Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:44:10 (767)


[14:44]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir réttum 10 árum voru samþykkt lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Í framhaldi af þeirri lagasetningu var farið að vinna að því að gera hættumat fyrir byggðir á landsbyggðinni sem ætla mætti að byggju við hættu af ofanflóðum, hvort sem þau voru snjóflóð eða skriðuföll. Þessu verki hefur miðað nokkuð áleiðis undanfarinn áratug og er vel á veg komið hvað landið í heild varðar þó að því sé ekki lokið og vantar reyndar nokkuð á. En fyrir mjög mörg byggðarlög liggur fyrir hættumat og einnig tillögur um úrbætur til að mæta þeirri hættu sem menn hafa komist að raun um að er fyrir hendi. Það var því ljóst fyrir nokkru að sá sjóður sem leggja átti til megnið af fjármagni til úrbótanna hvort sem það voru varnarvirki eða annað var býsna vanmegnugur til þess að standa undir hlutverki sínu og greiða sinn hlut eða 80% af kostnaði á móti 20% hlutdeild sveitarfélags. Því brá ég á það ráð fyrir 2--3 árum ásamt tveimur öðrum þingmönnum Alþb. að flytja frv. sem jók hlutdeild sjóðsins í kostnaði úr 80% í 90% til þess að gera sveitarfélögunum það bærilegra að standa undir sínum hluta af kostnaði og jafnframt að koma með tillögu í frv. að tekjuöflun fyrir sjóðinn þannig að hann mætti fá auknar tekjur frá því sem þáverandi lög gerðu ráð fyrir.
    Mál þetta var í vinnslu í þinginu um tveggja ára skeið og tókst má segja gott samkomulag um það og varð úr að það var flutt sem stjfrv. á síðasta þingi og varð að lögum fyrr á þessu ári. Það frv. miðaði útreiknaða tekjuþörf ofanflóðasjóðs við allt annað landslag en við horfðum síðan framan í eftir veturinn sem liðinn er. Frv. gerði ráð fyrir framkvæmdum í ljósi þess mats sem fyrir lá á þeim tíma. En eftir snjóflóðin í vetur hefur mönnum orðið ljóst að menn þurfa að endurskoða hættumatið og breyta um forsendur og mönnum er líka ljóst að þær breytingar leiða til þess að hættan er að jafnaði meiri en menn ætluðu og aðgerðirnar sem grípa þarf til til varnar verða því dýrari og meiri í sniðum en menn ætluðu fram til þessa. Það var þannig ljóst strax í vetur þegar við vorum að afgreiða stjfrv. að það mundi þurfa meira fé til þessa verkefnis en frv. gerði ráð fyrir. Það kemur því ekki á óvart að flutt er frv. um það efni að styrkja fjárhagslega stöðu sjóðsins. Reyndar var nauðsynlegt að gera það strax á vorþinginu til þess að menn mættu leysa úr þeim brýnustu verkefnum sem uppi eru í þessu efni í nokkrum byggðarlögum og mönnum er ljóst að verður að gera fyrir næsta haust.
    Þar sem ég þekki best til veit ég að eru nokkuð mikil verkefni sem menn þurfa að leysa núna í sumar, a.m.k. í þremur sveitarfélögum, þ.e. í Súðavík, í Hnífsdal og á Flateyri og kynnu þau að verða fleiri bæði á Vestfjörðum og annars staðar ef menn athuga það nánar. Þetta er þó vitað um og þessi verkefni ein og sér eru það viðamikil að núverandi tekjustofnar ofanflóðasjóðar duga ekki til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum núna. Því þarf auknar tekjur. Ég fagna því þessu frv. Það kemur til móts við þá þörf sem er og leysir væntanlega úr henni fyrsta kastið.
    Menn skulu hins vegar gera sér grein fyrir því að hér getur verið um að ræða afar fjárfrek verkefni. Í dag er álitið að um 500--600 íbúðarhús séu innan hættusvæða eins og þau eru þekkt í dag. Það er líka álitið að þau muni verða fleiri þegar búið er að gera nýtt hættumat samkvæmt þeim reglum og forsendum sem er verið að móta um gerð slíkra mata. Áætlun er upp á að það geti verið allt að 1.000 hús sem verði innan endurskilgreindra hættumata. Auðvitað liggja ekki fyrir neinar áætlanir um hvað varnarvirki eða úrlausnir kosta í öllum þessum tilvikum. En ef við gefum okkur þann möguleika að öll húsin yrðu keypt og við gefum okkur meðalverð á íbúðarhúsi þá sjá menn strax að hér er um að ræða mjög háar fjárhæðir. Og það er ljóst að menn verða að eyða mörgum árum í að leysa úr þessu verkefni. Við munum ekki leysa það á 4--5 árum.
    Hins vegar er jafnljóst að við þurfum að fara að byrja að vinna að þessu verki strax og vinna það eins hratt og við getum. Og þessi fjáröflun í frv. nú er áfangi á þessari leið. Hún gefur ofanflóðasjóði allt að 1.400 millj. kr. úr að spila á næstu fimm árum og ég held að það sé alveg fullnægjandi fé á þeim tíma. Við munum vita betur að þeim tíma liðnum hvernig mál standa og væntanlega hafa menn þá nákvæmari áætlanir um kostnað við þær úrbætur sem menn þurfa að grípa til.
    Þegar aflað er nýrra tekna í sjóð eins og þennan þá þarf einhvers staðar að taka peninga. Það er ekki hægt að búa til peninga úr engu. Og í þessu tilviki hafa menn brugðið á það ráð að sækja fjáröflunina í tvo staði. Annars vegar með því að hækka álögur á fasteignaeigendur að mestu leyti og hins vegar með því að taka fé sem annars hefði runnið í annan sjóð, Viðlagasjóð, og færa það um fimm ára skeið yfir í ofanflóðasjóð. Ég lýsi mig fylgjandi þessum tillögum. Ég tel að þær séu skynsamlegar. Nýjar álögur á almenning eru ekki háar af þessari fjárhæð sem er í heild um 1 milljarður kr. sem er viðbótarfjáröflunin í ofanflóðasjóð. Lítill hluti viðbótarinnar kemur af nýjum álögum á fasteignaeigendur, en mestur hlutur kemur úr því sem annars hefði runnið í Viðlagasjóð.
    Ég tek undir áhyggjur síðasta ræðumanns um það að menn gangi um of á Viðlagasjóð því að honum er ætlað ákveðið verkefni sem geta komið til fyrr en varir í kjölfar eldgosa eða annarra slíkra stórra atburða. Við megum ekki falla í þá gryfju að taka það fé sem í honum er nú, ganga á þann höfuðstól til þess að ná í aura fyrir önnur verkefni. Reyndar er ekki skynsamlegt að mínu mati að taka af Viðlagasjóði tekjustofna hans til frambúðar, en ég get fallist á að taka hluta af tekjustofni hans um fimm ára skeið meðan menn eru að koma þessu verkefni af stað.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum ítreka stuðning minn við þetta mál og láta það koma fram enn einu sinni að það er afar brýnt að málið nái fram að ganga fyrir lyktir vorþingsins.