virðist mega lesa það út úr þeim upphaflegu hugmyndum sem lágu til grundvallar setningu laganna frá 1975, að hlutverk Viðlagatryggingar Íslands væri ekki einungis að bæta tjón sem þegar er orðið, heldur einnig að reyna að koma í veg fyrir að tjón eigi sér stað. Til þess að efla þannig snjóflóðavarnir og minnka líkur á því að greiða þurfi tjónabætur síðar vegna snjóflóða er ekki talið óeðlilegt að hlutur ofanflóðasjóðs í heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands sé aukinn eins og gert er ráð fyrir í frv.
    Miðað við núverandi heildariðgjaldatekjur Viðlagatryggingar Íslands er gert ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í þeim verði um 177 millj kr. á ári eða sem nemur 885 millj. kr. næstu fimm árin. Þannig er alls gert ráð fyrir að ofanflóðasjóður hafi til ráðstöfunar á næstu fimm árum um 1.400 millj. kr. miðað við að bein framlög úr ríkissjóði haldist óbreytt.
    Með breytingu á lögum um snjóflóðavarnir sl. vetur, reglugerðum sem settar verða á grundvelli þeirra laga og þeirri tekjuöflun sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er tryggt að unnt verður að bregðast við afleiðingum náttúruhamfaranna á sl. vetri. Jafnframt hefur þar með verið lagður grundvöllur að framtíðarskipulagi þessara mála.
    Eins og áður sagði liggja ekki nú fyrir nákvæmar áætlanir um kostnað vegna uppbyggingar í Súðavík og aðgerða á öðrum stöðum. Með þeirri fjáröflun sem hér er lögð til á hins vegar að vera unnt að sinna því sem þarf til uppbyggingar í Súðavík og það geti miðað áfram eins og óskir heimamanna standi til. Það er mikilvægt að við þetta verði staðið. Í ríkisstjórn á sl. kjörtímabili var hæstv. þáv. viðskrh. manna fremstur í flokki að tryggja það að hart yrði brugðist við í þessum efnum. Og hann var einnig fyrstur manna hér á vorþingi að taka þetta mál upp til að tryggja að frá þingi yrði ekki gengið án þess að þessi mál lægju nokkuð ljós fyrir. Og það er líka gleðiefni að í hv. efh.- og viðskn. tóku stjórn og stjórnarandstæðingar vel í þessa tillögu og þá ekki síst hv. þm. Kristinn Gunnarsson og reyndar aðrir góðir þingmenn einnig. Þannig að ég vonast til að þrátt fyrir ýmis átök eins og verða vill þá sjái menn málum þannig borgið að þetta mál lendi ekki á milli þils og veggjar eða milli steins og sleggju í kannski næsta ómerkilegum átökum hér í þinginu.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.