Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:38:04 (766)


[14:38]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að hafa mörg orð um þetta frv. Það er óþarfi því að þingmenn þekkja svo vel og muna svo vel þá atburði sem urðu aðdragandinn að því máli sem hér er flutt.
    Þá hefur hæstv. forsrh. einnig rifjað upp yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hún gaf um loforð um stuðning við þá sem misstu líf og eignir í snjóflóðunum á sl. vetri, ekki aðeins í Súðavík heldur einnig annars staðar þar sem þau flóð féllu. Einnig tók ríkisstjórnin síðasta ákvörðun um það að hefja víðtækan undirbúning að endurhættumati á snjóflóðasvæðum sem er ljóst, eins og hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að mun verða mjög viðamikið og sjálfsagt taka einhvern tíma og mun kalla á mjög mikil útgjöld ef við á að bregðast eins og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gaf tilefni til. Þannig er alveg ljóst og rétt hjá hæstv. ráðherra að þarna eru miklir fjármunir sem verið er að ræða um, fjármunir sem íslenska ríkisstjórnin og Alþingi með afstöðu sinni á sl. ári hafa skuldbundið sig til þess að útvega.
    Það eru um það bil þrjár vikur síðan ég hóf máls á því hér á hv. Alþingi að nú væri framkvæmdatíminn að hefjast og þeir sem urðu illa úti í snjóflóðum á sl. vetri hefðu miklar áhyggjur af því ef tíminn liði, framkvæmdatímabil þessa árs liði, án þess að hægt væri að hefjast handa og fólkið þyrfti því að horfast í augu við þann möguleika að þurfa e.t.v. að flytja inn í hús sín aftur sem það hefði orðið að yfirgefa sakir hættuástands, eins og hæstv. forsrh. rakti í ræðu sinni hér áðan. Ég hef út af fyrir sig ekki neinu við það að bæta. Ég óskaði eftir því við hæstv. forsrh. að hann beitti sér fyrir því að aðgerðir yrðu gerðar sem allra fyrst til þess að taka af allan vafa um það að hægt yrði að nýta framkvæmdatímann í sumar til að hjálpa þessu fólki þannig að það þyrfti ekki að horfast í augu við annan vetur við svipaðar aðstæður og þann síðasta. Þetta er nauðsynlegt skref til þess að það sé hægt og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þennan málatilbúnað og treysti forsrh. til þess að sjá svo til að þegar Alþingi hefur afgreitt þetta mál, sem ég efast ekki um, þá verði undinn bráður bugur að því að hægt verði að nýta þessa fjármuni til þess að ljúka þeim framkvæmdum sem brýnastar eru nú í sumar.
    Auðvitað má um það deila hvaðan á að taka féð. Menn geta vísað til þess að það séu miklir peningar í Viðlagasjóði, en ég vil biðja hv. þm. að huga að því að þeim fjármunum sem þar eru hefur verið safnað saman, ef svo má segja, til þess að bregðast við atburðum sem kunna að gerast og menn óttast að geti gerst, þ.e. Suðurlandsskjálfta, án þess að ég ætli að fara að vera með neinar illspár um það, en Viðlagasjóður endurtryggir ekki. Það hefur farið fram athugun á því hvað það kostar. Það er svo óhemjudýrt að það hefur verið tekin sú ákvörðun af stjórn Viðlagasjóðs og í samráði við heilbr.- og trmrn. að Viðlagasjóður endurtryggði ekki. Þannig að þó að mönnum finnist 5 milljarðar vera mikið fé þá er það ekki svo mikið fé ef einhverjir alvarlegir atburðir gerast. Ég vil einnig minna á að það er ástæða til þess að ætla að sú breyting kunni að vera á veðurfari hér að við gætum átt von á meiri ofanflóðum en verið hafa á undanförnum 2--3 áratugum og minni ég í því sambandi á þá atburði sem nú hafa verið að gerast. Þessi hætta er því ekki bara bundin við vetrarmánuðina og út af fyrir sig óeðlilegt að menn afli fjár með þeim hætti sem hér er gert, þ.e. að andlag fjáröflunarinnar séu þau verðmæti sem eru í tryggingu hjá Viðlagasjóði og ætlast er til að sjóðurinn bæti ásamt með þátttöku ofanflóðasjóðs í tilteknum verkefnum ef erfiðleikar koma upp eða hamfarir í líkingu við það sem varð í vetur. Þannig að þó svo að mönnum finnist vera hér miklir peningar á ferðinni, 1.400 millj. kr. á fimm ára tímabili, þá býst ég við að áður en upp verður staðið og lokið öllum þeim viðfangsefnum sem þarf að ljúka í samræmi við þá stefnumótun sem stjórnvöld hafa tekið þá verði þetta ekki fé sem verði mikill afgangur af, kannski miklu fremur hið gagnstæða, að það vanti meira fé heldur en þarna er um að ræða.
    Ég ítreka það að ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þennan málatilbúnað. Ég lýsi fylgi mínu við þetta frv. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Alþingi mun afgreiða það bæði skjótt og vel og ég ítreka þau tilmæli mín til hæstv. forsrh. að hann vinni með sama hætti og áfram að því að hægt verði að nýta framkvæmdatímabilið þegar þessi afgreiðsla hefur átt sér stað frá Alþingi.